Ver verðtrygging sparnað landsmanna?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.3.2013.

Allir eru líklegast sammála því að mikilvægt er að verja sparnað landsmanna.  Hef ég verið þar í fararbroddi frá því haustið 2008.  Munurinn á mér og mörgum öðrum er að ég vildi freista þess að verja eins og kostur er allan sparnað. 

Ég byrjaði strax eftir að Glitnir var tekin yfir að spyrja hvort hægt hefði verið að verja eign almennra hluthafa, þó fagfjárfestar hefðu tapað sínu.  Mánuðina á undan hafði ég vakið athygli á skuldavanda heimilanna og bent á að eign heimilanna í húsnæði sínu væri hluti af sparnaði þeirra.  Ég setti spurning við að valfrjáls sparnaður í bönkunum hafi verið varinn með neyðarlögunum, en lögbundinn sparnaður í lífeyrissjóðunum var látinn rýrna.

Tilefni þessara skrifa er grein Hrafns Magnússonar í Morgunblaðinu í dag.  Í grein sinni eyðir Hrafn stóru plássi undir 34 ára gamalt mál og undanfara þess.  Næst förum við að ræða umferðaröryggi út frá reynslunni af vinstri umferð!

En fyrst Hrafn telur að speki okkur eldri manna eigi erindi við okkur, þá langar mig að vitna í orð enn eldri manna, en þeirra sem Hrafn vitnar til. Hér er um að ræða umsögn Landsbanka Íslands frá 1966 um frumvarp að lögum, þar sem ætlunin var að veita heimild til verðtryggingar.

Samþykkt þessara ákvæða, þótt aðeins sé i heimildarformi, getur aðeins vakið tálvonir um úrlausnir eftir ófærum leiðum og dregið athyglina frá aðalatriðinu, að til er ein örugg leið til verðtryggingar á sparifé, sem sé að forðast það, sem verðrýrnuninni veldur, sjálfa verðbólguna.

Það var sem sagt skoðun þeirra sem teljast til kynslóðar afa minna og amma að verðtrygging sparifjár fæli bara í sér tálvonir.

Ólafslög og afleiðing þeirra

Það er alveg hárrétt hjá Hrafni að Ólafslögum var ætlað að bregðast við miklum vanda sem var í hagkerfinu.  Það er líka rétt að sparnaður fólks í formi bankainnstæðna brann upp á árunum áður en lögin voru sett, en í staðinn jókst sparnaður fólks hratt í steinsteypunni.  Er því ekki viss um að heildarsparnaður hafi lækkað á þessum árum, hann færðist til.  Sjálfur tapaði ég stórum hluta fermingapeninga minna á verðbólgubálinu.

Ólafslögin hægðu ekki á verðbólgunni.  Nei, þau juku á hraða hennar.

Skoðum nokkrar tölur um verðbólgu:

Grafið sýnir meðalverðbólgu hvers árs á tímabilinu 1940-2012.  Á miðju þessu tímabili sjáum við ógnvaldinn mikla, þ.e. óðaverðbólguna á 8. og 9. áratugnum.  Spyrjum okkur núna hverju breytti verðtryggingin? Síðustu fimm árin áður en verðtryggingin var lögleidd, þá var meðalverðbólgan 40,1% og 29,4% síðustu 10 árin.  Fyrstu fimm árin eftir að verðtryggingin var lögleidd var meðalverðbólgan hins vegar 55,6% og 39,7% fyrstu 10 árin. Færa má fyrir því nokkuð gild rök að verðtryggingin hafi aukið verðbólguhraðann en ekki dregið úr honum.  En látum það nú vera.  Skoðum tímabilið frá 1940 til 1970.  Á því tímabili var meðalársverðbólga 11,2% og þrátt fyrir það lögðust bankastjórar Landsbanka Íslands hf. gegn því (sbr. tilvísaða umsögn að ofan) að veitt væri heimild í lögum fyrir verðtryggingu.

Ég get alveg skilið að illa brenndir sparifjáreigendur hafi tekið verðtryggingunni fagnandi árið 1979, en þörfin fyrir verðtrygginguna hvarf árið 1992, þegar meðalársverðbólgan fór niður í 4,0%. 

