Tilskipun frá 1798 um áritun afborgana á skuldabréf - Vaxtakvittun gildir gagnvart öllum eigendum viðskiptabréfs

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.6.2011.

Ýmislegt skemmtilegt er til í íslensku lagasafni.  Sum lög eru t.d. öðrum lífseigari og þar eru lífseigust allra lög frá 1275 Kristinréttur Árna biskups Þorlákssonar.  Í þjóðlendumálum hafa menn síðan gjarnan vitnað til Jónsbókar frá 1281.  Um ferminguna eða "uppvaxandi upgdómsins confirmation" er getið í konungstilskipun frá 1736 og aftur í tilskipun frá 1759.  Allt er þetta mismikilvægt og þannig á líka við um tilskipun frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.

Tilskipunin er frekar stutt, þannig að ég ætla bara að birta hana hér í heild:

1. gr. Eins og það er skylda lánardrottins, þegar skuldunautur borgar allan höfuðstól skuldabréfs, að skila honum aftur bréfinu með áritaðri kvittun, eins á hann, þegar nokkuð er afborgað af höfuðstólnum, að hafa við höndina frumrit skuldabréfsins, og vera skyldur til, í nærveru skuldunauts eða umboðsmanns hans, að rita bæði á bréfið sjálft það, er afborgað er, og að gefa auk þess sérstaka kvittun fyrir því.

Ef lánardrottinn skorast undan að gera þetta, þá er skuldunaut (sem vottfast býður fram afborgun þá, er greiða skyldi) heimilt að fresta afborguninni, þangað til lánardrottinn gegnir fyrrgreindri skyldu sinni; og er skuldunaut eigi skylt, meðan svo stendur, að svara vöxtum af þeim hluta höfuðstólsins, sem í gjalddaga var fallinn og boðinn var fram.

2. gr. Kvittanir á lausu blaði fyrir afborgunum af höfuðstól, er skuldabréf er fyrir, skulu, ef afborganirnar eru eigi einnig ritaðar á skuldabréfið sjálft, aðeins hafa gildi gagnvart þeim, sem gaf þær út, en eigi teljast gildar gagnvart öðrum, sem fyrir veðsetningu, framsal eða á annan löglegan hátt eru orðnir réttmætir handhafar skuldabréfsins.

3. gr. Þó má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar.

Árita skal afborgun á frumrit skuldabréfs

Tilskipunin lýsir því að árita eigi afborganir á skuldabréf til sönnunar því að afborgun hafi átt sér stað.  Hafi lánardrottinn ekki gert það, þá er lántaka (skuldunaut) heimilt að fresta frekari afborgunum uns lánardrottinninn hefur orðið við þessu.  Það sem meira er, óheimilt er að reikna vexti vegna hinnar gjaldföllnu en ógreiddu afborgunar meðan áritun hefur ekki farið fram.

Ansi er ég hræddur um að fá fjármálafyrirtæki uppfylli ákvæði þessarar tilskipunar.  Mér er sagt að fyrir 15 árum hafi þetta verið mjög tímafrekur og mikilvægur starfsþáttur hjá útlánsfyrirtækjum, en síðan hafi þetta lagst af.  Bent hefur verið á að lög nr. 131/1997 sé hugsanleg orsök fyrir því að þessi háttur var lagður af, en í 20. gr. laganna segir m.a.:

Lokafærsla verðbréfamiðstöðvar um greiðslu afborgunar og vaxta inn á reikning til eignarskráðs rétthafa hefur sama gildi gagnvart skuldara og áritun á skuldabréf

Málið er að lögin gilda bara um "rafræna útgáfu verðbréfa og skráningu eignarréttinda yfir þeim."  Þau sem sagt gilda ekki um verðbréf sem gefin eru út á pappír.

Miðað við orðanna hljóðan í tilskipuninni frá 1798, þá geta lántakar (skuldunautar) núna labbað inn til síns viðskiptabanka og neitað að greiða næstu afborgun lána sinna þar til bankinn er búinn að árita hverja einustu undangengna afborgun á skuldabréfið sjálft og dugar þá ekki að gera það á eitthvert afrit, þetta skal gert á frumrit bréfsins.  Sé ég fyrir mér kaosinu sem yrði í bönkunum, ef lánþegar ætla að krefjast þessa af bankanum sínum.  Nú dugir ekki fyrir löggjafann að hlaupa til og breyta þessu, þar sem lög geta ekki verið afturvirk.  (Asni er ég.  Þegar kemur að því að bjarga fjármálafyrirtækjum úr klemmu, þá er hægt að setja afturvirk lög.  En þegar bjarga á almúganum, þá er það brot á rétti ímyndaðra "erlendra kröfuhafa".)

Kvittun fyrir vöxtum telst fullgild gagnvart öllum

En þetta er nú ekki stærsta málið í þessari ágætu tilskipun.  Í grein 2 og 3 segir nefnilega að kvittanir á lausum blöðum hafi ekkert gildi nema fyrir þann sem gaf þær út nema að þær séu fyrir vöxtum.  Þannig "má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar".

