Upphaf Internetsins - Í minningu Paul Baran

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.3.2011.

Menn geta deilt um það hvor þeirra Pauls Barans eða Tims Berners-Lees sé faðir Internetsins eða kannski voru þeir það báðir. Óumdeilt er að Paul Baran er sá sem þróaði aðferð til pakkasamskipta milli tölva og Tim Barners-Lee þróaði http-samskiptaaðferðina svo hægt væri að birta snið upplýsinganna með myndrænum hætti.  

Á árunum 1992 til 1995 skrifaði ég um tölvumál í Morgunblaðið.  Þetta var á þeim árum, þegar Internetið tók sín fyrstu alvöru skref inn í heim almennings, þ.e. eftir að veraldarvefurinn varð að veruleika.  Af þeim sökum var leitað til mín um að skrifa stutta bók um notkun Internetsins í viðskiptalegum tilgangi.  Var bók undir því heiti gefin út sem hluti af ritröð Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands og Framtíðarsýnar hf. árið 1995.  Hvað sem því líður því hvor skiptir meira máli Baran eða Berners-Lee langar mig að birta undirkafla úr bókinni "Internetið í viðskiptalegum tilgangi" þar sem lýst er tilurð netsins.

Tilurð netsins

Internetið á rætur sínar að rekja til ógna kaldastríðsins.  Bandarísk hernaðaryfirvöld óttuðust kjarnorkuárás frá Sovétríkjunum sálugu og voru að velta fyrir sér hvernig hægt væri að hald uppi vörnum ef gerð væri árás á aðalstöðvar hersins.  Um líkt leyti sendu Sovétmenn Spútnik á loft (1957) og sýndu svo ekki varð um villst að flaugar þeirra gætu hæft Bandaríkin.  Í framhaldi af því fór fram gagnger endurskoðun á mennta- og vísindastefnu Bandaríkjanna.

Innan varnarmálaráðuneytisins var stofnuð sérstök rannsóknadeild, Advanced Research Projects Agency (ARPA), sem átti meðal annars að endurskoða stjórnun hersins með kjarnorkuárás í huga.  Rúmlega tíu árum síðar var kynnt í tilraunaskyni tölvusamskiptanet, svo kallað ARPANET, sem var fyrsta kerfið til að leyfa pakkasendingar milli fjarlægra staða (packet-switched computer network).  Við hönnun netsins þurfti að takast á við margs konar vandamál.  Eitt af þeim var öryggismál.  Þeirra tíma tækni bauð ekki upp á mikið öryggi.  Þannig gat bilun í einni tölvu orðið til þess að allt samskiptakerfið hrundi, sem var að sjálfsögðu ekki boðlegt.  Markið var sett á kerfi sem gat starfað þó einstakir hlutar þess yrðu óstarfhæfir af einhverjum orsökum.  Einnig var talið mikilvægt að allar tölvur á netinu yrðu að vera jafnréttháar, þ.e. netið varð að vera jafningja net.  Niðurstaðan af þessari hönnunarvinnu var svo sett fram árið 1974 er birt var forskrift að TCP/IP samskiptareglunum.  (TCP/IP - Transmission Control Protocol/Internet Protocol ...)  Nokkru síðar var ARPANETið tekið í notkun.

Til að byrja með var vöxtur ARPANETs mjög hægur, enda einangraður við rannsóknastofur og stjórnstöðvar hersins.  Um miðjan síðasta áratug [(níunda áratuginn)] lagði Vísindaráð Bandaríkjanna (National Science Foundation) það til að háskólar notuðu það til að tengjast ofurtölvum víðvegar um Bandaríkin.  Eftir því sem fleiri háskólar tengdust því varð til nýtt fyrirbrigði, sem kallað var Internet.  Jafnframt var hernaðarhluti netsins (MIL-NET) skilinn frá til að koma í veg fyrir fikt.  Samskipti á Internetinu urðu brátt mikil þrátt fyrir að vera takmörkuð við vísindi og menntamál.  Notendur áttuðu sig á hinum miklu möguleikum þess og þægindum sem fylgdu rafrænum samskiptum.

Almenningur áttaði sig líka fljótlega á þessu.  Háskólanemar komu út á vinnumarkaðinn og vildu halda í þægindi tölvusamskiptanna.  Fyrirtæki settu upp eigin Internetþjóna, en svo nefnist sá tölvubúnaður sem veitir Internet þjónustu.  Þróun var hafin sem ekki er séð fyrir endann á.  Á hverju ári frá 1989 hefur fjöldi notenda að minnsta kosti tvöfaldast.  Árið 1993 var fjöldi notenda í fyrirtækjum í fyrsta sinn í meirihluta.  Vöxturinn er slíkur að hann er að sprengja netið.  Í janúar 1988 fóru 17,2 gígabæti (GB) af gögnum um menntahluta Internetsins.  Tæplega sex árum síðar, í desember 1993, var gagnamagnið á Internetinu orðið 19,2 terabæti (TB).

---

Þetta er hluti kafla sem ritaður var 1995.  Margt hefur breyst á þessum tíma og er svo komið að rekstur margra fyrirtækja hreinlega stöðvast komi upp bilun í netsamskiptum.  Ótrúlegast af öllu er að nútímatölvusamskipti séu Spútnik að kenna/þakka.