Samantekt á ályktunum mínum

Hér fyrir neðan má finna samantekt á ályktunum mínum um orsakir bankahrunsins árið 2008.  Ég fjalla ítarlegar um mörg af þessum atriðum í bókinni minni, Á asnaeyrum.  Bókin fæst á Amazon.  Hægt er að fá hana ýmist sem kilju eða rafbók (Kindle).

Samantekt á ályktunum mínum

Margt fór úrskeiðis í undanfara og eftirmálum hrunsins.  Raunar svo mikið að ég furða mig á því, að ekki hafi verið haldnar margar ráðstefnur og vinnufundir þeirra, sem þar klúðruðu mestu, til að finna betur úr hverju var klúðrað og hvernig megi koma í veg fyrir að það endurtaki sig.  Ekkert slíkt hefur verið gert.  Haldin var hálfgerð hallelúja ráðstefna í Hörpunni, þar sem margir klöppuðu á bak hvers annars og hrósuðu sér og öðrum fyrir hve vel meint endurreisn hefði tekist.  Vissulega kom Skýrslan út, en þrátt fyrir að hópur þingmann hafi legið yfir henni heilt sumar, þá varð afraksturinn af þeirri vinnu heldur lítill og snerist upp í farsa þegar ákveðið var að ákæra Geir H. Haarde einan fyrir sín afglöp, en sleppa meðreiðarfólki hans.  Þingályktunartillaga var samþykkt um að breyta ótrúlega mörgu, en lítið hefur verið gert.

Hér eru mínar ályktanir, en fjalla ekki um allar þeirra í þessum fyrsta hluta:

1.      Seðlabanki og Fjármálaeftirlit:

 • Ég tel að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlit hafi brugðist í hlutverkum sínum sem þeir aðilar sem eiga að stuðla að fjármálastöðugleika í undanfara hrunsins.
 • Ég tel að Seðlabankinn hafi farið fram úr sér í viðbrögðum við stöðu Glitnis.  Menn áttu að taka sér lengri tíma til að greina stöðuna og taka á henni af meiri yfirvegun. Sleggju var beitt þegar hamar hefði dugað.  Hvort það, að menn hefur gefið sér lengri tíma, hefði breytt einhverju veit ég ekki, en niðurstaðan hefði ekki getað orðið verri. 
 • Ég tel að Seðlabankinn hafi unnið gegn fjármálastöðugleika í landinu allt frá því að gengið var sett á flot í lok mars 2001. Það gerði hann með því að setja gengið á flot í mikilli verðbólgu og þegar stýrivextir höfðu verið háir í langan tíma.  Betra hefði verið að bíða þar til verðbólgan gekk niður og stýrivextir voru lágir til að eiga möguleika á að hækka stýrivexti samhliða því að setja krónuna á flot.  Færa má, svo sem, rök fyrir því að Seðlabankinn hafi verið í þvingaðri stöðu, en hafi svo verið, þá bar yfirstjórn hans sök á því.  Ég tel að það hafi yfirhöfuð verið rangt að setja krónuna á flot og betra hefði verið að fara þá leið að hengja hana á gengi annars gjaldmiðils eða körfu gjaldmiðla.  Miðað við gjaldeyrisforða bankans, þá var ljóst, að hann hafði enga burði til inngripa á markaði.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að nota vísitölumælingu sem var samanburðarhæf við mælingar í nágrannalöndum okkar, þannig að allar ákvarðanir í peningamálum væru byggðar á samanburðarhæfum grunni.  Það þýðir að nota samræmda vísitölu neysluverðs.  Staðreyndin er að verðbólga mæld með samræmdri vísitölu var lægri en verðbólga mæld með hefðbundinni vísitölu neysluverðs (VNV) á lykiltímabilum fyrir hrun og því hefðu viðbrögð, m.a. ákvarðanir um stýrivexti, verið hógværari en með því að miða við verðbólgu samkvæmt VNV.  Bara svo það sé á hreinu, þá tel ég mikilvægt að hafa mælingu á húsnæðiskostnaði í VNV, en fjárfestingakostnaður vegna húsnæðis á ekki heima þar.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði ekki átt að lækka bindiskyldu árið 2003 samhliða innleiðingu Fjármálaeftirlitsins á Basel II reglunum. 
 • Ég tel að innleiðing Basel II reglnanna árið 2003 hefði átt að vera í þrepum, en ekki einu stökki. 
 • Fyrst gengið var sett á flot, tel ég að Seðlabankinn hefði átt að nýta hagstjórnartæki sín betur til að tryggja hér stöðugt gengi, þ.e. að kaupa krónur þegar gengið var að styrkjast og þannig vinna gegn of mikilli styrkingu. Með því hefði hann jafnframt byggt upp gjaldeyrisforða og varnað því að vaxtamunarsamningar væru gerðir á kostnað fjárhagslegs stöðugleika.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að setja sér skýr og opinber viðmið varðandi eðlilega raunstýrivexti og undir hvaða kringumstæðum mætti eða væri nauðsynlegt að víkja frá slíkum viðmiðum.  Hann styðst vissulega við svo kallaða jafnvægisraunvexti, en hvernig þeir eru ákvarðaðir er ekki gagnsætt og er þeim haldið óbreyttum langtímum saman þó aðstæður í hagkerfinu breytist.  Fyrir hrun voru þessir vextir 4,5%, en voru lækkaðir í 3,0% án nokkurrar skýringar haustið 2008.  Að þessir jafnvægisraunvextir séu alltaf þeir sömu án tillits til verðbólgu, tel ég ekki standast og þeir eigi að lækka verulega í lágri verðbólgu.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að vera með sveigjanlegri verðbólguviðmið, en fyrst og fremst að vera með breytileg tímamörk varðandi það hvenær aðgerðir bankans kæmu verðbólgunni í verðbólguviðmið bankans.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að veita viðskiptabönkunum meira aðhald með hækkun bindiskyldu þegar ljóst var að útrásin var gerð með skuldsetningu.  Hann hefði einnig átt að fylgjast betur með erlendri fjármögnun bankanna, veðlánaviðskiptum þeirra innanlands og utan, innri viðskiptum milli dótturfélaga og móðurfélags, o.s.frv.
 • Ég tel að það hafi verið mikil mistök hjá Fjármálaeftirlitinu að lækka áhættustuðul við útreikning eiginfjárkröfu samkvæmt Basel II reglunum hinn 2. mars 2007.
 • Ég tel að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlit hafi strax haustið 2007 átt að bregðast við varðandi þá lausafjárþurrð sem virtist í uppsiglingu.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að bregðast við Jöklabréfunum með því að lækka stýrivexti strax og ljóst var að spákaupmenn voru að spila á vaxtamun og gengi krónunnar.  Aukning vaxtamunaviðskipta bendir til ójafnvægis og óheilbrigði peningakerfisins og að skráning gjaldmiðilsins er röng.

2.      Fjármálafyrirtæki:

Fyrst eru það almenn atriði:

 • Bankarnir hefðu átt að vera með mun virkari áhættustýringu.  Ég efast ekki um að áhættustýring var í gangi, en miðað við vitnisburð manna í dómsmálum, þá var hún oft hrein sýndarmennska og til að uppfylla formsatriði, en ekki til að verja bankana tjóni ef allt færi á versta veg. 
 • Bankarnir hefðu átt að vera með breytingastjórnunarferli sem gerði kröfu um að allar breytingar í rekstri og viðskiptaháttum þeirra færi í gegn um gagngera skoðun á kostum og göllum, þar með verstu mögulegu niðurstöðu.  Tengja varð saman breytingastjórnun og áhættustýringu, þannig að tryggt væri að gert væri heildstætt mat á áhættuþáttum áður en blásið var til útrása, stórra fjárfestinga eða útlána sem gengu nærri eigin fé banka.
 • Bankarnir hefðu átt að vera með innleitt og prófað stjórnferli vegna rekstrarsamfellu.  Munurinn á því að vera með slíkt ferli og að vera eingöngu með áhættustýringu er að hið fyrra er mun víðtækara.  Það greinir umfangsmeiri áföll og gerir kröfu um að öll viðbrögð við slíkum áföllum séu skilgreind og skjalfest.  Miðað við þekkingu mína á bönkunum, þá voru slík ferli ekki til.

