Ósanngjarna skilmála í neytendasamningi ber að fella niður óbætta

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.3.2013.

Í úrskurði sínum í máli C-618/10 talar Evrópudómstóllinn (ECJ) um ósanngjarna skilmála (unfair terms) í neytenda samningum.  Hann telur að ákvæði um 27% dráttarvexti sé ósanngjarn skilmáli í lánssamningi!  Mér þætti áhugavert að fá álit ECJ á sanngirni verðtryggingarinnar í íslenskum neytenda samningum eða Seðlabankavaxta, þ.m.t. dráttarvaxta og stýrivaxta Seðlabankans í gegn um tíðina   Verst er að við Íslendingar getum ekki leitað til ECJ nema í afbrigðilegum tilfellum. Við getum hins vegar leitað til ESA og EFTA dómstólsins.  Leiðin til EFTA dómstólsins er eingöngu fær í tveimur tilvikum, þ.e. að mál sé höfðað fyrir dómstólnum eða að íslenskir dómstólar leiti til dómstólsins.  Hingað til hefur Hæstiréttur ýmist neitað því að leita til EFTA dómstólsins eða komið í veg fyrir að Héraðsdómur Reykjavíkur leitaði til EFTA dómstólsins.

Í úrskurði sínum í máli C-618/10 segir ECJ, að landsdómstólar (national courts) eigi að hafa frumkvæði af því að taka upp neytendaverndarákvæði í umfjöllun sinni um málefni neytenda.  Þetta er svo sem ekki í fyrsta skiptið sem ECJ segir þetta.  Ég man hins vegar ekki til þess að Hæstiréttur hafi gert það, en hef svo sem ekki kynnt mér nema tillölulega fá mál sem fyrir réttin hafa farið. 

Í máli 471/2010 um vexti gengistryggðra lána, þá teygði Hæstiréttur sig mjög langt til að sniðganga neytendarétt.  Rétturinn gerði það fyrst með því að sniðganga lög um neytendavernd, þ.e. c-lið 36.gr. laga nr. 7/1936, en í greininni segir: "Ef [ósanngjörnum] skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans."  Þetta ákvæði er í tilskipun 93/13/EEC sem ECJ vísar til þegar hann ákveður í máli C-618/10 að í staðinn fyrir 27% vanskilavexti komi engir vextir!  Hæstiréttur ákvað hins vegar Seðlabankavexti með vísan til 4.gr. laga 38/2001, þrátt fyrir að í 2.gr. laganna segi að 4.gr. sé frávíkjanleg og tiltekur sérstaklega sé það til hagsbóta fyrir skuldara megi ekki bara víkja frá þeirri grein heldur öllum greinum laganna!  Hæstiréttur fór sem sagt gjörsamlega öfuga leið miðað við Evrópudómstólinn, þ.e. úrskurðaði um vexti sem voru íþyngjandi fyrir skuldara, þrátt fyrir að hann hefði lagaheimild til að bregðast á annan hátt við.

Höfum í huga að Hæstiréttur ógilti verðtryggingarákvæði gengistryggðra lánasamninga með dómum sínum í málum 92/2010 og 153/2010 þann 16. júní 2010.  Þar með var ljóst, að ekkert mátti koma í staðinn fyrir verðtryggingarákvæðið, a.m.k. ekki í neytendasamningum.  Hann gekk síðan lengra í dómi sínum í máli 471/2010, þar sem hann ákveður að vextir áður gengistryggðra lána séu óaðskiljanlegur hluti hins ólöglega (ósanngjarna) skilmála.  Þar með segir rétturinn að hinn ósanngjarni skilmáli sé bæði vextirnir og gengistryggingin.  (Hér náttúrulega geng ég út frá því að ólöglegt ákvæði sé í leiðinni ósanngjarnt.)  Ef marka má úrskurð ECJ í máli C-618/10, þá skal ekkert koma í staðinn fyrir skilmálana sem vikið var til hliðar og það þrátt fyrir að lög á Spáni leyfðu dómstólum að ákveða nýja vexti.  Þau lög mátti ekki nýta þegar neytandi átti í hlut (sjá síðar).  (Veit ekkert hvort annað gildir um fyrirtæki/lögaðila.)  Lánin sem voru áður gengistryggðu hefðu því átt að vera óverðtryggð og vaxtalaus, ef Hæstiréttur hefði komist að sömu niðurstöðu og ECJ.  Nú segir einhver, en hvað með vaxtaálagið?  Eins og ég skil dóm Hæstaréttar í máli 471/2010, þá vék rétturinn því líka til hliðar, þannig að lánin ættu ekki einu sinni að bera vaxtaálagið.  Rétturinn segir jú í dómi sínum:

Með því að þar greindum fyrirmælum um hæð þeirra verður samkvæmt framansögðu ekki beitt er óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera.   Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 skulu vextir þegar svo stendur á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.

Sem sagt ekkert um vaxtaálag.  Þetta er gott og blessað, en ef við tökum núna úrskurð ECJ í máli C-618/10, þá hefur rétturinn ekki heimild til að nýta ákvæði vaxtalaga til að ákveða vexti sem ekki eru tilteknir.  Að mati ECJ kemur 1 töluliður 6. greinar tilskipunar 93/13 í veg fyrir það, en hún var leidd í lög hér á landi með c-lið 36. gr. laga 7/1936.  Sjá um hvað ECJ segir í úrskurði sínum:

In the light of the foregoing, the answer to the second question is that Article 6(1) of Directive 93/13 must be interpreted as precluding legislation of a Member State, such as Article 83 of Legislative Decree 1/2007, which allows a national court, in the case where it finds that an unfair term in a contract concluded between a seller or supplier and a consumer is void, to modify that contract by revising the content of that term. 

(Í ljósi þess sem segir að framan, er svarið við annarri spurningu að grein 6 (1) í tilskipun 93/13 beri að túlka sem svo að hún gangi framar lögum í aðildarríki, eins og grein 83 í lögum 1/2007, sem leyfir landsrétti, þegar hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að ósanngjarn skilmáli í samningi milli seljanda eða birgja og neytanda sé ógildur, að breyta samningnum með því að endurskoða þetta ákvæði.)

Hér segir Evrópudómstóllinn nokkuð afdráttarlaust, að neytendavernd hafi meira vægi en lög á borð við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Neytendavernd dómarans fyrrverandi

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst áhugavert hvernig dómarinn fyrrverandi lítur á neytendavernd.  Sé neytandi beittur órétti, þá á hann ekki að geta fengið mál sín leiðrétt nema einhver annar borgi.  Ég hef ávallt borið virðingu fyrir lagakunnáttu Jóns Steinars og tel hann snjallan lögmann.  Mér þætti hins vegar áhugavert að vita hvers vegna hann telur neytendur ekki eiga að njóta verndar samkvæmt lögum og Evrópurétti og að sá sem eignast kröfu byggða á ósanngjörnum ákvæðum eigi að njóta vafans.

Nú skal tekið fram að hæð dráttarvaxtanna, þ.e. 27%, var getið í samningnum í máli C-618/10.  Samt voru vextirnir taldir ósanngjarnir.  Það er því ekki vörn vegna verðtryggingarinnar að neytendur viti af óstöðugleika eða megi búast við óstöðugleika.  Valdi skilmálinn því að neytandinn er krafinn um ósanngjarna greiðslu, þá er hann ósanngjarn þó hann hefði verið meitlaður í stein og staðið þar í þúsund ár eða lengur.  Verði verðtryggingin færð niður, þá hafa vissulega einhverjar tekjur tapast, en komist t.d. dómstóll að því að um ósanngjarnan skilmála var að ræða, þá voru tekjurnar bara loftbóla.  Og þó svo að svo verði ekki, þá er tiltekinn hluti verðbóta loftbóla sem engin innistæða er fyrir og verður ekki innheimt hvað svo sem mun ganga á.