Stöðugleiki en skuldasöfnun

Tímabilið frá 1992 til 2007 er það tímabil í lýðveldissögunni sem hefur haft mestan stöðugleika verðlags.  Maður hefði því haldið að þetta ætti að vera það tímabil þegar mest eignarmyndun hefði orðið hjá almenningi.  Þegar maður aftur skoðar þetta tímabil, þá getur verið að eignir hafi hækkað í verði, en þær lítið gert annað en að halda í við skuldir.  Aðeins 2005, 2006 og 2007 (þ.e. bóluárin) varð einhver marktækur viðsnúningur á því að skuldir jukust jafnt og þétt sem hlutfall af virði fasteigna.  Úr því að vera 25% árið 1990 upp í að vera 43% árið 2008 (sjá meðfylgjandi mynd) og raunar upp í um 47% fyrir árið 2010, sem er síðasta árið sem ég hef ár áreiðanlegar tölur fyrir.

Þessi mynd er fengin úr verðtryggingarskýrslunni sem Gylfi Magnússon lét gera.

Hér er eðlilegast að álykta, að verðtryggingin skipti miklu máli við að hækka skuldir heimilanna, þar sem á mest öllu þessu tímabili stóðu húsnæðiskaupendum bara til boða verðtryggð lán.

Í árslok 2011 voru verðtryggðar skuldir heimilanna metnar vera um 1.285 milljarðar kr.  samkvæmt upplýsingum sem ég sótti á vef Seðlabankans, þegar ég var að undirbúa erindi á fundi um verðtrygginguna í janúar 2012.  Þó ekki sé hægt að lesa það beint út úr tölum SÍ hve verðbætur eru stór hluti af þessari tölu, þá má samt nálgast þessa tölu með einföldum útreikningi.  Sá útreikningur leiddi mig að þeirri niðurstöðu að þessi tala skiptist í 600 ma.kr. sem teknir voru að láni og 685 ma.kr. sem bæst höfðu ofan á lánin sem verðbætur!  Þetta er skýringin á því að eignarmyndun er svo hæg. Heimilin ná ekki einu sinni að halda í skottið á verðbótunum sem hrannast á skuldir þeirra.

Verðtrygging og sparnaður

Margir af helstu postulum verðtryggingarinnar halda því statt og stöðugt fram að án verðtryggingarinnar, þá muni sparnaður fólks brenna upp.  Byrjum nú á því að skilgreina í hverju sparnaður fólks felst.

Almenningur á sparnað sinn í m.a. eftirfarandi formi:

  1. Fé í banka.  Áætlað er að einstaklingar eigi um 1.200 milljarða kr. á innlánsreikningum í bönkum, þar af 214 ma.kr. verðtryggt. Kemur þó í ljós að megnið af innstæðum er í eigum mjög lítils hluta þjóðarinnar og flestir eiga lítið sem ekkert sparifé.

  2. Lífeyrissparnaður.  Samkvæmt nýjustu tölum eru eignir lífeyrissjóðanna upp á nálæt 2.500 ma.kr.

  3. Húsnæði.  Hátt í 90% heimila býr í eigin húsnæði.  (Kannski ég ætti að setja eigin innan gæsalappa.)  Miðað við að húsnæðisskuldir eru nálægt 1.300 ma.kr. og þær eru um 47% af fasteignavirði, þá eiga heimilin tæplega 1.500 ma.kr. í húsnæði sínu miðað við fasteignamat.  Sé miðað við markaðsvirði, þá er þessi tala eitthvað hærri.  Þrátt fyrir þetta er fólk á aldrinum 25-45 ára með neikvæða eign upp á 80 ma.kr. samkvæmt nýlegum gögnum.

  4. Aðrar eignir.  Þetta er óræð tala sem ég ætla ekki að giska á, en í henni eru bílaeign, peningabréf, verðbréf, hlutabréf, listmunir, sumarhús og margt annað sem heimilin eiga.