Svo er það rekstur bankanna, en margt af því sem hér kemur fram má einnig lesa í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis:

 • Bankarnir áttu að halda aftur af vexti sínu, þegar þeim var ljóst að þeir voru orðnir of stórir fyrir hagkerfið og sérstaklega Seðlabankann.  Þeir áttu að leggja í varasjóði upphæðir sem hægt væri að grípa til, ef illa færi, því þeir máttu vita, að Seðlabankinn hafði ekki getu til að vera lánveitandi til þrautavara í erlendri mynt í þeim upphæðum sem bankana gæti vantað.  Eftir að bankarnir uxu getu Seðlabankans upp fyrir höfðu, þá voru þeir að leika rússneska rúllettu.  Málið er bara, að ein kúla var nóg til að fella þá alla.  Þetta er í mínum huga stærsta einstaka atriðið, sem bankastjórar og formenn bankastjórna þessara þriggja banka verða á taka á sig og geta ekki bent á neinn annan sökudólg.  Þeir geta ekki bent á Seðlabankann og sagt að hann hefði átt að bregðast við.  Bankarnir báru ábyrgð á vexti sínum og þá um leið fjárhagslegu öryggi sínu.  Enginn annar átti, mátti eða gat tekið þá ábyrgð af þeim.  Rekstur fyrirtækja er á ábyrgð stjórnenda þeirra og eigenda og annað hvort eru þeir hæfir til að axla þá ábyrgð eða eiga að snúa sér að einhverju öðru.  Svo einfalt er það.  Því miður reyndust þessir aðilar ekki hæfir til verksins miðað við hvernig fór.
 • Útlánaáhætta bankanna allra var alveg út úr kortinu.  Ég efast ekki um að menn töldu flestar fjárfestingar, sem lánað var til, mjög traustar, en grundvallarregla varðandi útlán er að tryggingar fyrir greiðslum séu góðar.  A.m.k. nokkur hundruð milljarðar af útlánum bankanna voru með veð í hlutabréfum sem einu trygginguna, hlutabréfum sem fjárfest var í með láninu sem veitt var.  Bankinn hefði allt eins getað keypt umrædd hlutabréf sjálfur.  Það hefði a.m.k. tryggt honum arðgreiðslur af fjárfestingunni.
 • Veik eiginfjárstaða var falin með þeim blekkingum sem lýst er hér að ofan. Um leið og banki fullfjármagnar kaup á eigin bréfum, þá á hann að draga upphæð lánsins frá eigin fé sínu, þar sem enginn munur er á því og að bankinn eigi bréfin sjálfur.  Sama gildir raunar líka, ef banki A lánar aðila 1, fé til að kaupa bréf í banka B, sem lánar aðila 2 til að kaupa bréf í banka C, sem síðan lánar aðila 3 til að kaupa bréf í banka A meðan bréfin eru eina tryggingin fyrir endurgreiðslu lánanna.
 • Þessi veika eiginfjárstaða var enn frekar falin með fléttu veðlána-viðskipta milli bankanna þriggja og bankanna við dótturfélög sín.  Sýndarviðskipti og blekkingar er í raun einu orðin sem ná yfir þessi viðskipti.
 • Bankarnir keyrðu upp verð á húsnæðismarkaði langt umfram það sem verð undirliggjandi fasteignir stóð undir.  Þeir máttu alveg vita, að verðhækkun fasteigna var bóla.  Vissulega hækkar verð fasteigna jafnt og þétt í verðbólgu, en 100% lánveitingar til kaupa á húsnæði sem hækkað hafði um vel á annað hundrað prósent var ávísun á hörmungar.  Bankarnir hefðu því strax árið 2005 átt að bakka út úr 100% lánveitingum til fasteignakaupa.
 • Bankarnir voru einfaldlega of virkir á fjárfestingamarkaði, ýmist með beinni þátttöku en fyrst og fremst með óbeinni þátttöku, þar sem þeir í raun tóku alla áhættuna, en lántakinn hirti arðinn.
 • Vöxtur bankanna var allt of hraður.  Hann var mikið til fjármagnaður með skammtímalánum á ótryggum markaði, en peningurinn lánaður til langs tíma.  Míní-kreppan árið 2006 var fyrsta vísbendingin um að bankarnir væru að fá þetta í andlitið.  Í staðinn fyrir að taka fæturna af bensíngjöfinni og færa yfir á bremsuna, þá var bara bensínið stigið í botn við fögnuð klappliðs í Kauphöllinni, Fjármálaeftirliti og á Alþingi.  „Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“[1] var mælt úr ræðustól á Alþingi, þegar einhver vogaði sér að spyrja hvort ekki væri farið of geyst.  Ég tel að árið 2006 hafi gengið bönkunum úr greipum tækifæri til að breyta fjármögnun sinni og færa vöxtinn yfir á viðráðanlegan hraða.  Það var ekki gert og því fór sem fór.
 • Söfnun innistæðna í erlendri mynt frá erlendum viðskiptavinum var svo sem alveg snilldarhugmynd, ef bara útfærslan væri rétt.  Hún bara var það ekki hjá öllum bönkunum.  Að halda síðan áfram slíkri söfnun, þegar menn vissu að staða bankans síns var eldfim og miklar líkur væri á að allt færi fjandans til, var síðan glannaskapur.  A.m.k. þóttust Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, þá óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, vita áður en opnað var fyrir Icesave-innlán í Hollandi, að ýmislegt væri að.  Davíð Oddsson, þáverandi seðla-bankastjóri, vissi það líka og hafði kynnt ríkisstjórn það.  Og loks höfðu bankastjórarnir verið kallaðir á teppið til að skýra sín mál.
 • Að breyta bönkunum í einkafjárhirslu eigenda sinna sem gengið var ótæpilega í, varð líklegast banabiti allra bankanna.  Þessi háttsemi hófst strax hjá Landsbanka Íslands og var alls konar blekkingum beitt til að bækur bankans sýndu ekki sannleikann.  Kaupþing fjármagnaði kaup á bréfum í stærsta eiganda sínum bara með veði í bréfunum.  Bankinn fjármagnaði svo fjárfestingar stærstu eigenda sinna út um allar trissur og var lítið að hafa áhyggjur af uppsafnaðri áhættu sem slíkum útlánum fylgdu.  Glitnir var í góðum málum þar til nýir aðilar tóku hann yfir og fengu sinn mann í stól bankastjóra.  Þegar svo fór að þrengja að um lánsfjármögnun hjá helstu eigendum bankanna árið 2007, þá breyttust bankarnir endanlega í einkabanka eigendanna.  Bankarnir skyldu gera allt sem hægt væri til að bjarga eigendunum, þó svo að bankarnir hefðu ekkert svigrúm til slíks.  Hvort þeir gerðu það meðvitað eða ekki, þá lögðust bankarnir á spjótin fyrir eigendur sína, en drógu þá síðan með sér.
 • Kúlulán bjuggu til flottar hagnaðartölur í bókhaldi, en þar sem þau voru án raunverulegs greiðsluflæðis, þá juku þau stöðugt á áhættu bankanna.  Þegar upp var staðið hafði stórhluti kúlulánþega aldrei greitt krónu til bankans síns.  Hvorki í vexti né afborganir.  Þeir höfðu hins vegar hirt arðgreiðslur af fjárfestingum, m.a. arðgreiðslur sem voru afleiðingar af bókfærðum hagnaði af kúlulánunum, sem aldrei mynduðu neitt raunverulegt greiðsluflæði.
 • Sýndarviðskipti virtust á stundum vera reglan.  Búin voru til félög sem skráð voru á Pétur og Pál úti í bæ án þess að viðkomandi hefðu nokkurn skapaðan hlut með félögin að gera.  Bankarnir notuðu síðan þessi félög til að hafa áhrif á verð eigin hlutabréfa.  Sumir sem skráðir voru eigendur fyrirtækjanna, hafa neitað að hafa nokkuð haft með þessi félög að gera, sem ætti náttúrulega að kalla á lögreglurannsókn.
 • Milljörðum og milljarða tugum var veitt í gegn um milliliði til að falsa eða hafa áhrif á skuldatryggingar og álag vegna þeirra.
 • Beitt var blekkingum um stöðu bankanna með því að bankarnir áttu í viðskiptum sín á milli eða með því að fá einfalda sakleysingja til að fela slóðina.
 • Ég gæti vafalaust haldið svona áfram lengi, en læt það vera.  Ég hugsa hins vegar oft til þess með hryllingi hvernig þetta hefði undið enn frekar upp á sig, hefði ekki allt hrunið haustið 2008.  Ég hef oft sagt, að bankarnir hafi ekki komið lokaatburðarrásinni af stað, en fyrirhyggjuleysi þeirra og glæfraskapur tryggði að skellurinn varð eins stór og raun bar vitni.

