Dæmt að Arion banki eigi ekki aðild að hluta máls - Skaut bankinn sig í fótinn?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.2.2011.

Í gær féll ótrúlega furðulegur dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sjómannafélagi Íslands gegn Arion banka.  Sjómannafélagið krafði Arion banka um endurgreiðslu á ofgreiðslu sem innt var af hendi frá lántökudegi.  Upphaflega var lánið 15 m.kr. til 20 ára, en Sjómannafélagið greiddi það upp á 3 árum, alls 37 m.kr.  Krafði Sjómannafélagið Arion banka um tæpar 20 m.kr. í ofgreiðslur miðað við að lánið félli undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010.  Héraðsdómari féllst á þá kröfu Sjómannafélagsins að framangreindir dómar væru fordæmisgefandi fyrir umrætt lán, þ.e. lánið væri með ólöglega verðtryggingu í formi gengistryggingar.  En núna kemur að hinum ótrúlega þætti í málinu:

Dómarinn ákvað að ábyrgð Arion banka á láninu næði bara aftur til þess dags, þegar lánið var formlega tekið yfir af bankanum, þ.e. 8. janúar 2010.  

Dómarinn ákvað sem sagt að rök Arion banka ættu að gilda, en um það segir í dómnum:

Stefndi segir að skuldabréf stefnanda hafi ekki verið á meðal þeirra eigna sem framseldar voru frá Kaupþingi banka til Nýja Kaupþings banka 21. október 2008.  Skuldabréfið hafi ekki verið framselt stefnda fyrr en 8. janúar 2010.  Hann hafi því aðeins tekið við síðustu greiðslunni af bréfinu, 5.901.515 krónum, sem innt var af hendi 13. janúar 2010.  Fram til þess tíma hafi stefndi tekið við greiðslum í umboði annars aðila, fyrst Kaupþings banka og síðar Seðlabanka Íslands.

Eins og ég segi, þá veit ég ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta.  Fáránleikinn í þessu máli er að Arion banki og áður Nýja Kaupþing sáu um innheimtu á lánum sem voru í eigu þriðja aðila, í þessu tilfelli Kaupþings banka og síðar Seðlabanka Íslands.  Ég hef ekki hugmynd um hvort skuldarinn hafi vitað um það, að Arion banki/Nýja Kaupþing hafi eingöngu staðið í innheimtu fyrir raunverulegan eiganda eða ekki. 

Það virðist ekki koma málinu við að þegar Nýja Kaupþing var stofnað var gegnið út frá því að bankinn tæki yfir réttindi og skyldur gamla bankans.  Sjómannafélagið hefði því mátt ganga út frá því að svo hafi einnig verið þegar þetta lán var yfirtekið.  Niðurstaða héraðsdóms er samt sú að Sjómannafélagið þarf að fara í mál við Seðlabanka Íslands til að fá endurgreitt það sem ofgreitt var meðan lánið var í eigum bankans og síðan virðist mér sem best fyrir félagið að láta þar við sitja.  Með þessu fær félagið endurgreitt kr. 5.901.515 frá Arion banka og kr. 11.782.549 frá Seðlabankanum eða alls kr. 17.684.064 vegna ofgreiðslna á tímabilinu frá 1.1.2009 til 13.1.2010.  Það kemur síðan í hlut slitastjórna eða skiptastjórnar Kaupþings banka að krefja Sjómannafélagið um "vangreiðslurnar" fyrir tímabilið frá lántökudegi og þar til Seðlabankinn eignaðist lánið.  Sé ég nú ekki fyrir mér að slitastjórn/skiptastjórn leggist með miklum þunga í þá innheimtu, þar sem þá verða starfshættir Kaupþings banka dregnir inn í máið.

Skaut Arion banki sig í fótinn?

Ég get ekki annað en velt fyrir mér afleiðingum þessa dóms.  Nú eru fjármálafyrirtækin á fullu eða endurreikna fyrrum gengistryggð lán, mörg hver allt að 10 ár aftur í tímann.  Getur verið að þau hafi ekki heimild til þess vegna aðildarskorts.  Getur verið að NBI ehf. sé ekki aðili að lánum sem tekin voru hjá Landsbanka Íslands fyrr en eftir yfirtöku þeirra?  Gildir það sama um Íslandsbanka?  Er Arion banka ekki heimilt að endurreikna lánin sem hann tók yfir 8. janúar 2010 nema frá þeim degi?  Í því fólust rök Arion banka.

