Mótormax 4 - Landsbankinn 3, tæpara gat það nú ekki verið

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.6.2011.

Ég er bæði hissa og ekki yfir niðurstöðu Hæstaréttar í dag.  Fyrst og fremst er ég þó hissa að dómur sé kominn 3 dögum eftir að málflutningi lauk. 

Í færslu um daginn, þá velti ég því fyrir mér af hverju ákveðið var að endurflytja mál fyrir fullskipuðum rétti.  Ég gaf upp nokkrar mögulegar skýringar, þ.e.

A.  Hæstiréttur er orðinn pirraður á endalausum málferlum vegna gengistryggðra lána.

B.  Hæstiréttur ætlar að fjalla um túlkun á stjórnarskránni. 

C.  Ætlunin er að kveða úr um vexti lánanna.

D.  Breyta á fyrri niðurstöðu um lögmæti gengistryggingar.

E.  Breyta á fyrri niðurstöðu um vexti lánanna.

Ég verð að viðurkenna, að ég sleppti viljandi einni skýringu, sem ég hef aftur tjáð mig um í hópi félaga minna, og mér sýnist sem hún hafi verið raunin

F. Niðurstaða 5 manna dóms breytti fyrri dómum.

Samkvæmt því sem kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þá voru þeir þrír sem mynduðu minnihluta réttarins í dag í 5 manna dómi þegar málið var flutt í hið fyrra skipti fyrir Hæstarétti.  Miðað við að málið var flutt fyrir 7 manna dómi sl. mánudag, þ.e. fyrir þremur dögum, þá er ljóst (að mínu mati) að dómarar voru ekki að taka afstöðu í málinu á þessum rúmlega tveimur sólarhringum frá því málflutningi lauk.  Þriggja manna minnihlutinn myndaði þriggja manna meirihluti áður.

Meirihlutinn bendir á í sínu áliti að rétturinn hafi áður dæmt um ólögmæti sambærilegra lánasamninga í málum 30/2011 og 31/2011:

Þá er til þess að líta að Hæstiréttur hefur í dómum sínum 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem höfðu að geyma sömu skilmála og fram koma í lánssamningnum í þessu máli, hafi verið um skuldbindingar í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Þeir dómar féllu 2/1, þ.e. Garðar Gíslason og Árni Kolbeinsson mynduðu meirihluta og Jón Steinar Gunnlaugsson minnihluta.  Núna mynda Garðar og Jón Steinar minnihluta ásamt Markúsi Sigurbjörnssyni.  Hvers vegna hefur Garðar skipt um skoðun?  Er það vegna þess að í málum 30/2011 og 31/2011 var ekki munnlegur málflutningur og hann fékk ekki rökstuðning lögmanns Landsbankans, eins og hann fékk núna?  Mér finnst Garðar þurfa að skýra út hvers vegna hann skiptir um skoðun.

Ljóst er að forseti réttarins, Ingibjörg Benediktsdóttir, hefur ekki getað hugsað sér að rétturinn skipti um skoðun á ekki lengri án þess að hann væri fullskipaður.  Ég veit ekki hverjir þeir tveir dómarar voru sem bættust við frá 5 manna dómnum, en ef marka á fréttir Stöðvar 2 í kvöld, þá virðast þeir hafa ráðið niðurstöðunni.

Hvaða skilaboð hefði hin niðurstaðan gefið?  Í fyrsta lagi að Hæstiréttur gæti ekki ákveðið sig, þ.e. að ekki er hægt að treysta því að rétturinn dæmi á sama hátt í sambærilegum málum.  Í öðru lagi að fyrri niðurstöður réttarins um gengistryggð lán væru ekki fordæmisgefandi fyrir sambærileg mál.  Í þriðja lagi, að fjármálafyrirtækin ættu endilega að halda áfram með sín málaferli, þar sem sannfærandi málflutningur gæti snúið dómurum.

Merkilegast við þessa niðurstöðu í dag, er að þetta snýst meira og minna um sömu málsgrein í lánasamningnum:

..um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 150.000.000, - Krónur eitthundrað og fimmtíu milljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 25% JPY 15% USD 35% EUR 25%.  Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins.

Meirihlutinn segir að þar sem upphæð skuldar í hverri mynt verði ekki ákveðinn fyrr en síðar, þá sé augljóslega um ólöglega gengisbindingu að ræða, en minnihlutinn segir að þar sem tiltekið sé að um fjölmyntalán sé að ræða sé augljóslega um löglegt lán að ræða.  Báðir aðilar koma með frekari rökstuðning, en það er samt túlkunin á ofangreindum texta í lánasamningnum sem virðist skipta mestu máli.  Ég get ekki annað en spurt mig:  Hvernig er hægt að túlka ofangreinda texta á svona gjörólíkan hátt?  Spyr sá sem ekki veit.

Afleiðingarnar

Ég held að menn átti sig ekki alveg á afleiðingum dómsins.  Hér segir Hæstiréttur beint út, að öll lán þar sem höfuðstóll er tilgreindur í krónum er krónulán og ekkert annað.  Eins og rétturinn bendir á, þá gefur Landsbankinn ekki viðhlítandi skýringu á því hvers vegna upphæðin er tilgreind í krónum hafi átt að lána erlendar myntir.  Það er sem sagt ekki hægt að fela sig á bak við hlutföll, heldur verður að gefa upp upphæð í erlendri mynt til þess að um löglegt lán í erlendri mynt sé að ræða. 

Næst þarf að láta reyna á hvort lán sem sótt var um í íslenskum krónum, höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendri mynt, en útgreiðsla og afborganir fara fram í íslenskum krónum, eru lögleg lán í erlendri mynt eða enn eitt form á gengistryggðu láni.