3.      Ríkisstjórnir og Alþingi:

 • Ég nefndi áðan klappliðið á Alþingi og vitnaði í ræðu Árna M. Mathiesen, þar sem hann hvatti þingmenn VG til að horfa ekki framhjá veislunni, sem hann taldi vera í þjóðfélaginu.  Því miður var þetta nokkuð ríkjandi viðhorf meðal þeirra, sem áttu að standa á verði fyrir okkur hin.  Hvorki þingheimur né ráðherrar veittu ástandinu athygli.  Menn veltu því ekki fyrir sér hvort uppgangi bankanna fylgdi kerfisáhætta.
 • Á kjörtímabilinu 2003-7, þá ýttu ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Geirs H. Haarde undir frekari vöxt banka-kerfisins.  Stofnaður var vinnuhópur/nefnd sem átti að leggja fram tillögur um það hvernig gera mætti Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð eða með öðrum orðum skattaskjóli!  Í þá nefnd voru náttúrulega bara skipaðir já-bræður, enda mátti örugglega ekki heyrast nein niðurrifsrödd.
 • Förum lengra aftur í tímann og fjöllum um umræðu á Alþingi, þegar lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta voru til umræðu á Alþingi árið 1999, þá spannst umræða um hvað myndi gerast, ef stór innlánsstofnun lenti í greiðsluerfiðleikum.  Finnur Ingólfsson, þáverandi viðskiptaráðherra, hann afgreiddi spurninguna nánast með orðunum „Og vonandi lendum við ekki í allsherjar stóru gjaldþroti.“[2] Ekki var lagt meira í að undirbúa Ísland fyrir áfall stórs banka, en að vona að slíkt gerðist ekki.  Með þessar varnir eða skort á vörnum opnuðu bankarnir þrír hindrunarlaust fyrir viðtöku innlána upp á hátt í 2.000 milljarða frá grandlausu fólki í útlöndum og þetta leyfðu íslensk stjórnvöld og hið ótrúlega meðvirka Fjármálaeftirlit án athugasemda.  „Við gátum ekki bannað það“ minnir mig að þáverandi forstjóri FME hafi sagt í skýrslutöku fyrir rannsóknanefnd Alþingis.  Og sama sögðu stjórnmálamennirnir.  Málið er, að hafi þeim þótt þetta hættulegt, sem það var, þá áttu viðkomandi að grípa til nauðsynlegra aðgerða.  Ég held bara, að mönnum hafi þótt þetta svo svakalega smart og spennandi, að litla Ísland væri að safna erlendum innstæðu í útlöndum, að þeir pissuðu í buxurnar af aðdáun og fengu stjörnublik í augun í staðinn fyrir að standa vaktina.  Ráðherrum bar að spyrja:  „Hvað er það versta sem gæti gerst?  Er aðferðin við opnun reikninganna rétt?  Skapar þetta kerfislæga áhættu fyrir Ísland?“, svo nokkrar spurningar séu tilteknar.  Seðlabankinn og FME áttu ekki síður að spyrja þessara spurninga og margra annarra, en samt gerðist þetta.
 • Ein stærstu mistök ráðherra á þessum árum var skipun Davíðs Oddssonar í embætti bankastjóra Seðlabankans.  Ég efast ekki um að Davíð er hæfur til alls konar verka, en þetta var ekki eitt af þeim. 
 • Ekkert ríki getur leyft einu eða nokkrum fyrirtækjum að verða svo stór, að staða ríkisins velti á afkomu viðkomandi fyrirtækis/fyrirtækja.  Að kerfisáhættan samhliða fyrirtækjunum væri svo mikil, að afkoma þjóðfélagsins væri undir.  Hvernig stendur þá á því, að þetta voru blautustu draumar allra ríkisstjórna frá 1995 til þeirrar sem tók við árið 2007?  Að hér yrði svo sterkt fjármálakerfi að það yxi öllu öðru upp fyrir höfuð án þess að nánast nokkuð væri gert til að draga úr kerfisáhættunni.
 • Þegar ljóst var að bankakerfið var orðið of stórt fyrir Seðlabankann að styðja það, þá áttu viðkomandi ráðherrar að grípa til aðgerða og þrýsta á Seðlabankann um að hann gripi til aðgerða.  Þessar aðgerðir þurftu að taka á vexti bankanna, hvort nauðsynlegt væri að koma böndum á vöxtinn eða styrkja stöðu Seðlabankans að hann réði við hlutverk sitt.  Það var ekki gert.
 • Eftir að krónan byrjaði að veikjast hratt í mars 2008, þá var ljóst að formenn stjórnarflokkanna og ráðherrar fjármála og bankamála voru ákaflega bláeygir gagnvart stöðunni.  Í staðinn fyrir að horfa yfirvegað á staðreyndir, þ.e. að fall Bear Sterns, bæri vott um að mikil hætta væri á ferð, þá var höfðinu stungið í sandinn.  Menn vildu ekki láta líta út sem eitthvað óðagot væri í gangi og fóru því í áróðursherferð í staðinn fyrir að taka ábendingar alvarlega.

Ekki er rétt að einskorða skýringarnar við þann hóp sem ég nefni að ofan.  Allir brugðust, þ.e. Seðlabankinn, ríkisstjórnir, Fjármálaeftirlit, Alþingi, bankarnir, fjárfestar, lífeyrissjóðirnir og almenningur.  Við létum dáleiðast af góðærinu og héldum að allt sem við snertum myndi breytast í gull.  Við létum glepjast af gylliboðum og misstum dómgreind okkar.  Við héldum að áhætta væri eitthvað sem við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af.  Það kæmi ekkert fyrir okkur.  Við værum svo pottþétt.  Við dönsuðum öll í kringum gullkálfinn og dýrkuðum hann. Við hlustuðum ekki á raddir efasemdarmanna og kölluðum þá öfundarmenn, heimska, skilningssljóa, o.s.frv.  Verst af öllu er að ákveðinn hópur manna lét stjórnast af ólýsanlegri græðgi, þar sem ekkert skipti máli nema næsta grædda króna.

Loks megum við ekki gleyma því, að við lentum í hamfarastormi.  Þessi stormur var ekki af okkar völdum og við höfðum fá úrræði til að komast í skjól undan honum.  Stærstu bankar heims féllu í þessum stormi og mörg þjóðríki horfðu ofan í hyldýpið, þó aðeins Ísland og Grikkland hafi hrapað þangað.  Spánn, Portúgal, Írland og Ungverjaland vógu salt á brúninni.  Ríkustu lönd heims brugðu á það ráð að ausa ómældum fjármunum inn í bankakerfi sín til að koma í veg fyrir fall þeirra.  Evrópski seðlabankinn hefur frá árinu 2007 staðið í nær samfelldum björgunaraðgerðum. Það algjörlega óvíst að við hefðum staðið þennan storm af okkur í útópísku hagkerfi bara út af smæð hagkerfisins.  Að fallið hafi verið jafn harkalegt og raun bar vitni er aftur alfarið sök bankanna, Seðlabanka, ríkisstjórnar, Alþingis og Fjármálaeftirlits.  Þetta eru þeir aðilar sem voru ábyrgir (e. responsible) og báru ábyrgðarskyldu (e. accountable).  Því miður hefur farið lítið fyrir því að menn hafi viðurkennt það.

[1] Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, ræða á Alþingi 17. mars 2007 http://www.althingi.is/ altext/133/03/r17183448.sgml.  Sótt 22. maí 2012.

[2] Finnur Ingólfsson, viðskiptaráðherra, umræða á Alþingi 7.10.1999:  http://www.althingi.is/ altext/125/10/r07125909.sgml.  Sótt 15. júní 2012.