Nú er ég ekki löglærður, en þarna sýnist mér tilskipunin segja að kvittunin sem ég fékk fyrir vöxtunum sem ég greiddi árið 2005 af þá gengistryggða láninu mínu teljist fullgild "gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar".  Þ.e. bankinn með nýju kennitöluna sem fékk fyrirmæli frá Fjármálaeftirlitinu að taka við láninu mínu, hann getur ekki innheimt aðra vexti aftur í tímann en þá sem ég hef greitt, hafi ég í höndunum kvittun á lausu blaði um að greiðslan hafi átt sér stað.  Eins gott að maður hafi kvittanirnar við höndina.

Krefjumst þess að fjármálafyrirtæki fari að lögum

Ég held að kominn sé tími til að fjármálafyrirtækin fari að lögum.  Þau komust upp með það í 9 ár að brjóta gegn lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í hátt í 15 ár hafa þau líklega brotið gegn tilskipuninni frá 1798 vegna þess að þau tóku að sér að túlka lög nr. 131/1997 frjálslega sér í hag.  Nú ætla sum þeirra (tek fram að þau sem ekki lánuðu gengistryggt eru saklaus) að rukka stóran hluta heimila um nýja vexti þrátt fyrir að tilskipunin frá 1798 segi að kvittun sem send hafi verið af fjármálafyrirtækinu teljist fullgild þó svo að skuldabréfið hafi komist í eigu annarra eftir að vaxtagreiðslan átti sér stað.

Ég er búinn að eiga í bréfaskiptum við eina af nýju kennitölunum og bent þeim á, að vilji þeir rukka mig um vexti aftur í tímann, þá hafi ég staðið í skilum við hrunbankann og verið í skilum þegar nýja kennitalan eignaðist lánin mín.  Þeir blésu náttúrulega á það eins og afmæliskerti, en svo virðist sem illa gangi að slökkva á kertinu.  Líklegast svona trixkerti.  En svo virðist sem tilskipunin frá 1798 komi mér til hjálpar.  Kvittanirnar sem ég hef fyrir vöxtunum frá maí 2004 til október 2008 teljast fullgild (og þar með fullnaðar-) kvittun fyrir vaxtagreiðslunni.  Eigandi skuldabréf getur ekki, þó ekki sé sá sami og tók við vaxtagreiðslunni, krafist þess að vextir verði greiddir aftur af sama gjalddaga.

Ættu fjármálafyrirtækin að óttast innihald tilskipunarinnar frá 9. febrúar 1798?  Ja, svari nú því hver fyrir sig.  Ekki fer á milli mála að 3. gr. verður mörgum þeirra þungur baggi, svo mikið er víst.  En hvað myndi nú gerast, ef lánþegar (skuldunautar) krefjast þess að farið sé að 1. greininni.  Í hvernig málum gætu fjármálafyrirtækin þá lent?  Hvað ætli taki langan tíma að árita allar afborganir á skuldabréf til 10 ára með mánaðarlegum gjalddögum?  Það eru 120 áritanir sem þurfa að vera á bréfinu.  Líklegast búa þau til tölvuforrit til að sjá um þessar áritanir, en það þarf að sækja hvert einasta skuldabréf í hvert sinn sem greitt er af því og árita það.  Er ég hræddur um að starfsmannafjöldinn í fjármálafyrirtækjunum mundi ekki duga, ef allir lántakar nýttu sér þetta.  Ekki að ég myndi nenna því, þar sem um langan veg er að fara, 20-25 mínútur bara aðra leiðina.  Síðan myndi bætast við löng bið í bankanum, þar sem líklegast hefðu fleiri fengið þessa hugmynd.  En ég held að fjármálafyrirtækin ættu að óttast það, að lántakar krefjist að þau uppfylli ákvæði 1. gr. tilskipunar frá 1798.

Framkvæmd tilskipunarinnar prófspurning

Þegar ég var að leita upplýsinga fyrir þessa færslu, þá rakst ég á próf í viðskiptabréfaviðskiptum frá því 6. nóvember 2010.  Í C-hluta prófsins er einmitt spurning sem snýr að þessu efni, þ.e. er kvittun fyrir vöxtum fullnaðarkvittun.  Án þess að hafa svarið fyrir framan mig, þá þykist ég alveg átta mig á hvert það var.  Það var nefnilega gefið upp í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. október 2007, en þar segir í dómsorðum:

Þá leiða reglur um viðskiptabréf til þess að stefnda getur borið greiðslukvittun fyrir sig gagnvart stefnanda, sbr. 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.

Búmm, ég heyri varnir fjármálafyrirtækjanna falla, sérstaklega ef ég bæti ákvæði 3. gr. við um vextina.

(Ég vil taka það fram að Sturla Jónsson (gjarnan kallaður Sturla bílstjóri) á heiðurinn af því að rannsaka þessa tilskipun og koma með ábendinguna.)