Af þessum eignum er ótrúlega lítill hluti háður verðtryggingunni.  Fæstir eru með sparifé sitt á verðtryggðum reikningum vegna binditímans.  Ekki má verðtryggja reikninga nema féð sé bundið í lágmarkstíma, sem er einhver ár.  (Verð að viðurkenna vanþekkingu mína á þessu, þar sem ég hef ekki getað leyft að geyma fé á verðtryggðum reikningi í líklegast 17 ár!)  En sem sagt mjög lítill hluti sparifjár í bönkum er verðtryggður.  Þá er það lífeyririnn.  Ein alræmdasta þjóðsagan sem gengur í þjóðfélaginu er að lífeyrir sé verðtryggður.  Þetta er tóm þvæla.  Ef lífeyrir væri verðtryggður, þá mætti ekki skerða hann eða hækka.  Hann fylgdi bara verðbólgunni.  Þeir sem fá greiddan lífeyri vita að þannig gerast ekki kaupin á eyrinni.  Húsnæðið er ekki verðtryggt, en það eru aftur skuldirnar!  Eina leiðin til að fólk vilji halda áfram að greiða af skuldum sínum hefur falist í því að fasteignaverð haldi í við hækkun skulda.  Á því er misbrestur um þessar mundir og hefur gerst áður, eftir að verðtryggingin var tekin upp.  Þá eru það aðrar eignir og öll vitum við að þær eru ekki verðtryggðar.

Það er því ótrúlega lífseig lygasaga að verðtryggingin sé til að vernda sparnað.

Verðtryggingin sparifjár og lífeyrissjóðirnir

Á 8. áratugnum var, eins og áður hefur komið fram, umtalsverð verðbólga í landinu.  Hún nældist um 1650% og þá tek ég meðalvísitölu ársins 1980 og ber saman við meðalvísitölu ársins 1970.  Næsta áratug á eftir, þegar verðtryggingin var á fullu, þá reyndist verðbólgan um 1700%.  Sem sagt verðtryggingin vann ekkert á verðbólgunni.  Hún jók hana ef eitthvað var!  En hvernig var þetta á áratugunum á undan?  Á þeim 5. var verðbólgan um 230%, 89% á þeim 6. og 210% á þeim sjöunda.  Síðustu tvo áratugi hefur hún svo verið 37% á þeim 10. og 82% á þeim síðasta.  Við höfum sem sagt verið með lægri verðbólgu síðustu 20 ár, en þau 30 áður en allt fór úr böndunum vegna lélegrar hagstjórnar.  Og það var einmitt á seinni hluta þessara 30 ára sem bankastjórar Landsbanka Íslands töluðu um að eina leiðin til að verðtryggja spariféð væri að losna við verðbólguna.

Eins og fyrirkomulag verðtryggingarinnar er í dag, þá er varla hægt að tala um að sparifé sé verðtryggt.  Viljum við nefna hlutina réttum nöfnum, þá eru það fjárfestingar í tilteknu formi verðbréfa sem eru verðtryggðar.  Lífeyrissjóðirnir eru mjög stórir eigendur verðtryggðra fjárskuldbindinga og liggja á bilinu 6-700 milljarðar (ef ekki meira) í verðtryggðum skuldabréfum ÍLS.  Þá er rétt að spyrja sig að því hvaða máli skipta þessar eignir fyrir lífeyrissjóðina.

Ég bý nú ekki yfir sömu þekkingu á eignasöfnum lífeyrissjóðanna og Hrafn Magnússon gerir, en ég þarf svo sem ekki þá þekkingu til að sjá í hverju vöxtur eigna lífeyrissjóðanna hefur legið undanfarin 10 ár eða svo (og svo bý ég að því að hafa kynnt mér þetta aðeins).  Á árunum 2002-2007 var mjög verulegur hluti ávöxtunar lífeyrissjóðanna í óverðtryggðum eignum.  Um tíma var vöxtur óverðtryggðra eigna sjóðanna svo ör, að þeir voru í vandræðum með að halda sig innan fjárfestingarstefnu sinnar!  Nú árið 2008 var allt í mínus hjá sjóðunum nema verðtryggðu eignirnar.  Síðustu fjögur ár eru það aftur óverðtryggðar eignir sem færa mestu ávöxtunina og svo einstaka gjafagjörningar af hálfu fyrrverandi fjármálaráðherra. Í dag mælti svo núverandi fjármála- og efnahagsráðherra fyrir frumvarpi sem miðar að því að veita lífeyrissjóðunum rétt til að fjárfesta í enn meira af óverðtryggðum eignum!

