Þýðing dóms Hæstaréttar fyrir lántaka

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.2.2012.

Það rigna yfir mig fyrirspurnir um hvað niðurstaða Hæstaréttar í gær þýðir í raun og veru fyrir lántaka.  Eins og alltaf er til einföld og ónákvæm skýring og síðan flókin og ítarleg skýring.

Einföld skýring

Endurreikna skal öll lán, þannig að miðað sé við íslenskan höfuðstól og samningsvexti frá lántöludegi til gildistöku laga nr. 151/2010.  Dómar Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 hafa bara dagsetningarlegt gildi fyrir þau mál sem þar var fjallað um.  Frá og með gildisdegi laganna, 29. desember 2010, gilda vextir í samræmi við ákvæði laganna.   Ofgreiðslur og vangreiðslur eru dagvaxtareiknaðar og það sem eftir stendur á greiðandi á hverjum tíma annað hvort að greiða (ef um vangreiðslu að ræða) eða fá greitt (ef um ofgreiðslu er að ræða).

Hér er skautað framhjá mörgum atriðum, en aðferðin er einföld og gegnsæ.

Flókna skýringin

Svo er það hin leiðin og hun er endalaust flókin, þar sem álitamálin eru mörg.  Mig langar að telja upp nokkur:

1.  Fram að gildistöku laga nr. 151/2010 var innihald 18. gr. laga nr. 38/2001  annað en það er í dag.  Spurning hvaða áhrif það hefur, þar sem þar datt mönnum ekki í hug að kröfuhafi gæti krafið skuldara um greiðslu, heldur bara að skuldari gæti krafið kröfuhafa um greiðslu.

2.  Hæstiréttur segir að varnaraðili eigi að bera vaxtamuninn.  Þýðir það hafi verið greitt á veikara gengi en á lántökudegi, þá megi ekki rukka hærri vexti fyrir þann gjalddaga, þó staðan uppreiknaðs höfuðstóls íslenskum krónum sé hærri en upprunalega höfuðstólsins umreiknuðum í krónur.

3.  Hvert á lántaki að sækja ofgreiðslur?

4.  Má kröfuhafi reikna vangreiðslur?  Hvaða kröfuhafi á vangreiðslurnar séu þær til staðar?

5.  Hvað á að gera varðandi samninga, þar sem lántaki mótmælti útreikningum kröfuhafa, þar sem dráttur hafið orðið á uppgjöri, þar sem eignir hafa verið teknar o.s.frv.

Margt af þessu er af sama meiði, þ.e. hver er réttur kröfuhafa til að rukka fyrir vangreiðslu.

Sátt Sjómannafélagsins

Nú mun sú staðreynd að um mál Sjómannafélags Íslands gegn Arion banka náðist sátt utan dómstóla líklegast verða til þess að hægt er að deila um hvert lántaki á að sækja leiðréttingu sína.  Hafi lán, t.d., verið tekið hjá Kaupþingi, farið þaðan inn til Seðlabanka Íslands og svo til Arion banka, þá er ekki á hreinu hvert lántaki á að snúa sér til að fá leiðréttingu.  Auðvitað væri best, ef Arion banki tæki að sér að gera upp og myndi síðan sækja þann hluta endurgreiðslunnar, sem nær til gjalddaga áður en hann eignaðist lánin, til fyrri kröfuhafa.

Vangreiddir vextir

Hæstiréttur talar um að kröfuhafi eigi að bera vaxtamuninn.  Spurningin er hvort það eigi bara við varðandi það að vaxtaprósenta samningsvaxta er lægri en seðlabankavaxta.  Önnur hlið er nefnilega á þessu máli, þ.e. þegar endurreiknaður höfuðstóll er með hærri stöðu en upprunalegur höfuðstóll á tilteknum gjalddaga.  Slíkt á sér að jafnaði stað þegar gengi á gjalddaga var lægra en  gengi á lántökudegi.  Þó þetta muni almennt ekki háum upphæðum, þá eru tilvik, þar sem munurinn er mikill. Ef túlka skal dóm Hæstaréttar þannig að ekki má rukka hærri vexti fyrir gefið tímabil en þá sem komu fram á tilkynningu eða greiðsluseðli, þá er óheimilt að hækka vaxtakröfuna þó þróun höfuðstólsins hefði átt að vera önnur.  Hæstiréttur talar nefnilega ekki um vaxtaprósentuna heldur um vextina.

Stóra málið er samt ekki vangreiddir vextir.

Ofgreiðslur og hvert á að sækja þær

Langflestir lántakar hafa lent í því að ofgreiða, þ.e. bæði vextir og afborganir sem greitt var voru mun hærri en dómar Hæstaréttar nr. 92/2010, 153/2010 og 600/2011 segja til um.  Kjarninn í þessum dómum, svo það sé á hreinu:

a)  Bannað er að nota gengistryggingu sem verðtryggingu og því skal höfuðstóll lánsins ekki breytast í samræmi við breytingar á gengi.

b)  Samningsvextir skulu gilda á þegar greiddar gjalddagagreiðslur.

