Afturvirkni vaxta ólögmæt af greiddum gjalddögum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.2.2012.

Stóridómur Hæstaréttar er fallinn:

Ekki er heimilt að endurreikna afturvirkt vexti af þegar greiddum gjalddögum fyrrum gengistryggðra lána

Ég veit ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta.  Vissi af niðurstöðunni rétt rúmlega þrjú og las frétt mbl.is en vantaði heildarmyndina áður en ég gæti öskrað YES, YES, YES!!!!!! 

Við lögðum kerfið að velli.  Við sem sögðum að FME og Seðlabankinn hafi verið að hvetja til lögbrota í lok júní 2010, höfðum rétt fyrir okkur.  Við sem sögðum að afturvirkniákvæði laga nr. 151/2010 væru ólögleg íþyngjandi ákvæði, við höfðum rétt fyrir okkur.  Og áður höfðum við líka haft rétt fyrir okkur um að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging.

Hvernig væri að fara að hlusta á okkur? 

Við erum nokkuð nösk í túlkun okkar á lögum og kröfurétti.

Dómur Hæstaréttar

Áður en hægt er að fjalla um hver niðurstaða Hæstaréttar er, þá þarf að lýsa hver ágreiningurinn var í málinu.

Í stuttu máli snerist ágreiningurinn um hvort varnaraðili, þ.e. Frjálsi fjárfestingabankinn, hafi mátt skuldajafna málskostnaðargreiðslu sem Hæstiréttur dæmdi sóknaaðila, þ.e. Sigurði og Elviru, vegna máls nr. 604/2010.  Varnaraðili sagði að þau hafi vangreitt vexti miðað við að vextir ættu að vera í við dóm Hæstarétta nr. 471/2010 frá 16. september 2010, þ.e. lægstu vexti á óverðtryggðum skuldabréfum sem Seðlabanki Íslands heldur utan um.  Sóknaraðili hélt því fram að þar sem hann hefði alltaf staðið í skilum, þá skuldaði hann enga vexti og engu væri að skuldajafna.

Fjórir dómarar, þe. Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason (settur hæstaréttardómari) tóku undir málsrök sóknaraðila, en þrír, þ.e. Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson, tóku undir málsrök varnaraðila.  Þetta er nokkuð merkileg skipting, þar sem þau þrjú hafa öll setið lengur hvert um sig, en nokkurt hinna fjögurra.  Því mætti segja að nýi tíminn hafi lagt þann gamla.

Hvað tekur Hæstiréttur afstöðu til

Hér hleyp ég bara á nokkrum atriðum vegna tímaskorts, en mun hugsanlega laga færsluna síðar.

Hæstiréttur segir:

Samkvæmt framansögðu verður að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðilar teljist í ljósi atvika málsins hafa fengið réttmæta ástæðu til að ætla að ekki gæti komið til frekari vaxtakröfu varnaraðila síðar.

Til að styðja við niðurstöðu sína leitar Hæstiréttur í kröfurétt og skal engan undra með helsta sérfræðing þjóðarinnar í kröfurétti sem einn af þeim sem mynda meirihlutann, þ.e. Þorgeir Örlygsson, og annan mikinn sérfræðing í kröfurétti, Benedikt Bogason.

Það er meginregla í kröfurétti að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, á kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni eru þó undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Hvílir áherslan þá á því, að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar. Í þessu máli verður lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar, sem varnaraðili sendi um væntanlega gjalddaga lánsins með útreikningum á fjárhæðinni sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við tilkynningarnar, hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni. 

Ásamt öðrum rökstuðningi kemst rétturinn að eftirfarandi niðurstöðu:

Þegar öll framangreind atriði eru virt heildstætt og það lagt til grundvallar sem áður greinir, að greiðslutilkynningar varnaraðila og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við þær tilkynningar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum, þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðilum að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu. Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að varnaraðili getur ekki krafið sóknaraðila um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann, en á því var yfirlýsing hans um skuldajöfnuð byggð. 

Um lög 151/2010

Hæstiréttur er ekki ósammála um allt.  Þannig eru allir dómararnir á því að ekki sé hægt að setja afturvirk íþyngjandi/skuldbindandi ákvæði með almennum lögum.  Hér er það sem meirihlutinn segir:

Með almennum lögum er ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reynir í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist er að í kafla IV hér að framan.

Hvað þýðir þetta svo

Sá sem vill túlka þetta þröngt mun segja að eingöngu þeir sem hafi greitt skv. tilkynningu séu lausir og hinir sem eru í vanskilum, hafa fengið frystingar eða skilmálabreytingar fái á sig hina háu vexti.  Vissulega fjallar Hæstiréttur bara um þá sem eru í skilum, en það útilokar ekki að rétturinn á að samningsvextir gildi áfram sé til staðar.  Hafa skal í huga að Hæstiréttur segir að lög 151/2010 séu ólög hvað varðar afturvirkni.  Það hlýtur því jafnt að gilda um lán sem staðið var í skilum með og önnur lán.

Um 60.000 heimili og fleiri þúsund fyrirtæki munu njóta góðs af þessari niðurstöðu Hæstaréttar.  Líkur eru á að einhver fjármálafyrirtæki lifi það högg ekki af sem á þau kemur.  Það er því mjög mikilvægt fyrir lántaka að stíga varlega til jarðar. 

Ég hef séð lán þar sem þessi niðurstaða hækkar endurgreiðslu um tugi milljóna meðan hjá öðrum er munurinn nokkur hundruð þúsund.  Fyrir fjármálafyrirtækin þá mun höggið hlaupa á tugum milljarða, ef ekki hátt í 150 ma.kr. ef marka má gögn FME frá miðju sumri 2010.  Hafa skal þó í huga að mörg fyrirtæki eru þegar búin að fá lán sín leiðrétt langt umfram niðurstöðu Hæstaréttar í dag.