Að loknum - Bara verið að tala um neytendalán

Þetta er orðin löng grein, en áður en ég hætti, þá verð ég að fá að hnýta í nokkur atriði í grein Hrafns.  (Tek það fram að ég þekki Hrafn ekki af neinu nema góðu, hvort heldur þegar hann var framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða eða þegar ég á spjall við hann í Salalaug.)  Ég er búinn að benda á að atlaga að verðtryggingunni kemur atlögu að sparnaði landsmanna ekkert við.  Já, skuldavandi heimilanna er verðtryggingunni að kenna, vegna þess að væru heimilin bara að kljást við verðbólguna án verðtryggingarinnar, þá væri enginn skuldavandi.  Hrafn bendir á að verðtryggður sparnaður heimilanna nemi 214 milljörðum, en ég vil í staðinn benda á að verðtryggðar skuldir nema á milli 1.200 - 1.300 milljörðum.  Hvort ætli skipti meira máli fyrir heimilin að verðtryggja 214 ma.kr. eða losna við verðtryggingu af 1.200 ma.kr.?

Varðandi verðtryggðar eignir lífeyrissjóðanna, þá erum við sem berjumst fyrir afnámi verðtryggingarinnar, bara að tala um afnám hennar gagnvart neytendalánum.  Séum verðtryggðar eignir lífeyrissjóðanna um 1.500 ma.kr., þá hljóta aðrar eignir en beint eða óbeint í neytendalánum að vera um helmingur tölunnar.

Hrafn talar um að lánþegar hafi verið að sligast undan greiðslubyrði óverðtryggðra lána áður en verðtryggingin var sett á árið 1979.  Útlánsvextir voru heil 20%.  Árið 1979 var meðalverðbólga  43,9%, þannig að 20% vextir voru hrein gjöf hafi launaþróun fylgt verðbólgunni.  Ég man enn þegar karl faðir minn fór og greiddi af húsnæðisláni hjá SPRON.  Hann átti eftir að greiða einhvera 5 gjalddaga og afborgunin var upp á minnir mig 250 kr. (gamlar).  Bætum 20% vöxtum af 1.250 kr. ofan á og heildargreiðslan var 500 kr.  Það var um einn þriðji af tímakaupi mínu þetta sumar!

Það er bjarnargreiði að lána ungu fólki verðtryggt til langs tíma.  Flest ungt fólk mun skipta um húsnæði innan nokkurra ára, þegar fjölgað hefur í fjölskyldunni.  Fyrir það er ekkert lánsform óhagstæðara en einmitt það verðtryggða.  Ástæðan er einfaldlega sú gildra sem felst í verðtryggingunni, þ.e. að fyrstu árin bætir hressilega á höfuðstólinn og eftirstöðvarnar hækka hratt.  Við sölu, þá situr fólk uppi með að hafa greitt háar fjárhæðir í stuttan tíma, en eftirstöðvarnar hafa hækkað mun meira.  Það er í þessu sem mestur hagnaður fjármálafyrirtækja af verðtryggingunni felst.  Þ.e. að lánin séu greidd upp á fyrri hluta lánstímans, áður en afborganahluti lánsins fer að verða ráðandi hluti greiðslunnar.

Hrafn vill ekki tilraunastarfsemi.  Við þessu vil ég segja:  Árið 1979 var farið af stað með tilraun, þ.e. verðtryggingu fjárskuldbindinga, sparnaðar og launa.  Fjórum árum síðar áttuðu menn sig á því að verðtrygging launa var feigðarflan.  Almennt sparifé hefur ekki verið verðtryggt í mjög mörg ár, heldur eingöngu það sparifé sem innstæðueigendur vilja binda til langs tíma.  Einnig hefur verið horfið frá verðtryggingu fjárskuldbindinga til skamms tíma, þ.e. innan við 5 ára.  Menn hafa sem sagt smátt og smátt komist að því, að tilraunin sem hófst 1979 var ekki eins vel heppnuð og búist var við.  Nú eru aðeins tveir flokkar hennar eftir og þó ég myndi helst vilja að báðir yrðu slegnir af, þá nægir mér að sett verði bann við verðtryggingu langtíma fjárskuldbindinga neytenda.  Ég held nefnilega að sömu rök gildi  um verðtryggingu miðað við vísitölu neysluverðs og verðtryggingu miðað við gengi, að þeir einu eiga að vera með verðtryggðar skuldir sem eru með verðtryggðar tekjur.

Viðurkennum þá staðreynd, að tilraunin sem hófst með Ólafslögum er komin á endastöð.  Hún misheppnaðist kannski ekki fyrr en menn kunnu ekki að blása hana af!