Vísitala neysluverðs hækkar og hækkar þegar neysluútgjöld heimilanna lækka þrátt fyrir meiri tekjur

Hagstofan birti á einu bretti 2. mars sl. niðurstöður neyslurannsókna sinna fyrir þrjú tímabili, þ.e. 2011-2014, 2012-2015 og 2013-2016.  Niðurstöðunar eru um margt áhugaverðar eins og sjá má á töflunum þremur fyrir neðan (ráðstöfunartekjur, vikmörk, neysluútgjöld, vikmörk og hlutfall útgjalda af ráðstöfunartekjum):

Upphæðir lýsa meðaltali fyrir hvert heimili og eru í þúsundum króna

Upphæðir lýsa meðaltali fyrir hvert heimili og eru í þúsundum króna

Við sjáum að í öllum flokkum hafa útgjöld lækkað sem hlutfalla af ráðstöfunartekjum, sem bendir til kaupmáttaraukningar.  Samkvæmt þessu er kaupmáttaraukning 1. tekjufjórðungs um 39%, 2. fjórðungs er kaupmáttaraukningin 42,0%, hjá þeim 3. er hún 37,2% og 22,3% hjá þeim fjórða, með meðaltalið 29,5%.  Meðaltalið skekkist hins vegar af því hve tekjur hæsta tekjufjórðungsins eru miklar, eins og sést af því að meðaltal talnanna fjögurra er 35,2%.  Niðurstaðan er samt að það er ekki tekjulægsti hópurinn, sem hefur fengið mesta kaupmáttaraukningu, heldur er það hópur nr. 2.  (Vissulega hafa einhverjir flust á milli hópa sem eykur kaupmátt lægri tekjuhóps, hvort ástæðan er að einstaklingur færist upp á milli hópa eða niður.)

En það var ekki þetta sem vakti mesta athygli mína, þó þetta sé ákaflega áhugaverð niðurstaða.  Nei, það voru annars vegar breytingar á húsnæðiskostnaði og síðan einnig að neysluútgjöld höfðu dregist saman, þó tekjur hefðu hækkað og verðbólga hafði aukist.

Húsnæðiskostnaður

Okkur hefur verið talin trú um af Hagstofunni, að húsnæðiskostnaður hafi hækkað mjög mikið á síðustu árum, þannig að ég skoðaði hvernig raunverulegur húsnæðiskostnaður hafði breyst hjá tekjuhópunum og hér er niðurstaðan.  (Ég bætti meðaltalinu við, því mér fannst tölurnar eilítið skrítnar):

Þróun húsnæðiskostnaðar á hvert heimili í þúsundum króna

Þróun húsnæðiskostnaðar á hvert heimili í þúsundum króna

Já, mikil ósköp.  Húsnæðiskostnaður hefur hækkað samkvæmt raunverulegum neysluútgjöldum um 1,1 - 2,0% eftir því hvaða aðferð er notuð við útreikningana.  Ok, þetta hljómar eitthvað mun lægra en tölur þessarar sömu Hagstofu og birtar eru um hækkun húsnæðisliðar í vísitölu neysluverðs.  Þannig að næst var að skoða þróunina á vísitölu húsnæðiskostnaðar, eins og hún er í vísitölu neysluverðs.  Svona í leiðinni skoðaði ég hækkun á greiddri leigu og reiknaðri leigu.

Efri tafla sýnir hækkun vísitölunnar á hverju tímabili, en sú neðri meðalvísitölu hvers tímabils og loks hækkun milli 2011-2014 annars vegar og 2013-2016 hins vegar.

Efri tafla sýnir hækkun vísitölunnar á hverju tímabili, en sú neðri meðalvísitölu hvers tímabils og loks hækkun milli 2011-2014 annars vegar og 2013-2016 hins vegar.

Hér eru nokkuð áhugaverðar upplýsingar.  Svo virðist sem raunverulegur húsnæðiskostnaður þeirra sem tóku þátt í neyslurannsókn Hagstofunnar hafi hækkað umtalsvert minna, en mælingar Hagstofunnar á húsnæðislið vísitölunnar gefa til kynna!  Þetta er svo sem í dúr og moll við það sem ég hef haldið fram.  Að verðbreytingar á húsnæði, hvort heldur í formi greiddrar eða reiknaðrar leigu, gefa ekki rétta mynd af kostnaðarbreytingum húsnæðisliðarins hjá þeim sem búa í húsnæðinu, kaupa eða selja.

Neysluútgjöld lækka

En þetta er ekki það eina, sem vekur athygli.  Neysluútgjöld hafa farið lækkandi!  Árin 2011-2014 voru meðalneysluútgjöld heimilis 6.702 þ.kr., en 6.239 þ.kr. árin 2013-2016.  Þau lækkuðu því um 563 þ.kr. eða 8,4%.  (Var villa í upprunalega textanum og útgjöld sögð í m.kr. í stað þ.kr.)  Eigum við að trúa því, að fólk hafi dregið útgjöld sín saman?  Hvernig stendur á 8,4% samdrætti í útgjöldum á sama tíma og ráðstöfunartekjur voru að aukast.  Verð að viðurkenna, að það stenst enga skoðun.  Er ekki líklegt, að fólk hafi verið að gera hagkvæmari innkaup.  Skipt úr dýrari vöru í ódýrari eða hafði verðlag hreinlega lækkað svona mikið? 

Þegar ég bar saman útgjöld til einstakra liða í neyslurannsókn Hagstofunnar milli 2011-2014 og 2013-2016, þá kom í ljós að útgjöld lækkað vegna 34 liða af 47 liðum sem mældir eru.  Hinir 13 höfðu hækkað.  Þegar yfirflokkarnir eru skoðaðir, þá lækkuðu útgjöld vegna þessara:

 • Matur og drykkir - 20,4%
 • Áfengi og tóbak - 26,9%
 • Föt og skór - 12,8%
 • Ferðir og flutningar - 6,8%
 • Póstur og sími - 8,0%
 • Tómstundir og menning - 9,1%
 • Menntun - 54,6%

Meðan þau hækkuðu vegna eftirtalinna:

 • Húsnæði, hiti og rafmagn - 1,1%
 • Húsgögn, heimilisbúnaður, o.fl. - 2,1%
 • Heilsugæsla - 0,9%
 • Hótel og veitingastaðir - 7,6%
 • Aðrar vörur og þjónusta - 0,1%

Nú dettur mér ekki í hug, að heimili landsins hafi allt í einu farið að borða minna.  Þau voru einfaldlega að versla ódýrar inn.  Hvar kemur sú breyting fram í vísitölu neysluverðs?  Ég geri mér grein fyrir að líklegast voru ekki öll heimili þau sömu, sem tóku þátt í neyslurannsókninni fyrir 2011-2014 og voru með 2013-2016.  Hagstofan telur samt að upplýsingarnar séu nægilega líkar til að nota við að breyta hlutfallslegu vægi liða í vísitölu neysluverðs.  Því verður Hagstofan að svara því hvernig lægri neysluútgjöld koma fram í vísitölunni.  Hafi það kraftaverk gerst að neysla hafi dregist saman við hækkun ráðstöfunartekna, þá er vert að fara í ítarlega rannsókn á því kraftaverki.

Ég hef ENGA trú á því, að þetta kraftaverk hafi átt sér stað.  Ég held heldur ekki að neyslumunstur þjóðarinnar hafi tekið hvílíkum breytingum á milli þessara tveggja tímabila, að allt í einu hafi þjóðin farið að versla minna eða allt öðru vísi en áður.  Þess síður stenst það, að í hækkandi verðbólgu, þá sé allt í einu samdráttur í matinnkaupum upp á 20,4%.  Já, ég gleymdi að nefna, að verð matar og drykkja HÆKKAÐI um 6,0% á milli tímabilanna 2011-2014 og 2013-2016, þegar borin er saman meðalvísitala beggja tímabila.  Það þýðir ofan á 20,4% samdráttinn, að þjóðin á að hafa keypt ríflega fjórðungi minna af matar- og drykkjavöru 2013-2016, en hún gerði 2011-2014.  Eigum við að trúa því?

Ég trúi því ekki og mér þætti vænt um, ef Hagstofan gæti skýrt út hvernig það gangi upp, að fólk sem er með góðar tekjur dregur saman neyslu sína um 7,1% í um það bil 6,0% verðbólgu á sama tíma og tekjur þess jukust um 13,6%.  Kannski er skýringin einföld, en mig grunar að eitthvað sé ekki rétt mælt og sú skekkja sé í mælingu á vísitölu neysluverðs.

