Vandi Orkuveitunnar er vandi Íslands í hnotskurn - Stjórnlaus króna er málið

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.3.2011.

Ég hef oft minnst á það, að hrun krónunnar sem varð í undanfara og kjölfari hruns fjármálakerfisins, sé stærsta vandamál íslenska hagkerfisins.  Þetta sést t.d. berlega í vanda Orkuveitu Reykjavíkur, bágri stöðu íslenskra fyrirtækja, skuldavanda íslenskra heimila, fáránlega klikkaðri stöðu margra sveitarfélaga í landinu og svo að sjálfsögðu erfiðri stöðu ríkissjóðs.  Staðreyndin er nefnilega að ef við þurrkum út áhrifin af hruni krónunnar, þá hverfur stærsti hluti vandans.  Vissulega má segja að krónan hafi verið of sterkt skráð og því hafi hún þurft leiðréttingar við, en léleg hagstjórn á árunum fyrir hrun sá til þess að krónan fékk að haldast svona sterk.

Hvað væri öðruvísi, ef krónan hefði ekki hrunið?  Mig langar að gera tilraun til greiningar.  Ég er viss um að mér yfirsést eitthvað og tel annað með sem lesendur eru ekki sammála um.

1.  Gengisbundin lán væru 40 - 60% lægra skráð í íslenskum krónum, en fjármálafyrirtækin hafa viljað halda á lofti undanfarin ár.  Þar með hefði  greiðslubyrði þeirra haldist óbreytt og viðráðanleg fyrir flesta.  Engum hefði dottið í hug að efast um lögmæti þeirra.  Þar með hefði sparast ótrúlega mikill tími einstaklinga og fyrirtækja sem hefur farið í þennan slag um "erlend lán".  Efnahagur Orkuveitu Reykjavíkur væri bara í góðum málum, fjármögnunarleigur væru ekki í hópi erkióvina bíleigenda, Álftanesbær væri í góðum málum og þyrfti ekki að sameinast Garðabæ, greiðslubyrði gengistryggðra húsnæðislána væri í dúr og moll við greiðsluáætlun og ég væri nánast óþekktur ráðgjafi um upplýsingaöryggismál.

2.  Verðbólga hefði haldist innan við 5% á ári frá september 2007 til dagsins í dag.  Og meira að segja líklegast innan við 3% stóran hluta tímans.  Þetta hefði þýtt hóflega hækkun verðtryggðra skuldbindinga landsmanna.  Húsnæðislán hefðu hækkað um innan við 10% frá ársbyrjun 2008 í staðinn fyrir þau rúmlega 30% sem reyndin er.  Óánægja landsmanna með verðtrygginguna væri því hverfandi enda yfir litlu að kvarta.

3.  Efnahagur bankanna hefði ekki blásið jafnmikið út og raun bar vitni.  Stór hluti bólgnunar á efnahagsreikningi bankanna varð vegna falls krónunnar, en ekki vegna útlánaaukningar í nýjum lánum.

4.  Erlendar skuldir þjóðarbúsins væru ekki eins ógnvænlegar í krónum talið og þær eru í dag.  Vissulegu hefðu þær hækkað eitthvað vegna lána sem stjórnvöld hafa þurft að taka.  Upphæð sem er 4.000 ma.kr.  í dag væri t.d. ekki nema í kringum 2.000 ma.kr.

5.  Icesave-skuld Landsbankans væri um 600 ma.kr. í staðinn fyrir 1.200 ma.kr., en á móti væru eignir bankans líka helmingi minni.  Reikningurinn sem Icesave samningurinn snýst um, væri á bilinu 20 - 120 ma.kr. en ekki 40 - 240 ma.kr.

6.  Hrun bankanna hefði ekki orðið eins svakalegt í íslenskum krónum og þar með skuldir þeirra við erlenda kröfuhafa.  Hugsanlega hefði ríkissjóður átt fleiri kosti og Seðlabankinn líka.

7.  Kostnaður ríkissjóðs af endurreisn fjármálakerfisins hefði ekki orðið eins mikill.  Helgast það af því að gæði lánasafna bankanna hefði verið betra, þ.e. færri lán í vanskilum eða með greiðslubyrði umfram greiðslugetu lántaka.

8.  Minna hefði verið gefið út af "ástarbréfum" og þar með hefði gjaldþrot Seðlabanka Íslands orðið mun minna umfangs.  Endurreisn SÍ hefði kostað ríkissjóð verulegar upphæðir, en líklegast innan við 200 ma.kr.

9.  Efnahagsaðstoð AGS hefði orðið mun minni að umfangi í íslenskum krónum talið og líklegast líka í erlendri mynt.  Það þýðir lægri vaxtabyrði ríkissjóðs.

