Íslenskt lán, myntkörfulán, gengistryggt lán eða erlent lán - hver er munurinn?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.2.2010.

Það er nú kannski að æra óstöðugan að koma með enn eina færsluna um þessa deilu um gengistryggðu lánin, en ég má til.  Í umræðu undanfarna daga, þá hefur mörgum reynst hált á svellinu þegar kemur að því að ákveða hvað þessir fjármálagjörningar kallast.  Hagmunasamtökum heimilanna tóku þá afstöðu snemma á síðasta ári að nota alltaf hugtakið "gengistryggt lán" og sérstaklega eftir að farið var að vekja athygli á vafanum um lögmæti lánanna.  Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er (og var), að um er að ræða lán milli tveggja innlendra aðila sem sótt er um í íslenskum krónum, greitt út í íslenskum krónum, tekur höfuðstólsbreytingum í íslenskum krónum og greitt er af í íslenskum krónum.  Það er bara verðtryggingarákvæðið sem er með tengingu við gengi og í mjög mörgum lánasamningum er hreint og beint tiltekið að lánið sé gengistryggt.  Með þessu er jafnframt verið að tengja hugtakanotkun okkar við 13. og  14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.

Í umræðu síðustu mánaða hafa komið fram alls konar rök fyrir því hvers vegna svo kölluð myntkörfulán geta ekki verið neitt annað en venjuleg íslensk lán með mismunandi verðtryggingu.  Langar mig að rifja það upp, eins og ég man það.

  • Myntkörfur eru breytilegar og gat hver lántaki valið um þá kröfu sem hann vildi.  Myntkörfur gátu þannig innihaldið krónuna, bæði verðtryggða og óverðtryggða, í bland við erlendar myntir.

  • Hægt var að breyta hlutföllum mynta innan körfunnar eftir fyrirfram ákveðnum reglum á lánstímanum.

  • Gefið var út eitt skuldabréf með mörgum ólíkum myntum, þar með talið krónum, og þetta skuldabréf var í krónum.  Oft var meira að segja talað um jafnvirði íslenskra króna.

  • Dæmi voru um að myntkörfur væru gefnar út í sjóðseiningum, sbr. SP-5 sjóðurinn hjá SP fjármögnun, sem ekki er hægt að skilja á neinn hátt annan en afleiðu fremur en mynt.

  • Myntkörfulánum var þinglýst í íslenskum krónum.

  • Á lánsumsókn var óskað eftir upphæði í íslenskum krónum, útborgun var í íslenskum krónum, afborgun var í íslenskum krónum.

Þetta er vafalaust ekki tæmandi listi, en sýnir að það var eingöngu í orði en ekki á borði að einhverjar erlendar myntir væru með í þessu spili.  Þessi lán voru mjög einfaldlega íslensk fjárskuldbinding tengd við dagsgengi mismunandi gjaldmiðla og stundum bara að hluta.

Þá er spurningin hvort hér sé um að ræða "erlent lán".  Getur neytendalán á Íslandi talist "erlent lán"?  Þessu svarar löggjafinn í lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.  Í 1. gr. laganna er skilgreining á því hvað telst innlendur aðili.  Þar segir í 2. tölulið:

sérhvern lögaðila sem skráður er til heimilis hér á landi á lögmæltan hátt, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi; hérlend útibú lögaðila, sem heimili eiga erlendis, teljast til innlendra aðila.

Aðrir teljast "erlendir aðilar".

Einnig er skilgreint í lögunum hvað eru innlend verðbréf og erlend verðbréf.  Skoðum hverjar þessar skilgreiningar eru:

Innlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem innlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.

Erlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem erlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.

Það stendur því skýrum stöfum í lögunum, að verðbréf sé innlent ef útgefandinn er innlendur. Erlent lán getur því aldrei verið gefið út af innlendum aðila.  Á þessu er raunar klykkt í athugasemd með frumvarpinu að lögunum, en þar segir (eins og ítrekað hefur komið fram) um 1. gr.:

Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í. Þannig er verðbréf ávallt innlent ef aðili búsettur hér á landi gefur það út og gildir þá einu hvort það er gefið út hér á landi, erlendis, í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Þessar skilgreiningar eru í samræmi við skilgreiningar OECD. Bent skal á að í daglegu tali hér á landi eru verðbréf hins vegar iðulega flokkuð eftir myntinni eða útgáfustaðnum.

Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent.

Íslensk fjármálafyrirtæki geta því ekki gefið út erlend lán.  Þau geta gefið út lán í erlendri mynt, en lánið er íslenskt.  Á þetta bendir Gunnlaugur Kristinsson, löggiltur endurskoðandi, í grein á Eyjunni fyrir áramót og vil ég enn og einu sinni vitna í þá grein hér, þar sem hann ályktar um eðli lánanna út frá sínum lagaskilningi:

Nánast undantekningalaust hefur veiting lána í erlendri mynt eða lána með gengistryggingu, til almennings og fyrirtækja á Íslandi, verið veitt til viðskipta þar sem undirliggjandi verðmæti eru í íslenskum krónum og greiðsla til lántaka verið í íslenskum krónum þrátt fyrir hin gengistryggðu ákvæði eða hreinlega erlend lánsfjárhæð tilgreind í texta skuldabréfsins... Skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er því alltaf í íslenskum krónum, ef útgreiðsla lánsins var í íslenskum krónum og lánveitandinn er innlendur aðili, hvernig sem á málið er litið enda er íslenska krónan eini lögmæti gjaldmiðill landsins.