Húsnæðisliður í vísitölu neysluverðs

Í tilefni þess að Þorsteinn Sæmundsson hefur lagt fram frumvarp, þar sem lagt er til að eingöngu megi nota vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar til grundvallar verðtryggingar, þá vil ég birta hér umfjöllun mína um þetta mál í nýútkominni bók minni Á asnaeyrum.  Ég tek fram að ég er eingöngu að fjalla um liðinn 024 Reiknuð húsleiga og ég er ekki að fjalla um verðtrygginguna sjálfa.

Greidd og reiknuð húsaleiga í vísitölu neysluverðs

Lítið fer á milli mála, að nauðsynlegt er að reikna húsnæðiskostnað á einhvern hátt inn í neysluvísitölu.  Gagnvart þeim sem leigir húsnæði, er þetta frekar einfalt.  Breyting á leiguverði segir beint til um kostnaðarbreytingu leigjandans.  Með því að taka úrtak leigukostnaðar frá mörgum leigusölum, er hægt að sjá líklega breytingu á markaðsverði leigu.  Þetta er gert í liðnum 041 Greidd húsaleiga í vísitölu neysluverð (VNV).

Spurningin er hins vegar hvernig eigi að gera það þegar um eignarhúsnæði er að ræða.  Breytingar á þeim þætti eru sýndar í liðnum 042 Reiknuð húsaleiga og endurspeglar í dag breytingar á húsnæðisverði.  Í mínum huga er rangt að nota breytingar á húsnæðisverði beint, því sú breyting sýnir ekki kostnaðarbreytingar fyrir eiganda húsnæðisins.  Raunar er yfirhöfuð rangt að nota húsnæðisverð til að mæla reiknaða húsaleigu, því kaupin á húsnæðinu eru (skuldsett) fjárfesting sem ætlunin er að leiði til að sparnaður safnist upp.  Allar afborganir af lánum (bara afborganahlutinn) eru því aðferð til að leggja meira fé í sparnað/lækka skuldsetningu fjárfestingarinnar.

Sá sem er búinn að eiga húsnæði í mörg ár, verður ekki endilega fyrir kostnaðarbreytingu samhliða hækkun húsnæðisverðs.  Líklegra er að þessi kostnaðarbreyting tengist nýju fasteignamati, þar sem fasteignamatið hefur áhrif á fasteignagjöld.  Þar sem breyting á fasteignagjöldum á sér bara stað einu sinni á ári, þá ætti sú breyting bara að koma fram í reiknaðri húsaleigu á þeim tímapunkti.  Markaðsverð húsnæðis hefur hins vegar ekki áhrif á neitt sem húsnæðiseigendur greiða (og þá er verið að tala um þá sem ekki eru að skipta um húsnæði).

Annað sem verður að skoða, er hvort eigendaskipti á húsnæði leiði yfirhöfuð til kostnaðarhækkunar fyrir kaupandann, þrátt fyrir að húsnæðisverð hafi hækkað.  Nokkur atriði skipta þar máli:

·        Fjármagnskostnaður:  Breytingar á vaxtakjörum gætu hreinlega leitt til þess að greiðslubyrði lána minnki við húsnæðisskipti, þó farið sé í dýrara húsnæði. Ekki er sjálfgefið að nýtt húsnæði krefjist hærri lántöku. Engin tengsl eru á milli þeirra lána sem þarf að taka og húsnæðisverðs og því þarf fjármagnskostnaður ekki að hækka í sama hlutfalli og húsnæðisverð.

·        Eigið fé í seldri eign/sparnaður/fjárfesting/ávöxtun:  Flestir húsnæðiskaupendur, eru að koma úr annarri eign sem líklega hækkaði í verði með viðkomandi átti húsnæðið og hefur leitt til hækkunar eiginfjár.  Við sölu þarf því sá sem kaupir að greiða út mismuninn á yfirteknum lánum og söluverðinu.  Þessi upphæð er (vonandi) annars vegar það eigið fé sem lagt var fram við kaup á nýrri eign og hins vegar sparnaður/ávöxtun, sem seljandi hefur náð að mynda, varðveita eða varna að tapist frá því hann eignaðist húsnæðið.  Þegar þessi peningur er settur í kaup á nýrri eign, þá er ekki um kostnað að ræða fyrir viðkomandi, heldur verið að færa sparnað/eigið fé á milli fjárfestinga.  Eftir því sem fólk eldist, þá vonast það til þess að þessi sparnaður aukist og hann verði hægt að taka út á einhverjum tímapunkti, þegar ákveðið er að fara í ódýrara húsnæði á efri árum.  Að eiga sparnað í húsnæði, er ekki að fórna ávöxtun sem hægt væri að fá annars staðar.  Ávöxtunin kemur fram í hækkun húsnæðisverðs.  Hún getur verið jákvæð og hún getur verið neikvæð, en það á við um allar fjárfestingar.  Ekkert segir heldur til um að ávöxtunin eigi að halda í við verðbólgu.  Að halda því fram, að það sé (fórnar-)kostnaður falinn í því að geyma fé í fasteign og að hann hækki með hærra fasteignaverði, er einfaldlega rangt.  Meðan féð, sem bundið er í fasteigninni, ber árlega ávöxtun, þá er álíka fáránlegt að halda þessu fram og að segja, að það kosti að geyma fé á bankareikningi eða í seljanlegum eignum, eins og verðbréfum, sumarbústað eða þess vegna gulli.

·        Verðbólga og verðbætur: Breytingar á verðbólgu fara beint inn í afborganir lána.  Um leið og verðbætur leggjast á lán, þá hækkar sá hluti fjármagnskostnaðar sem heitir verðbætur á höfuðstól/eftirstöðvar, verðbætur á afborgun og verðbætur á vexti.  Í lítilli verðbólgu, þá dregur úr þessum hluta fjármagnskostnaðarins, meðan hann eykst í mikilli verðbólgu.  Í lítilli verðbólgu gæti lántakinn meira að segja verið að greiða niður eftirstöðvar lánsins, þ.e. greitt meira í afborgun og verðbætur á afborgun, en nemur verðbótum sem bættust á lánið vegna hækkunar vísitölu neysluverðs.  Svo þarf að skoða (sbr. síðasta lið) hvort verðbætur hafi ekki í raun áhrif á sparnaðarhlutann, en ekki notkunarhlutann, því verðbæturnar stuðla að lækkun eiginfjár í fasteign hvort heldur fasteignaverð er hækka eða lækka.

·        Er viðkomandi að minnka við sig eða stækka við sig, að fara úr gömlu húsnæði í nýtt eða öfugt, að fara af dýrara svæði yfir á ódýrara eða öfugt.  Er húsnæðið nýuppgert, í upprunalegu ástandi eða í niðurníðslu.  Er um nýbyggingu að ræða.  Allt þetta segir til um hvaða áhrif húsnæðisskipti hafa á útgjöld heimilisins.

·        Er viðkomandi að koma úr leiguhúsnæði eða ókeypis húsnæði.

Að mæla bara breytingar á verði húsnæðis, segir nákvæmlega ekkert til um hvort húsnæðiseigandi hafi orðið fyrir kostnaðarbreytingum samhliða verðbreytingum.  Það mælir bara einn lið af mörgum sem skipta máli.

Tökum nokkur einföld dæmi:

1.      Lán endurfjármögnuð:  Húsnæði var keypt á 30 m.kr. með 24 m.kr. óverðtryggðu láni á 6,95% vöxtum og 6 m.kr. af sparnaði/eiginfé.  Eftir tvö ár stendur lánið í 22 m.kr. og þá er það endurfjármagnað með verðtryggðu láni með 3,6% vöxtum.  Verðbólga er stöðug um 2%.  Vaxtakostnaður fellur úr því að vera 127.417 kr. á mánuði í því að vera 66.000 kr. á mánuði.  Á þessum tveimur árum hækkaði markaðsverð húsnæðisins í 36 m.kr.  Þrátt fyrir 20% hækkun húsnæðisverðs, þá var fjármagnskostnaður húsnæðiseigandans að lækka um 48%.  Það er ekki metið í VNV vegna þess að gagnvart henni skiptir húsnæðisverðið eitt máli.