10.  Heimilin og fyrirtækin hefðu haft meiri fjármuni til að nota í neyslu, veltu og fjárfestingar.  Vissulega hefði húsnæðisverð lækkað, en það hefði bara hjálpað til við að halda aftur af verðbólgunni.

11.  Þrátt fyrir að ríkissjóður hefði tapað einhverjum tekjustofnum vegna hruns bankanna, þá hefði þörfin fyrir hækkun skatta verið mun minni og sama gildir um niðurskurð.  Þar sem margar aðgerðir stjórnvalda frá hruni hafa leitt af sér meiri harðindi, þá hefði stöðug króna hjálpað mikið til við að forða slíku.

12.  Vissulega hefði þurft kröftuga stjórnun á gjaldeyrismálum þjóðarinnar, þar sem hér á landi er mikið fjármagn í erlendri eigu sem gjarnan vill út.  En stöðug króna hefði aukið trúverðugleika hagkerfisins og þar með dregið út flótta fjármagns úr landi.

Á neikvæðu hliðinni, þá hefði ekki dregið eins mikið úr innflutningi og verðmæti útflutnings ekki aukist í íslenskum krónum.  Við værum því enn að kljást við óhagstæðan gjaldeyrisjöfnuð.  Fjármálakerfið hefði líklegast ekki fengið þennan harða skell, sem það gjörsamlega þurfti á að halda.  Hugsanlega hefði ríkisstjórn Geirs H. tekist að bjarga einhverjum banka og þar með haldið að ástandið væri ekki eins alvarlegt og það var.  Staða okkar væri nær því sem er að gerast í Írlandi, Portúgal og á Spáni.

Þetta eru vissulega vangaveltur um veröld sem var eða hefði geta orðið.

En aftur að OR.  Já, menn fóru geyst þar og talsvert fram úr sér.  Menn gleymdu að huga að aðskilnaði milli almenningsveitu og orkuöflunar fyrir stóriðju.  Farið var í gæluverkefni með litlu eigin fé.  Málið er bara að þetta hefði allt bjargast, ef bara við hefðum verið með einhvern annan gjaldmiðil en krónuna.  Gjaldmiðil sem ekki hefði skoppað eins og korktappi í ólgusjó.

Stærstu hagstjórnarmistök síðari ára var að binda ekki krónuna við einhvern annan gjaldmiðil árið 2001.  Örmyntin krónan hafði og hefur ekki enn burði til að lifa sjálfstæðu lífi, a.m.k. með þá efnahagsstjórn sem Íslendingar hafa mátt búa við.  Hún hefur raunar aldrei haft þá burði.  Í árdaga ævi sinnar var hún jafnsterk dönsku krónunni og allt fram til 1920 að farið var að skrá hana sjálfstætt.  Síðan erum við búin að sníða tvö núll aftan af og samt er ein dönsk króna yfir 21 íslensk króna.  Virði íslensku krónunnar er í dag innan 0,05% af upphaflegu virði hennar fyrir hátt í öld.  Hún hefur tapað tapað árlega 8,2% af virði sínu!  Frá myntbreytingu er rýrnunin 10,3% árlega, en ef við látum duga að skoða rýrnunina til 31.12.2007, þá er árleg rýrnun (miðað við danska krónu) 9,6%.  Verr tókst sem sagt til við að halda genginu stöðugu frá 1981 til áramóta 2007/8, en frá 1920 í gegn um heimskreppu og stríð til ársins 1981!

Ef sama þróun hefði haldið áfram 2008-10 og var frá 1981, þá væri danska krónan 16,59 íslenskar krónur, þ.e. 34,7% hækkun í staðinn fyrir 76,7% hækkun.  Munurinn á því gengi og gengi dagsins í dag (1 DKK = 21,773 IKR) er 31,2% en það tekur ekki nema um 3 ár að vinna það upp.

Getuleysi stjórnvalda og Seðlabanka (og Landsbanka fyrir stofnun SÍ) til að hafa stjórn á krónunni er vandamálið.  Menn geta falið sig bak við, að hún hafi bjargað einhverju eftir hrun, en gleyma því þá í leiðinni að vangeta stjórnvalda og Seðlabanka til að hafa stjórn á henni var orsök hrunsins, sem og óábyrg háttsemi fjármálakerfisins í undanfara hrunsins.  Halda menn að stjórnvöld eða Seðlabankastjórnendur framtíðarinnar reynist þeir töframenn að halda krónunni stöðugri í ólgusjó alþjóðagjaldeyrismála?  Ég hef enga trú á því.  Framtíð myntmála Íslands verður fjarri íslensku krónunni.

Hvað gerist þangað til?  Svarið kom fyrir helgi:  Gjaldeyrishöft.  Og eftir að þeim líkur verður tekin upp ný mynt, Evra.