Er sæstrengur til Evrópu það sem er best fyrir íslenskt samfélag?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.2.2011.

Bloomberg fréttaveitan er með frétt um hugsanlegan útflutning á raforku um sæstreng til Skotlands.  Hugmyndin er ekki ný á nálunum, kom líklegast fyrst fram fyrir hátt í 30 árum, a.m.k. tók ég hana til skoðunar við gerð lokaverkefnis míns við Stanford háskóla veturinn 1987 - 88.

Við skulum hafa í huga, að Ísland er þegar einn stærsti útflytjandi raforku þegar.  Það er sú raforka sem notuð er við fiskvinnslu, álframleiðslu og aðra raforkufreka framleiðslu á útflutningsafurðum.  Þessi notkun raforku er undirstaðan þeirrar efnahagsuppbyggingar sem hér hefur átt sér stað undanfarna áratugi.  Önnur hlið á þessu máli er gríðarleg skuldasöfnun þjóðarinnar og gengið hefur verið fulllangt á ýmis náttúrugæði.

Á sínum tíma bar ég hugmyndina um útflutning á raforku um sæstreng undir leiðbeinanda minn, Allan Mann, en hann var á þeim tíma ein helsti sérfræðingur í heiminum varðandi uppbyggingu vatnsaflsraforkuvera.  Viðbrögð hans voru heldur snubbótt en þó skýr:  Notið raforkuna á Íslandi til að framleiða útflutningsafurðir.  Á þeim tíma sem liðinn er hefur ekkert gerst sem sannfærir mig um hið gagnstæða.  Ég bý vissulega ekki lengur yfir sambærilegri sérþekkingu á þessum málum, eins og haustið 1988, en hef reynt eftir bestu getu að fylgjast með.

Samkvæmt frétt Bloomberg er verið að skoða að flytja 18 teravattsstundir af raforku árlega til Skotlands.  (Landsvirkjun hefur borið þetta til baka og þar segjast menn vera að skoða 4 - 6 TWst, þannig að framleiðslan verði alls 18 TWst.)  Samkvæmt vef Landsvirkjunar var ársvinnsla fyrirtækisins 12,2 Twst árið 2009 í 12 orkuverum, þ.e.

6 Twst er um 50% aukning og ætli Landsvirkjun ekki að segja upp núverandi raforkusölusamningum til stóriðju og loka á sölu til almennings, þá þarf að byggja ný orkuver, endurnýja þau sem eru fyrir og/eða kaupa raforku af öðrum framleiðendum.  Nú veit ég ekki hvað mun kosta að byggja þær virkjanir sem þarf til að framleiða 4-6 TWst á ári.  Haft er eftir Rögnu Söru Jónsdóttur, fjölmiðlafulltrúa LV, að kostnaðurinn við hverja TWst liggi á bilinu USD 300 - 400 milljónir.  Ég geri ráð fyrir að hér hafi eitthvað skolast til og átt sé við kostnað við uppsett afl til að framleiða teravattstundirnar 4-6.  Ef svo er, þá er stofnkostnaðurinn á bilinu 140 - 280 milljarðar kr. (1,2 - 2,4 milljarðar USD).  Bætum við þetta kostnaðinum við sæstrenginn upp á USD 2,1 milljarðar og fáum heildarkostnað á bilinu 3,3 - 4,5 milljarðar USD (380 - 522 ma.kr.).   Bloomberg bendir á að miðað við núverandi markaðsaðstæður fáist 0,3-0,45 milljarðar USD (34-52 ma.kr.) fyrir 4-6 TWst í Bretlandi eða 74 m.USD (8,6 ma.kr.) fyrir hverja TWst.  Nú veit ég ekki hvort Ragna Sara tók inn í sína tölu kostnað við flutning á raforkunni frá aflstöð að sæstreng.  Líklega yrðu strengirnir margir og færu í hafið á mismunandi stöðum.  Þegar verið er að tala um svona stórt verkefni verða örugglega gerðar mun ríkari kröfur um að taka tillit til náttúrunnar.  34-52 m.kr. tekjur af raforkusölu mega ekki verða á kostnað annarra tekna, svo sem af ferðaþjónustu.

Ég reikna með því að svona verkefni verði ekki unnið nema á mjög löngum tíma, líklegast 10-20 árum.  Skuldsetning þjóðfélagsins, sem er út úr kortinu núna, verður orðin ein sú hæsta í heimi miðað við landsframleiðslu.  Landsframleiðslan eykst vissulega um einhver prósent miðað við núverandi stöðu.  Framkvæmdirnar munu valda umtalsverðri þenslu á framkvæmdatímanum, en verði haldið rétt á spilunum, þá verður hún minni en varð af Kárahnjúkavirkjum.  Að framkvæmdum loknum er ekki þörf fyrir mikinn mannafla til að reka kerfið.

Gott og vel, eftir 20 - 30 ár verður hugsanlega búið að reisa hér raforkuver um allt land til þess að anna þörf raforkuþyrstra Breta.  Spurningin sem við þurfum að svara:  Er þetta það sem við viljum?  Viljum við verða að raforkuforðabúi fyrir Bretland um ófyrirséða framtíð án þess að það leiði til atvinnusköpunar svo nokkru nemur hér á landi?  Um þessar mundir vinna innan við 250 manns hjá LV.  Gefum okkur að 50% stækkun á raforkuöflunarkerfinu fjölgi starfsmönnum í sama hlutfalli, þ.e. úr 250 í 375 manns.  Gefum okkur síðan að hjá Landsneti (sem sér um flutningskerfið) fjölgi líka um 50%, þ.e. úr 93 í 140 manns og loks að við sæstrenginn starfi um 50 manns.  Þá hafa framkvæmdir upp á um 500 milljarða kr. skapað 225 varanleg störf.  Það sem meira er:  Búið verður að nýta stóran hluta fýsilegra virkjunarkosta og fátt verður um góða staði til að virkja fyrir aðra íslenska atvinnuuppbyggingu.  Allt þetta til að fá tekjur upp á kannski 50 ma.kr. á ári.  Ég spyr aftur:  Er þetta það sem við viljum?

Framtíðarsýn til nýtingu raforku verður að fara saman við framtíðarsýn okkar til atvinnuuppbyggingar.  Á hverju ári bætast nokkur þúsund manns á atvinnumarkað.  Nýting innlendrar orku er forsenda þess að hægt sé að byggja hér upp nægilega mörg störf.  Innlend verðmætasköpun er forsenda hagvaxtar.

Annars er margt svo vitlaust í Bloomberg-fréttinni, að maður veltir því fyrir sér hver tilgangurinn er.  T.d. er ekki gerður neinn greinarmunur á raforkuframleiðslu og annarri nýtingu innlendra orkugjafa.  Það er líklegast satt, að verið sé að nýta um 18 TWst af innlendri orku, en hátt í þriðjungur fer til húshitunar og sú orka verður ekki nýtt til útflutnings.  Síðan hefur Landsvirkjun leiðrétt umfangið og segir það vera 4-6 TWst í stað 18, en viðmælendurnir annað hvort skilja ekki tölurnar eða eru að tala í kross við fréttamann Bloomberg.

Mín skoðun er að ljúka eigi við rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda áður en nokkur ákvörðun um framhaldið er tekin.  Gerum hlutina einu sinni rétt.