2.       Hagstæðari vextir í boði:  Á árunum 2003-2008 flæddu yfir markaðinn gengistryggð lán.  Þau báru mjög lága vexti.  Þó þau hafi reynst úlfur í sauðagærum, þá sýndu þau, að mjög mikil hækkun húsnæðisverðs þarf ekki að leiða til hækkunar fjármagnskostnaðar.  Reyndin varð, að fjármagnskostnaður þeirra sem nýttu sér þessi lán, lækkaði um hundruð þúsunda á ári af 10 m.kr. láni.  Gerðist þetta á sama tíma og húsnæðisverð hækkaði mikið.  Með réttri samsetningu lána var hægt að kaupa húsnæði, sem hafði þrefaldast í verði á stuttum tíma, með hagstæðari fjármagnskostnaði en verðtryggð lán buðu upp á miðað við verð fyrir hækkun.

3.       Söluverð vegur upp hluta eða alla hækkun nýs húsnæðis:  Jón og Gunna selja húsnæði á 50 m.kr. sem þau eru búin að eiga í 5 ár.  Þau keyptu það á 30 m.kr. og hafði því hækkað um 66%, sem jafnframt er meðalhækkun húsnæðis á þessu tímabili.  Þau kaupa annað húsnæði á 60 m.kr., en það kostaði 5 árum áður 35 m.kr. og hafði því hækkað um rúmlega 71%.  Þegar hækkun á eldra húsnæðinu er dregin frá hækkun á nýja húsnæðinu, þá er hækkunin til Jóns og Gunnu ekki 25 m.kr. heldur 10 m.kr. vegna þess að þau nýta söluhagnað af eldra húsnæði upp í kaupverð á hinu nýja.  Þau halda áfram að leggja uppsafnað sparnað til að lækka framtíðarkostnað af húsnæðinu.  Vísitala neysluverðs horfir hins vegar bara til þess að verð á hinu keypta húsnæði hefur hækkað, en lítur ekki til þess að hið selda húsnæði hækkaði líka.

4.      Söluhagnaður lækkar lántöku:  Fjölskylda selur eldra húsnæði, sem hún hafði átt í 15 ár.  Húsnæðið var keypta á 20 m.kr., en er selt á 60 m.kr.  Áhvílandi lán námu við sölu 25 m.kr.  Kaupandi greiddi því 35 m.kr.  Fjölskyldan kaupir annað húsnæði á 55 m.kr. (kemst af með minna húsnæði) og greiðir 35 m.kr. í peningum, en tekur yfir lán upp á 20 m.kr. á sambærilegum kjörum og þau sem voru á hinu húsnæðinu.

5.       Vextir og afborganir lána lægri en leiga:  Leigjandi sem festir kaup á húsnæði lendir oftast í því að leigugreiðslur eru mun hærri en vextir og afborganir lána og annar fastakostnaður af húsnæði í einkaeigu.  Húsnæðiskostnaður viðkomandi lækkar því heilmikið við það að breytast úr leigjanda í húsnæðiseiganda.  Vísitölu neysluverðs er nákvæmlega sama um þetta.

6.       Og öfugt: Auðvitað virkar þetta allt í hina áttina líka, þ.e. vaxtagreiðslur lána á breytilegum vöxtum geta hækkað samkvæmt skilmálum lánssamnings, seljandi gæti hafa tapað eiginfé frá kaupum til sölu og jafnvel staðið uppi með tvær hendur tómar og leigjandi gæti vissulega verið að færa sig í mun dýrara húsnæði en gamla leiguhúsnæðið og því farið í hærri greiðslubyrði eða er að fara úr eignarhúsnæði í fokdýrt leiguhúsnæði.  En vísitölu neysluverðs er jafn sama um það og hitt.  Hún horfir bara á breytingar á húsnæðisverði og reynir ekki að meta allt hitt sem er að gerast í tengslum við eignarhald á húsnæði.

Til viðbótar er síðan nauðsynlegt að skoða ástandið frá apríl 2008 til ársloka 2011 eða svo.  Langtímum sama á þessu tímabili lækkaði húsnæðisverð mjög mikið, en flestir húsnæðiseigendur höfðu ekki áður staðið frammi fyrir jafnmiklum fjármagnskostnaði (a.m.k. ekki á síðustu 20 árum fyrir 2008).  Sem sagt, þegar fjármagnskostnaðurinn var að drepa fólk, þá sagði VNV að húsnæðisliðurinn væri að draga úr hækkun verðbólgu.  Þetta eru þau verstu öfugmæli, sem til eru, og sýna best að liðurinn 042 Reiknuð húsaleiga má ekki byggja á húsnæðisverði, ef hann á í raun að endurspegla kostnað (húsleigu) húseigenda af því að búa í eigin húsnæði.  Það sem gerðist á þessum árum, var að tap var á fjárfestingunni og sparnaður að glatast, en stærri hluti en áður af ráðstöfunartekjum fóru í að greiða vexti og annan kostnað af lánum til lánveitenda.

Ég tel mig vera búinn að sýna að núverandi mæling er meingölluð. Spurningin er þá hvaða húsnæðiskostnað (þ.e. fyrir utan rekstrarkostnað húsnæðis) eigi að taka inn í mælingu á liðnum reiknuð húsaleiga.  Mín tillaga er að liðurinn ætti að innihalda eftirfarandi atriði:

·        Fjármagnskostnað vegna lána sem tekin voru við kaup á húsnæðinu (líka til að koma húsnæði í íbúðarhæft ástand sé það á byggingarstigi), notuð til að endurfjármagna eftirstöðvar þeirra lána eða tekin til að greiða viðhald (sbr. hér fyrir neðan)

·        Fasteignagjöld (mætti einfaldlega vera sérliður í vísitölunni)

·        Viðhaldskostnað sem miðar að því að viðhalda verðmæti húsnæðis

Liðir sem ekki ættu að teljast til slíks kostnaðar eru m.a.:

·        Endurbætur á húsnæði til að auka virði þess.  Það er fjárfestingarkostnaður, ekki kostnaður af notkun húsnæðisins.  (Séu endurbæturnar til að gera húsnæðið íbúðarhæft, þá falla þær undir efsta lið í talningunni að ofan.  Séu þær til að búa til garðskála, skipta út eldri innréttingu fyrir nýja, þá er verið að auka verðmæti fjárfestingarinnar.)

·        Verð húsnæðis

·        Afborganir lána.  Afborgunin sjálf er til að lækka skuldsetningu fjárfestingarinnar og (vonandi) auka sparnaðinn sem eigandinn á í húsnæðinu.  Því má líta á greiðslu afborgunarinnar sem greiðslu inn á sparnaðarreikning með óvissa ávöxtun.

·        Breyting eiginfjár í húsnæði vegna verðbreytinga á húsnæðinu.  Þetta er bara pappírshagnaður og verður ekki innleystur nema með sölu.

·        Eigið fé í húsnæðinu. Það er bara sparnaður.  Að líta á eigið fé sem bundið er í húsnæði, sem fé sem væri hægt að ávaxta betur annars staðar og því eigi að reikna þá töpuðu ávöxtu til húsnæðiskostnaðar, stenst ekki skoðun.  Þá geta menn alveg eins litið á föt með þessum augum, húsgögn og að ég tali nú ekki um bíla eða fé á sparnaðarreikningi.  Eigið fé er sparnaður sem ávaxtast eftir vindum á fasteignamarkaði og hve ört verðbætur leggjast á eftirstöðvar lána.

·        Söluhagnaður eða sölutap.  Hvorutveggja snýr að fjárfestingarhluta eignarhaldsins.  Söluhagnaður dregur úr þörf fyrir lántöku, meðan sölutap eykur hana.  Hvorutveggja mælist því í fjármagnskostnaði næstu eignar.

·        Lán sem eign er veðsett fyrir, en kemur öflun hennar ekki við.  Með slíkri lántöku er einfaldlega verið að taka út hagnað af fjárfestingunni.

Það verður ekki hlaupið að því að finna út breytingu á reiknaðri húsaleigu miðað við þessar forsendur.  Kannski er það ástæðan fyrir því, að erlendir seðlabankar taka hana ekki inn í verðbólguútreikninga sína.  Sænski seðlabankinn notar meira að segja tvær aðferðir, þegar hann reynir að áætla húsnæðisliðinn, sem hann gerir í gegn um fjármagnskostnað.  Hann notar annars vegar breytingu á fjármagnskostnaði miðað við fasta vexti og hins vegar miðað við bæði breytilega vexti og fasta.  Hvernig hann notar þessar tvær mælingar til að ákvarða vexti sína, þekki ég svo ekki.

