Óskiljanlegur málflutningur ráðherra

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.2.2010.

Ég á stundum í mestu erfiðleikum með að skilja Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.  Hér kemur enn eitt atriðið sem ég skil ekki í málflutningi hans.  Hann heldur því fram í ræðustóli á Alþingi að

staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. febrúar sl. í gengistryggingamáli gætu lántakendur verið í verri stöðu en annars

og rökstuðningur hans er:

Þá blasir við og það er tiltekið í lögum um vexti og verðtryggingu, að miða beri við vexti sem birtir eru af Seðlabankanum og eru hagstæðustu útlánsvextir á hverjum tíma.

Skoðum nú betur hvar þetta stendur í lögunum. Þetta er í 4. gr. laganna, en hún hljóða svona í heild:

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. (leturbreyting MGN)

Þetta ákvæði, sem Gylfi vitnar í, á eingöngu við þegar vextir hafa ekki verið tilgreindir í lánasamningnum.  Málið er að í öllum samningunum er "hundraðshlutfall þeirra eða vaxtaviðmiðun" tiltekið.  Greinin sem Gylfa vitnar til á því ekki við.  Auk þess segir í 2. gr. 

Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

Loks segir í 18. gr. laganna:

Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

Þegar þetta er allt lagt saman, þá getur lántaki ekki lent í verri stöðu.  Eða það þarf alveg einstaklega einarðan vilja Hæstaréttar til að túlka allan vafa í lögunum fjármálafyrirtækjunum í hag, til að slíkt gæti gerst.  Hef ég enga trú á því miðað við þau dómafordæmi sem Eyvindur G. Gunnarsson benti á í síðasta Silfri Egils.