Niðurstaða mín er svipuð og Gunnlaugs:  Lán sem íslensk fjármálafyrirtæki hafa veitt frá gildistöku laga nr. 87/1992 eru íslensk óháð því í hvaða mynt lánin eru veitt.  Næsta spurning er því hvort heimilt sé að veita lán í erlendri mynt hér á landi, sé það heimilt hvaða reglur gilda um slíka lánveitingu og hvort rétt sé að takmarka lánveitingarnar við tiltekinn hóp viðskiptamanna og þá fyrst og fremst fyrirtæki. Loks bera að velta fyrir sér hvenær er skuldbinding í lánasamningi í íslenskum krónum, þó erlendur gjaldmiðill sé tiltekinn í lánasamningnum, og hvenær er hann það ekki.  Það er nefnilega kjarninn í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að með lögunum var heimildin "til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla" felldar niður.  Eða eins og segir:

Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

Ég tek það fram, að ég hef ekki svar við þessum spurningum, þ.e.:

  1. Er heimilt að veita lán í erlendri mynt hér á landi?

  2. Sé það heimilt hvaða reglur gilda um slíka lánveitingu?

  3. Er rétt að takmarka slíkar lánveitingarnar við tiltekinn hóp viðskiptamanna og þá fyrst og fremst fyrirtæki?

  4. Hvenær er skuldbinding í lánasamningi í íslenskum krónum, þó erlendur gjaldmiðill sé tiltekinn í lánasamningnum, og hvenær er hann það ekki?

en brýnt er að svör við þeim fáist.  Ég tók nefnilega eftir því, þegar lögmaður var beðinn um það af Speglinum á RÚV um daginn að gefa hlutlausa lýsingu á afleiðingum bíladómsins, þá átti hann í mestu vandræðum með að vera hlutlaus og kom upp með alls konar varnir fyrir fjármálafyrirtækin.  Það væri því vel þegið, ef einhver nægilega kunnugur lögum gæti komið með innlegg í þessa umræðu.

Þegar Hæstiréttur tekur fyrir áfrýjanirnar tvær í bílalánamálunum, þá verður það helsta viðfangsefni dómaranna að ákveða hvort viðkomandi lánasamningar hafi verið skuldbinding í íslenskum krónum eða ekki og hver er munurinn á skuldbindingu í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli.  T.d. lántaki sem sækir um upphæð í íslenskum krónum, eins og ég býst við að flestir gera.  Hefur það áhrif á skilgreininguna að sótt var um í íslenskum krónum eða skiptir það engu máli.  Höfum í huga, að viðkomandi hefur engin áhrif á orðalag skuldabréfsins og í flestum tilfellum sér viðkomandi aldrei neitt annað en íslenskar krónur.  Lánveitandinn sér líklegast heldur ekkert annað en íslenskar krónur, þó einhver bókhaldsfærsla sýni debet og kredit færslu í erlendri mynt.  Það gæti meira að segja skipt sköpum fyrir lántaka hvort mynt tengingin er í einni mynt eða tveimur eða hvort að hluta til sé tengt við íslenskar krónur. í augum lántakans er um sama gjörning að ræða, sem aftur lögin geta verið að túlka á marga mismunandi vegu.  Er þá hægt að ætlast til þess, að lántaki, sem er leikmaður þegar kemur að lögunum, eigi að hafa fullan skilning á mismuninum.  Auk þess má reikna með því, að lánveitandinn hafi notað sama skuldabréfaformið hvort heldur um var að ræða eina mynt, erlenda myntkörfu eða lán að hluta í íslenskum krónum.

En svo ég svari spurningunni í fyrirsögn greinarinnar, þ.e. hver er munurinn á íslensku láni, myntkörfuláni, gengistryggðu láni og erlendu láni, þá held ég að taka megi það saman í eftirfarandi:

  • Íslenskt lán er lán þar sem útgefandi lánsins er með heimilisfestu á Íslandi óháð í hvaða mynt lánið er

  • Erlent lán er lán þar sem útgefandinn lánsins er ekki með heimilisfestu á Íslandi óháð mynt lánsins

  • Myntkörfulán er lán sem er bundið var myntum í tilbúinni körfu af myntum og breytist höfuðstóll þess með dagsgengi þeirra gjaldmiðla sem eru í körfunni.  Þetta lán telst samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms vera gengistryggt lán (sjá nánar næsta lið).

  • Gengistryggt lán er skuldbinding í íslenskum krónum sem tengt er dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Héraðsdómur úrskurðaði að gengistrygging væri eitt form verðtryggingar og væri þetta form í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og felldi hana því úr gildi.

Nú ef erlent lán hefur ekkert með það að gera hvort lán sé í erlendri mynt og hvort það er greitt út í erlendri mynt, hvað kallast þá þau lán sem tekin voru í erlendri mynt, greidd út í erlendri mynt og endurgreidd í erlendri mynt?  Og annað:  Hafa öll fjármálafyrirtæki leyfi til að veita slík lán eða er heimildin takmörkuð við einhver tiltekin fjármálafyrirtæki og þá hver?  Þetta síðasta skiptir máli, þar sem fjármögnunarfyrirtæki/fjármögnunarleigur eru ekki með full réttindi á við viðskiptabankana og það er því mikilvægt að vita hvar mörkin liggja varðandi gjaldeyrisviðskipti.  Fróðlegt væri að fá svar við þessu frá aðila sem þekkir nógu vel til laga um fjármálafyrirtæki til að vita eða hafa einhverja hugmynd um hvert svarið er.