 

Af trúverðugleika peningastefnu Seðlabanka Íslands

Í gær 6. mars var haldin málstofa hjá Seðlabankanum um hjöðnun verðbólgu og aukinn trúverðugleika peningastefnu bankans.  Það er eitt og sér dásamleg tímasetning að halda svona málstofu, þegar verðbólgan er í fyrsta sinn í mörg ár að nálgast verðbólgumarkmiðin, en ekki þegar hún var langt fyrir neðan markmiðin, en látum það liggja á milli hluta.

Á málstofunni hélt Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, erindi sem fjallað er um í frétt RÚV Aukinn trúverðugleiki peningastefnunnar.  RÚV vitnar í eftirfarandi orð Þórarins:

„Það hefur skort trúverðugleika mjög lengi, enda kannski ekki óeðlilegt þegar verðbólga er búin að vera að meðaltali fimm prósent frá 2000, að almenningur efist að einhverju leyti um getu okkar til að gera þetta.  Það hefur breyst að einhverju leyti á undanförnum árum og það er mikilvæg skýring í að skýra af hverju verðbólgan hefur hjaðnað..“

Þetta er síðan tekið saman í "að skortur trúverðugleika meðal almennings og fyrirtækja á 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans, skýri að miklu leyti litla verðbólgu á síðustu árum".

Þegar ég les svona, þá veit ég hvort ég eigi að hlæja eða gráta.  Ég hef í sjálfu sér ekki séð neinn skort á því, að fólk trúi að Seðlabankinn geti haldið verðbólgunni lágri.  Nú er aðalhagfræðingurinn eitthvað að misskilja gagnrýnina.  Gagnrýnin hefur gengið út á, að stýrivextir hafi verið of háir og því keyrt verðbólguna lengra niður en verðbólgumarkmið segja til um.  Að árangurinn af peningastefnunni hafi í langan tíma verið allt annar en Seðlabankinn heldur fram við vaxtaákvarðanir og birt er í Peningamálum.  Meðfylgjandi myndrit sýnir þennan mun.  Myndritið er kannski ekki mjög læsilegt, en eina sem þarf að skoða er munurinn á breiðu línunni (raunveruleg verðbólga) og mjóu línunum.  Mjóu línurnar byrja alltaf í breiðu línunni (enda er byrjunarpunkturinn raunveruleg verðbólga) og síðan stefna þær alltaf (nema einu sinni) upp á við.

Verðbólga vs spár SÍ mars 2018.jpg

Svo er Seðlabankinn að tala um skort á trúverðugleika á peningastefnunni hjá almenningi og fyrirtækjum.  Hvað á að segja um þetta?

Í töflunni sést hvernig annars vegar stýrivextir og hins vegar meginvextir (frá maí 2014) breyttust (notaðir meðalvextir hvers ársfjórðungs) á tímabilinu frá 4. ársfjórðungi 2013 fram til ársloka 2017.  Munurinn á stýrivöxtum og meginvöxtum, er að stýrivextir eru útlánsvextir, en meginvextir eru innlánsvextir.  Vaxtamunur á stýrivöxtum og meginvöxtum er 0,75%.

Vextirnir eru í prósentum.

Vextirnir eru í prósentum.

Þegar verðbólguspár Seðlabankans eru bornar saman við annars vegar raunveruleikann og hins vegar vexti bankans, þá er eins og bankinn hafi enga trú á annars vegar raunveruleikanum og hins vegar virkni vaxtastefnu sinnar.  Skoðum tvö dæmi:

4. ársfjórðungur 2014:  Á fjórða ársfjórðungi 2014 eru vextir lækkaðir um 0,25 punkta úr annars vegar 6,00% í 5,75% fyrir stýrivextina og hins vegar 5,25% í 5,00% fyrir meginvextina.  Er það líklegast gert í ljósi þess að verðbólga hafði minnkað, en þrátt fyrir að Seðlabankinn taldi að verðbólgan myndi fara hækkandi á næstu mánuðum og myndi toppa í 3,3% ári seinna.  Seðlabankinn áttar sig á því, að lægri vextir hemja verðbólguna verr, en lækkar vextina samt.  Reyndin var að verðbólgan á 4. ársfjórðungi 2015 reyndist vera 1,9% og munar því 140 punktum (eða 42%) á spá bankans og því sem varð.  Lækkun vaxtanna á 4. ársfjórðungi 2014 hafði því þveröfug áhrif á verðbólguþróun en Seðlabankinn gerði ráð fyrir.  Hafi Seðlabankinn gert ráð fyrir 3,3% verðbólgu, en hún varð 1,9%, þá er ljóst að vaxtaákvörðun bankans var röng.  Enn frekar gerði bankinn ráð fyrir að verðbólgan yrði hærri allt spátímabil sitt (sem er 3 ár), en verðbólgan varð í raunveruleikanum.  Var frávik bankans frá 40 punktum (spáin var 1,7% en reyndin 1,3%) á þessum sama ársfjórðungi upp í 150 punkta tvisvar (annars vegar spá upp á 3,1% meðan reyndin var 1,6% og hins vegar spá upp á 2,8% og 1,3% í reynd á 2. og 3. ársfjórðungi 2016).

3. ársfjórðungur 2015:  10. júní 2015 ákveður Seðlabankinn að hækka vexti sína um 50 punkta, úr annars vegar 4,50% í 5,00% fyrir meginvextina og úr 5,25% í 5,75% fyrir stýrivextina.  Bankinn endurtekur leikinn 19. ágúst, þannig að eftir þá hækkun eru meginvextirnir orðnir 5,50% og stýrivextirnir 6,25%.  Þetta var gert, samkvæmt skýringu Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings SÍ, til að taka launahækkanir af almennu launafólki!  Málið er hins vegar að verðbólguspár bankans gerðu ekki ráð fyrir að áhrifin af þessum vaxtahækkunum yrðu neitt jákvæð til skamms tíma.  Þannig gerði bankinn ráð fyrir að verðbólgan yrði á bilinu 3,0-4,4% á spátímabilinu (dökkfjólubláa línan á myndritinu að ofan, sleppi spá fyrir 3. ársfjórðung 2015 í þessum tölum).  Reyndin varð hins vegar að verðbólgan varð 1,3-1,9% (fyrir þá ársfjórðunga sem eru liðnir). 

Jafnvel eftir að Seðlabankinn er búinn að hafa vexti sína talsvert háa í langan tíma, þá hafa sérfræðingarbankans (eða eru það reiknilíkön) ekki trú á því að þeir slái á verðbólgu.  Það er eins og spálíkönin séu byggð á Turing-vél, þ.e. fortíðin skipti engu máli, bara framtíðin.  Eins og myndritið sýnir, þá gerir verðbólguspálíkanið alltaf ráð fyrir (sama hvert vaxtastigið er eða hefur verið) að verðbólgan hækki.  Að meginvextirnir hafi verið 5,50% og 5,75% í nánast 9 mánuði, þegar Peningamál 2016/2 eru gefin út í maí 2016 breytir því ekki, að verðbólguspákúrfan lítur eins út.  Verðbólgan fer vissulega aðeins hægar upp, en svo er eins og vextirnir hætti að bíta og á 4. ársfjórðungi 2017 á verðbólgan að vera komin í 4,6%.  Af hverju bíta sömu vextir á annan hátt, ef spáin byrjar 3 mánuðum síðar?  Vantar að setja það sem forsendu inn í verðbólguspálíkanið, að vextirnir voru hækkaðir í júní og ágúst 2015 um alls 100 punkta og sú hækkun átti að fara að bíta á verðbólguna nokkrum ársfjórðungum síðar?