Fyrir þann sem hefur alltaf greitt af láni sínu, þá getur þetta haft í för með sér verulegar ofgreiðslur.  Ég hef hreinlega ekki haft tíma til að vinna sýnidæmi, en um leið og næði gefst, þá mun ég búa til nokkur dæmi byggð á raunverulegum tölu.

Spurningarnar sem vakna eru:

1) Hvert sæki ég ofgreiðsluna?

2) Hvernig get ég notað hana?

3) Má búast við töfum eða vankvæðum?

Þó svo að eitt ákvæði laga 151/2010 hafi verið dæmt ógilt, þ.e. afturvirknin, þá gilda önnur áfram.  Lög nr. 151/2010 eru nefnilega ekki bara ólög.  Margar greinar laganna voru mjög nauðsynlegar til að greiða úr þeirri óreiðu sem ógilding gengistryggingarákvæða lánssamninga hafði í för með sér. Því er eðlilegast að leita í lögin eftir leiðbeiningum um ofangreindar spurningar:

1.  Lántaki snýr sér til kröfuhafa, þ.e. núverandi eiganda kröfunnar.  Ef ekki er á hreinu hver á kröfuna, þá skal snúa sér til þess fjármálafyrirtækis sem sér um innheimtu kröfunnar.  Í lögunum segir:

..Kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar..

..Ef útreikningur á uppgjöri skv. 5. mgr. leiðir til þess að krafa sé að fullu greidd skal lánveitandi gefa út fullnaðarkvittun, hlutast til um afléttingu veðbanda og gefa út þær yfirlýsingar sem nauðsyn krefur. Ef skuldari á að loknum útreikningi skv. 5. mgr. kröfu á lánveitanda skal lánveitandi greiða þá fjárhæð sem upp á vantar eigi síðar en 30 dögum frá því að krafa er gerð um endurgreiðslu..

..Nú hafa, einu sinni eða oftar, orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um er að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu. Skal þá hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings..

Hægt væri að tína til fleiri atriði, en þetta eru þau helstu.  Niðurstaðan er að snúa sér til núverandi kröfuhafa og hann á að framkvæma uppgjör innan 30 daga frá því að gerð er krafa um endurgreiðslu.

Eiga einhverjir ekki rétt á endurútreikningi

Ég hef tekið eftir því að menn voru strax farnir að snúa út úr niðurstöðu Hæstaréttar og segja að úrskurðurinn tæki bara til þeirra sem eru í skilum.  Það er rangt!   Úrskurðurinn nær til allra greiddra gjalddaga áður gengistryggðra lána og kaupleigusamninga sem falla undir fordæmisgildi annarra dóma og úrskurða Hæstaréttar, þar sem gengisbinding hefur verið talin ólögmæt verðtrygging.  Vissulega hefur rétturinn ekki fjallað um hvort nákvæmlega öll tilvik falli undir úrskurð hans, en allir sjö dómarar voru sammála um að lög nr. 151/2010 fælu í sér, hvað varðar afturvirkni vaxta, ákvæði sem ekki gæti gilt afturvirkt.  Þannig að hvort sem viðkomandi hefur greitt af láninu eða ekki, þá er ekki hægt að..

..breyta með afturvirkum hætti reglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá þeim sem teljast hafa gilt þegar til þeirra var stofnað eða af þeim greitt.. 

Allir sjö dómararnir nota þetta orðalag, en meirihlutinn bætir um betur og segir til viðbótar:

Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Af þeim sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist er að í kafla IV hér að framan.

Hvernig sem menn snúa þessu, þá er ekki hægt að breyta skuldbindingu afturvirkt, þannig að þeir sem ekki greiddu af lánum sínum, af hvaða ástæðu sem er, verða ekki krafðir um hærri vexti en samningsvexti.  Að sjálfsögðu gilda ákvæði um dráttarvexti, en þá komum við aftur að lögum nr. 151/2010.

Í 5. mgr. 1. gr. segir m.a.:

Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar.

Sé verið að krefja um vanskilagjöld, þá dragast þau einfaldlega strax af.

Nær ákvörðun Hæstaréttar til fyrirtækja

Ég fæ ekki annað séð en svo sé.  Vissulega er ég ekki lögfræðingur, en hef bæði rætt við lögfræðinga um málið og hlustað á þá tjá sig um málið í fjölmiðlum. 

Úrskurður Hæstaréttar fellur á reglum kröfuréttar og þær gilda jafnt fyrir fyrirtæki sem einstaklinga.  Raunar fellur á þeirri grundvallarreglu kröfuréttar að hinn eðlilegi dauðdagi kröfu sé greiðsla hennar, enda sé sú upphæð greidd sem skuldari er krafinn um, hún sé greidd á réttum tíma, á réttum stað og kröfuhafi hafi full afnot af greiðslunni.  Hæstiréttur lítur svo á að greiðslutilkynningar verði hér lagðar að jöfnu við "fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni".  Ekki verður séð að þetta atriði sé eingöngu tengt greiðslu einstaklings, enda breytist eðli greiðslutilkynningar eða fullnaðarkvittunar ekkert við það hvort handhafinn sé einstaklingur eða lögaðili.