Stýrivextir lækka en raunstýrivextir hækka!

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.1.2010.

Ég verð að viðurkenna, að mér fannst vera svigrúm til meiri lækkunar stýrivaxta.  Stýrivextir umfram veðbólgu hafa á undanförnum mánuðum verið talsvert lægri, en þeir verða við þessa ákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.  Þarf að fara aftur til júní  á síðasta ári til að finna sambærilega raunstýrivexti, en þá voru þeir 2,82% samanborið við 2,92% eftir þessa ákvörðun.  Lægst fóru raunstýrivextir niður í 1,1% í ágúst og hafa síðan verið að hækka hægt og bítandi.  Stökkið núna nemur rúmlega 0,4%, þ.e. úr 2,48% í 2,92%.

Mér finnst vera mikilvægt að Peningastefnunefndin sýni trú sína á hagkerfið.  Bandastjórn Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar gerði það ekki með því að halda raunstýrivöxtum langtímum saman yfir 5% og þaðan af hærra.  Hæst fóru raunstýrivextir í tæp 9,9% í ágúst 2007 sem þá jafngilti nærri því þrefaldri ársverðbólgu.  Ekki sýndi það beint trú bankans á að vopn hans bitu.

Forvitnilegt verður að sjá hvort bankarnir bregðist við þessari lækkun með því að lækka en frekar útlánsvexti sína.  Því miður hefur atvinnulífið þurft að greiða allt of háa vexti undanfarin misseri, vexti sem hamla alla uppbyggingu og vöxt.  Með fjármagnskostnað upp á 12 - 15% og þaðan af meira, er erfitt annað en að hleypa þeim kostnaði út í vöruverðið.  Nú er verðbólgan komin niður fyrir 7% og það sem meira er, að þriggja mánaða verðbólga er komin niður fyrir 4% (3,6% til að vera nákvæmur).  Mér hefur alltaf fundist skammtíma verðbólgumæling vera mun marktækari mælikvarði á ástandið í þjóðfélaginu og skarpari breytingar séu líklegri til að skila árangri.  Höfum í huga að þriggja mánaða verðbólga mun fara talsvert niður fyrir 3% í næstu mælingu, þó svo að ársverðbólgan haldist óbreytt milli mánaða.


Stýrivextir lækka í 9,5%