Réttindi og skyldur er snúið par.  Hafi Arion banki ekki skyldur gagnvart láni Sjómannafélags Íslands nema eftir 8. janúar 2010, þá hefur bankinn ekki heldur réttindi gagnvart láninu nema frá þeim tíma.  Þrautavarakrafa Arion banka er, t.d., að bankinn endurgreiði ekki ofgreiðslur sem áttu sér stað áður en bankinn var stofnaður í október 2008.  Aftur, hafi bankinn ekki átt skyldur fyrir þann tíma, þá átti hann ekki heldur réttindi.  Hver á þá slík réttindi og skyldur? Jú, Kaupþing banki.  Hvaða réttindi og skyldur eru það?  Að gera upp lán í samræmi við dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010.  Dettur nokkrum heilvita manni í hug, að Kaupþing banki láti reyni á vangreiðslur nokkur ár aftur í tímann?  Samkvæmt tölum í dómi héraðsdóms eru vangreiðslur frá lántöludegi til og með 1.10.2008 kr. 949.511 ef miðað er við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands.  Rökstuðningur Arion banka gengur út á, að ekki sé hægt að krefja bankann um endurgreiðslu á ofgreiðslu sem átti sér stað áður en "stefndi var stofnaður", eins og segir í dómnum.

Þetta er einmitt atriðið þar sem mér finnst Arion banki skjóta sig og keppninauta sína í fótinn:  Sé ekki hægt að sækja ofgreiðslur til Arion banka sem áttu sér stað áður en Nýja Kaupþing var stofnað vegna aðildarskorts (miðað við málflutninga annars staðar), þá getur Arion banki ekki heldur krafið lántaka um vangreiðslur vegna gjalddaga áður en bankinn var stofnaður.  Réttindi og skyldur Arion banka hljóta að gilda frá sömu dagsetningu.  Nú verður Arion banki að ákveða sig frá hvaða dagsetningu þessi réttindi og skyldur bankans eiga að gilda.  Þangað til bankinn hefur ákveðið sig, þá er það mín skoðun að enginn lántaki eigi að samþykkja kröfur bankans um vangreiðslur vegna gjalddaga fyrir 8. október 2008 Þessu til viðbótar eiga lántakar að krefjast upplýsinga um það hvenær bankinn tók yfir lán frá Kaupþing banka eða Seðlabanka Íslands og hafna öllum kröfum Arion banka um vangreiðslur fram að þeim tíma.  Lántakar eiga aftur á móti að standa fastir á því að höfuðstóll lána þeirra verði leiðréttur, harðneita að ofan á höfuðstólinn verði bætt vangreiddum vöxtum fyrri ára.  Eins og Arion banki segir sjálfur í vörn sinni fyrir héraðsdómi, þá er bankinn ekki aðili að þeim hluta kröfunnar.

Er afturvirkni vaxta þar með í reynd úr sögunni?

Ég get ekki annað en valt því fyrir mér hvort með þessu sé afturvirkni vaxtanna úr sögunni, a.m.k. í því tilfelli þar sem krafan/lánið hefur flust á milli kennitalna.  "Vangreiddir" vextir ná í öllum tilfellum til gjalddaga áður en þríburarnir féllu.  Krafan vegna vangreiðslu ætti því að eiga uppruna sinn hjá þeirri fjármálastofnun sem var handhafi skuldabréfsins á þeim tíma sem "vangreiðslan" átti sér stað.  Þær fjármálastofnanir eru nær allar með tölu farnar á hausinn.  Því til viðbótar tóku mörg þessara fjármálafyrirtækja og eigendur þeirra á grófan hátt stöðu gegn viðskiptavinum sínum, bæði með markaðsmisnotkun varðandi verð hlutabréfa og ekki síður í stöðutöku gegn krónunni í þeim, að því virðist, eina tilgangi að fella krónuna og græða sem mest á falli hennar.

Ég hlakka til að hlusta á málflutning Kaupþings banka, þegar reynt verður að innheimta vangreidda vexti.  Þó svo að slitastjórn/skiptastjórn hafi ekki verið þátttakendur í svikunum, lögbrotunum og prettunum, þá þyrftu þessir aðilar að verja hátterni stjórnenda og eigenda bankans.  Sé ég það ekki fyrir mér gerast.