FME tekur ekki afstöðu til gengistryggðra lána - Tekur FME afstöðu til nokkurs?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.1.2010.

Hagsmunasamtök heimilanna sendu Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn um lögmæti gengistryggðra lána 18. maí 2009.  Sjö mánuðum síðar, eftir nokkrar ítrekanir kom svar.  Það er sem hér segir:

Beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna felur í sér að Fjármálaeftirlitið veiti lagalega álitsgerð um lögmæti gengistryggðra skuldabréfa.  Fjármálaeftirlitið  bendir á í því sambandi að hlutverk þess er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.  Það samræmist ekki hlutverki Fjármálaeftirlitsins að veita lagalega álitsgerð til Hagsmunasamtaka heimilanna.  Þá er Fjármálaeftirlitinu ekki falið úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.

Þetta er heljarinnar réttlæting hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir því að hafa staðið hjá meðan íslensk fjármálafyrirtæki hafa vaðið yfir íslensk lög á skítugum skónum.  Fyrir utan að FME fer í nokkra andstöðu við sjálft sig.  Í svarinu segir nefnilega "að hlutverk [FME] er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti".

Ég verð að viðurkenna, að allt of margt í starfsemi fjármálafyrirtækja undanfarin ár á ekkert skylt við "eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti".  Ef hagsmunasamtök, eins og Hagsmunasamtök heimilanna, geta ekki vísað til FME máli, þar sem efast er um að "starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur" vegna þess að "[þ]að samræmist  ekki hlutverki Fjármálaeftirlitsins að veita lagalega álitsgerð" til samtakanna, þá skil ég ekki hverjir eiga að geta leitað til FME um álitamál.  Eru það bara fjármálafyrirtækin sem mega leita til FME?

Tökum bara bullið með SP-fjármögnun.  Fyrirtækið hefur boðið gengistryggð lán í gengissjóði!  Ég skora á fólk að lesa færslu Þórdísar Bjarkar Sigurþórsdóttur um þetta, sjá Neytendalán í gervigjaldmiðlum.  Tekur FME ekki svona mál til athugunar?  Ef ekki, hvert er þá verksvið FME?  Hver er skoðun FME á gengistryggðum lánum?  Er þögn sama og samþykki?  Það verður að segja að þögn stofnunarinnar er æpandi.