tærsti glæpur Gylfa og Seðlabankans var að hylma yfir með lögbrjótum og það er lögbrot

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15,8,2010.

Ég svaraði Merði á síðunni hans í gær og vil birta það svar hér:

Mörður, ég get alveg tekið undir að velta má fyrir sér hvort Gylfi hafi gert þetta viljandi eða ekki (eða þannig skil ég orð hans). Mér finnst þetta snúast um þrennt:
1) hvort Gylfi hafi yfirhöfuð skilið spurningu Ragnheiðar.
2) hvort hann hafi áttað sig á muninum á „myntkörfuláni“ og „erlendu láni“.
3) hvort skildi hann innihald minnisblaðs.

Ef ég byrja á þessu fyrsta, þá er mikill vafi á þessu. Ragnheiður spyr um myntkörfulán og Gylfi segist vera svara henni og tala um erlend lán. Þ.e. eitt af eftirfarandi gerðist 1) hann skildi ekki spurninguna, 2) ruglar saman myntkörfuláni og erlendu láni eða 3) snýr viljandi út úr.

Vafist þá eitthvað fyrir Gylfa hvað er erlent lán og hvað er myntkörfulán? Ef svo var, þá erum við í vondum málum, því við þurfum að velta fyrir hvað fleira vafðist fyrir Gylfa að skilja.

Nú loks er það varðandi minnisblað Sigríðar Rafnar Pétursdóttur. Í því kemur skýrt fram að í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 sé bara heimilt að verðtryggja með vísitölu neysluverðs og því sé gengistrygging óheimil. Hún segir einnig að vafi kunni að vera á því hvaða lán falla undir ákvæði greinarinnar og loks að greinin banni ekki lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum. Sigríður Rafnar segir í niðurstöðukafla minnisblaðs síns, að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, séu ekki ólögmæt, en hún leggur líka áherslu á í niðurstöðukaflanum að bara megi verðtryggja lán í íslenskum krónum með vísitölu neysluverðs. Gylfi lyndi því Alþingi helmingnum af niðurstöðu Sigríðar í undirkafla 4.1. Gerði hann það viljandi, las hann ekki lengra eða skildi hann ekki minnisblaðið. Það skal bent á að Sigríður eyddi mun meira púðri í gengistrygginguna en erlend lán.

Þetta sagði ég á blogginu hans Marðar, en ég vil bæta við að málflutningur Steingríms J frá því í gær þegar hann reynir að færa sökina á klúðri Gylfa yfir á Ragnheiði, er aumkunarverður.  Ég er í samskiptum við talsverðan hóp þingmanna og einn þeirra sagði mér í vikunni, að þingmenn hefðu margir áttað sig á því að Gylfi hafi snúið út úr með því að segja "erlend lán" í stað "myntkörfulán".  Þeir hafi bara ekkert geta gert.  Dagskrárliðurinn sé þess eðlis að ekki sé hægt að koma að athugasemd við síðustu ræðu þess sem svarar fyrirspurn.  Aðrir þingmenn hafa sagt mér að aldrei fáist hreinskilin svör frá Gylfa í fyrirspurnartímum, hvorki þegar fyrirspurn er undirbúin né þegar hún sé óundirbúin.

Einnig vil ég birta hér svar til Baldurs McQueen á Eyjunni, en hann tekur þátt í þessum leik að færa sökin yfir á þingmenn út í sal:

Ég get sagt þér að margir þingmenn úti í sal kveiktu á „mistökum“ Gylfa. Þingmenn hafa sagt mér að þeir hafi orðið alveg æfir út í ráðherrann, en þeir hafa ekki önnur úrræði til að spyrja hann beint en í gegn um svona fyrirspurnartíma. Þess vegna hefur Gylfi verið spurður líklega þrisvar til viðbótar um þetta sama málefni og alltaf hefur hann ekki svarað sannleikanum samkvæmt. Brotavilji hans hefur því miður verið mjög einbeittur. Tvisvar var hann spurður um hvort ráðuneytið hefði lögfræðiálit undir höndum. Annað skiptið veitti hann munnlegt svar en í hitt skiptið skriflegt svar. Þetta mál eftir að verða ennþá stærra áður en það byrjar að fölna.

Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna fengum veður af því í águst á síðasta ári, að til væri lögfræðiálit í viðskiptaráðuneytinu sem segði gengistryggingu lána ólöglega. Þá er ég ekki að vísa til álita talsmanns neytenda og Björns Þorra Viktorssonar, heldur að til væri utanaðkomandi álit virtrar lögfræðistofu. Okkur datt ekki í hug að auk þess álits væru tvö mjög skýrt orðuð minnisblöð og þar af annað frá Sigríði Logadóttur, aðallögfræðings Seðlabankans. Jæja, við skoruðum á nokkra þingmenn að beina fyrirspurn til Gylfa um hvort þetta álit væri til. Því miður var spurningin of þröngt orðuð og þess vegna gat Gylfi vikið sér frá því að segja að álit LEX væri til. Af þeirri ástæðu var spurt aftur og aftur vék Gylfi sér undan því að svara af heiðarleika. Í millitíðinni hafði talsmaður neytenda fengið að sjá minnisblað Sigríðar Rafnar, en ráðuneytið nýtti sér ákvæði í lögum og ákvað að trúnaður ætti að gilda um álitið, þannig að Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, gat ekki greint frá innihaldi minnisblaðsins. Ráðuneytið reyndi því allt sem það gat til að fela það fyrir almenningi, að lögfræðingur ráðuneytisins hafi komist að samhljóða niðurstöðu og ég, HH, Gísli Tryggvason og Björn Þorri og raunar fleiri aðilar, að gengistrygging væri ólögleg samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Ráðuneytið brást líka þeirri skyldu sinni að vekja athygli FME á málinu (að því virðist) og þar sem ráðuneytið var þeirrar skoðunar að lögbrot hafi verið framið, þá braut það lög með því að tilkynna ekki um lögbrotið. Það varð samsekt.

Það er þetta síðasta í svarinu til Baldurs sem ég vil gera að umræðuefni hér.  Af hverju kærðu hvorki Seðlabankinn né viðskiptaráðuneytin grunuð lögbrot fjármálafyrirtækjanna til lögreglu?  LEX lögmannsstofa, Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands, og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur viðskiptaráðuneytisins, höfðu öll komist að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Samkvæmt 18. gr. sömu laga varða brot gegn lögunum sektum.  Það felur í sér aðkomu löggæsluyfirvalda og dómstóla.  Af hverju hunsuðu þessir opinberu aðilar skyldu sína að kæra?  Ekki hefur vafist fyrir Seðlabanka og/eða FME að kæra brot á gjaldeyrislögum til lögreglu.  Eru brot gegn vaxtalögum ómerkilegri brot?  Eða var þetta hluti af samtryggingu stjórnvalda með fjármálakerfinu, sem var toppuð með tilmælum SÍ og FME 30. júní síðast liðinn.

Ég verð að segja, að það er svo margt í þessu máli öllu sem gengur engan veginn upp nema að ætla verður ríkisstjórninni, Seðlabanka og FME að þessir aðilar hafi ákveðið að verja hlut fjármálafyrirtækjanna.  Lögbrot hafa verið framin hér hægri - vinstri, en menn gera allt til að bjarga lögbrjótunum.  Kaupþing, Glitnir, Landsbanki Íslands, Icebank, BYR og hugsanlega SPRON völtuðu yfir lögin eins og þeim kæmi þau ekki við með ólögmætum viðskiptaháttum, bókhaldsfiffi, markaðsmisnotkun, blekkingum og ég veit ekki hvað.  Þessi fyrirtæki og Lýsing, SP-fjármögnun, Avant, SagaCapital, AskarCapital, VBS, Frjálsi fjárfestingabankinn og fjölmargir sparisjóðir um allt land brutu lög með því að veita lán með ólöglegri gengistryggingu.  Af hverju kærðu viðskiptaráðuneyti og Seðlabanki ekki þessi fyrirtæki til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í fyrra sumar?  Þau geta ekki borið fyrir sig, að ekki hafi verið vitað hvaða lán heyrðu undir 13. og 14. gr. og hver ekki, þar sem það er efnahagsbrotadeildarinnar og síðar saksóknara að ákveða það.  Og af hverju er ekki búið að kæra þessa aðila nú þegar?  Er það í lagi að brjóta lögin, þegar í hlut á lánafyrirtæki með marga starfsmenn, en þegar í hlut eiga fjögurra manna fyrirtæki sem stundar gjaldeyrisviðskipti, þá er það glæpur gegn þjóðinni?

Meðvirkni stjórnvalda, Seðlabanka og FME gagnvart brotum fjármálafyrirtækjanna ríður ekki einteymingi.  Ítrekað taka þessir aðilar upp hanskann fyrir fyrirtæki sem farið hafa mjög illa með þjóðina.  Er mönnum sjálfrátt í vitleysunni?  Og núna kemur í ljós að fyrir 15 mánuðum lá fyrir í Seðlabanka Íslands álit sem sagði að fjármálafyrirtæki væru að brjóta lög. Það heitir yfirhylming að greina ekki frá grun sínum um lögbrot.  Lögfræðiálit eða ekki, gruni einhvern að annar aðili brjóti lög og greinir ekki frá því, þá er sá að hylma yfir með lögbrjóti.  Það er Gylfi sekur um, það er viðskiptaráðuneytið sekt um og það er Seðlabanki Íslands sekur um.


Fráleitt að Gylfi hafi logið