Fátækt er raunverulegt og stækkandi vandamál

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.12.2011.

Mikil umræða er í nokkrum vefmiðlum um einstæða móður, sem hafði ekki efni á að kaupa kuldaflík á 7 ára dóttur sína.  Eins hræðilegt og þetta er, þá ætti þetta ekki að koma nokkrum manni á óvart.  Lífskjararannsókn Hagstofnunnar, sem birt var um daginn, sýnir að staða einstæðra foreldra er mjög erfið og stór hluti þeirra, 78,4%, eiga erfitt með að ná endum saman.  Tala sem hefur farið hækkandi undanfarin ár.  Því miður hafa stjórnvöld lítið sem ekkert hugsað fyrir neyð þessa hóps og látið sem allt snúist um skuldavanda.  Ég hef aftur ítrekað bent á að:

Skuldvandi er ekki vandamál nema honum fyldi greiðsluvandi, meðan greiðsluvandi er alltaf vandamál hvort sem honum fylgir skuldavandi eða ekki.

Stjórnvöld verða að átta sig á þessum sannindum og fara að bregðast við þeim.

Fátækt er raunverulegt vandamál

Í september í fyrra var haldinn fundur í Ráðhúsi Reykjavíkur um fátækt.  Ég var einn af þeim sem sátu fyrir svörum á fundinum.  Þar kom margt áhugavert fram, en fyrst og fremst hversu veikburða félagslega kerfið er hér á landi.  Markmið þess virðist vera að skera allt við nögl og vísa síðan fólki á hjálparstofnanir.  Ég skrifaði færslu um fundinn og hvet ég  fólk til að lesa hana, þar sem mér sýnist að því miður hafi minna áunnist á síðustu 15 mánuðum en efni hafa verið til.  Raunar sýnist mér, sem við séum sífellt að færast fjær markinu.

Staðreyndin er að fátækt er raunverulegt og vaxandi vandamál.  Er svo sem þekkt að slíkt gerist í kjölfara skuldakreppu, eins og þeirrar sem við erum að kljást við hér.  Í vinnu minni fyrir svo kallaðan sérfræðingahóp um skuldamál heimilanna fyrir rúmu ári þá settum við tölur í alls konar samhengi.  Skrifaði ég færlsu um máli í byrjun nóvember í fyrra sem ég byrja á eftirfarandi orðum:

Eftir að hafa setið yfir tölum í nokkrar vikur um afkomu heimilanna, greiðslugetu og skuldastöðu, þá finnst mér einsýnt að hér munu hlutirnir ekki færast í samt lag nema kaupmáttur aukist með hækkandi tekjum.  Slík hækkun tekna verður að ná til allra hópa með undir 450 þús.kr. í laun á mánuði.

Því miður er staðan sú, að tiltekinn hópur fjölskyldna hefur ekki tekjur til að standa undir lágmarksneyslu, hvað þá að hafa eitthvað afgangs til að greiða fyrir húsnæði.  Þetta er vandamál sem nær til allra fjölskyldugerða, en þó síst hjá barnlausum hjónum.

Lokaorð færslunnar voru síðan:

Allt virðist þetta bera að sama brunni:  Stór hópur landsmanna hefur ekki efni á því lífi sem þeir lifa, hver svo sem ástæðan er.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar frá því fyrir ári um fjölda heimila sem áttu ekki fyrir neyslu, samkvæmt neysluviðmiðum sem Umboðsmaður skuldara notaði.  Viðmiðin eru annars vegar margfölduð með 1,5 og hins vegar 2,0 þar sem inn í þau vantar gríðarlega háa útgjaldaliði, eins og dagvistun, símkostnað, tryggingar og fleira svona "smávægilegt".

Taflan sýnir að ríflega 7.000 heimili eiga ekki fyrir almennri neyslu miðað við naumhyggju neysluviðmið sem leiðrétt eru með tilliti til þátta, sem skoðaðir eru sérstaklega í hverju tilfelli.  Þetta er eitthvað um 5% heimila í landinu og þegar kemur heimilum þar sem foreldrar eru einstæðir, þá er hlutfallið mun hærra.

Fyrir þessi heimili dugar ekki að hækka vaxtabætur eða koma með smávægilega hækkun barnabóta.  Eina sem dugar er veruleg hækkun launa, meðlags og barnabóta.  Þessir hópar þurfa að vinna upp kaupmáttarskerðingu undanfarinna ára.  Fyrir þá sem þetta dugar ekki, þá þurfa sveitafélögin að grípa inn í á mun meira afgerandi hátt.

Ég geri mér alveg grein fyrir að fjölmargir einstaklingar misnota sér kerfið, eru í óreglu eða hafa ekki getu til að stjórna sínum fjármálum.  Varnir gegn slíku mega ekki bitna á þeim sem eru ekki í þannig málum.