Ég verð bara að viðurkenna, að annað eins arfarugl hef ég ekki séð.  Og svo voga seðlabankastjóri og aðalhagfræðingur að segja, að almenningur og fyrirtæki hafi ekki trú á peningastefnu bankans, þegar það er bankinn sjálfur sem ekki hefur trú á peningastefnunni.  Að verðbólgan hafi haldist undir 2,0% á hverjum einasta ársfjórðungi síðan á 4. ársfjórðungi 2014, þrátt fyrir að verðbólguspár Seðlabankans sjálfs búist við allt öðru, ber glöggt vitni um að Seðlabankinn hafði ekki trú á peningastefnu sinni.  Það sem meira er, að bankinn var að ná árangri með peningastefnu sinni á fölskum forsendum.  Hann hélt vöxtunum, þar sem þeir voru, í þeirri von um að bankinn missti verðbólguna ekki úr böndunum.  Á 1. ársfjórðungi 2014 voru stýrivextir ákveðnir 6,00% í þeirri von að verðbólgan 3. ársfjórðungi 2015 yrði ekki hærri en 3,60%.  Hún varð hins vegar 1,98%.  Á 2. ársfjórðungi 2016 ákvað Seðlabankinn að halda meginvöxtum í 5,75% og stýrivöxtum í 6,50% í þeirri von að verðbólga á 4. ársfjórðungi 2017 færi ekki upp fyrir 4,6%.  Verðbólgan reyndist vera 1,82%!

Í lokin vil ég reyna að svara nokkrum spurningum:

 1. Náði Seðlabankinn árangri með peningastefnu sinni?  Til þess að geta svarað því verðum við að vita fyrst hvaða árangri bankinn ætlaði að ná.  Eins og ég hef bent á, þá hefur verðbólgan haldist lág undanfarin ár.  Ég efast ekki um, að þetta gerðist að hluta til vegna peningastefnu Seðlabankans, en þetta er EKKI sá árangur, sem Seðlabankinn setti fram í riti sínu Peningamálum frá ritinu 2013/3 fram til 2016/3 að hann ætlaði að ná.  Það er ekki komin næg reynsla á hvort markmiðin í ritunum frá 2016/4 til 2018/1 náist.
 2. Hefðu verðbólgumarkmið náðst með annarri peningastefnu (lægri vöxtum)?  Já, ég tel það vera næsta öruggt.  Ef það er markmið Seðlabankans að halda verðbólgunni í kringum 2,50% og verðbólgan hefur samfellt verið undir því markmiði frá því í febrúar 2014 og á hverjum einasta ársfjórðungi síðan þeim fyrsta árið 2013, þrátt fyrir væntingar Seðlabankans um hærri verðbólgu, já, þá hefði verið hægt að ná verðbólgumarkmiðunum með lægri meginvöxtum og stýrivöxtum.  Peningastefnan var röng miðað við hvernig verðbólgan þróaðist.  Vextirnir voru of háir.  Hvort lægri vextir hefðu orsakað að verðbólguspáin hefði ræst er síðan annað mál.
 3. Hafði Seðlabankinn trú á peningastefnu sinni?  Miðað við það sem ég hef dregið fram að ofan, þá er EKKERT sem styður það, að Seðlabankinn hafi haft trú á peningastefnu sinni.  Hann treysti ekki að spár fortíðarinnar gætu ræst í framtíðinni.  Hann spáði  ítrekað verðbólguþróun sem var ekki í neinum takti við veruleikann.  Hann gerði undantekningarlítið ráð fyrir að sama hvernig hann stillti vextina, þá byrjaði hann alltaf á því að missa tökin á verðbólgunni og hún hækkaði um allt að 290 punkta (úr 1,5% í 4,4%) áður en vöxtunum tækist á einhver undraverðan hátt að lækka hana aftur niður í átt að verðbólgumarkmiðunum.  Aðeins einu sinni á því tímabili sem ég skoða, þá spáir bankinn lækkun verðbólgu meira en eitt tímabil fram í tímann (Peningamál 2015/1).  Það er jafnframt sú spá sem kemst næst raunverulegri verðbólgu yfir það sem liðið er spátímabilsins.
 4. Höfðu almenningur og fyrirtæki trú á peningastefnu Seðlabankans?  Seðlabankinn segist horfa til verðbólguvæntinga almennings og fyrirtækja, þegar hann metur árangur af peningastefnu sinni.  Málið er að þessar væntingar almennings og fyrirtækja hafa haldist í hendur við verðbólguspár bankans.  Hvaða aðra forsendu eiga þessir aðilar að gefa sér?  Það eru ekki allir, eins og ég, sem er að skoða þessa hluti sem sérstakt áhugamál.  Þannig voru væntingar almennings og fyrirtækja um háa verðbólgu, þegar Seðlabankinn taldi það vera þróunina og þegar Seðlabankinn ákvað frá og með Peningamálum 2016/4 að lækka verðbólguvæntingar sínar, þá náttúrulega gerðist kraftaverkið og verðbólguvæntingar almennings og fyrirtækja fóru að nálgast verðbólgumarkmið bankans.  Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds að heyra svona, þ.e. að peningastefnan hljóti vera rétt fyrst væntingar almennings og fyrirtækja eru farnar að nálgast verðbólgumarkmiðin. 
 5. Eru vextir Seðlabankans réttir? Líklegast eru vextir Seðlabankans réttir um þessar mundir eða nálægt því að vera réttir miðað við verðbólgumarkmið í fyrsta sinn síðan 2013.  Í millitíðinni hafa þeir verið of háir og er það mat einfaldlega byggt á því, að verðbólgan hefur verið allt að 169 punktum undir verðbólgumarkmiðum (verðbólga fór lægst í 0,81% í desember 2014 og febrúar 2015).  Ástæðan fyrir því að þeir eru líklegast réttir núna, er hins vegar eitt frávik í verðbólgumælingu sem ekki færst skýrt.  Það er þessi óvænta og furðulega hækkun á verði húsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins, sem kom fram í verðbólgumælingum Hagstofunnar í janúar.  Ef þetta frávik hefði ekki komið til, þá væru vextirnir líklega um 50 punktum of háir.  Þetta frávik mun hafa áhrif á verðbólgumælingar þar til mæling kemur vegna janúar 2019.  Þá mun líklega koma 50 punkta fall í verðbólguna.
 6. Hefur verðbólgan hjaðnað vegna þess að almenningur hefur trú á virkni peningastefnunnar?  Þórarinn nánast fullyrðir þetta, samkvæmt frétt RÚV.  Með fullri virðingu, hvernig er hægt að setja út úr sér annað eins kjaftæði?  Tiltrú almennings á peningastefnuna kemur verðbólgunni ekkert við.  Verðbólgan lækkaði frá miðju ári 2012 og fór úr 6,44% í 2,15% á innan við tveimur árum.  Skýringin var fyrst og fremst um 10% styrking krónunnar, lækkun skulda heimilanna og fyrirtækja og það varð hugarfarsbreyting hjá atvinnulífinu að leita frekar hagræðingar en að láta hækkanir fara beint út í verðlagið.  Frá febrúar 2014 þá hefur verðbólgan verið lág líklegast vegna þess að lág verðbólga getur af sér lága verðbólgu.  Meðan verðbólga er lág, þá er ekki þörf á öllum þessum kostnaðarhækkunum sem koma í hærri verðbólgu.  Síðan hefur gengið haldið áfram að styrkjast um 15%, ef ekki meira, ofan á þessi 10%.  Þessi styrking gengisins hefur tvær birtingarmyndir gagnvart almenningi.  Hann gerir kröfu um að vöruverð lækki og lækki það ekki, þá fer fólk á netið.  Þetta kemur vissulega peningastefnunni við, þar sem styrking gengisins er m.a. vegna hennar, en að almenningur horfi til peningastefnunnar og hugsi með sér:  "Best að versla á netinu vegna þess hve peningastefnan er traust" er jafn fáránlegt og það hljómar.  En hvað veit ég.  Ég bý í Danmörku við trausta og örugga peningamálastjórn sem stuðlar að lágri verðbólgu, góðum lánskjörum og að það sé afgangur af tekjunum í hverjum mánuði.

Ég hef fylgst talsvert náið með peningamálastjórnun Seðlabankans síðustu tæp 11 ár, fyrir utan að í bókinni minni Á asnaeyrum, þá skoða ég framgang peningastefnunnar frá 2001 fram að hruni.  Yfirleitt hef ég verið mjög gagnrýnin á stefnuna, en fyrst og fremst á rökstuðning Seðlabankans.  Mér finnst sem ansi oft séu rökin röng og þau tengi ekki við veruleikann. 

Næstu mánuðir verða ákveðin prófraun fyrir Seðlabankann og Peningastefnunefndina.  Í hönd er líklegast nokkur hækkun verðbólgunnar og hætt er á að hún fari yfir verðbólgumarkmiðin.  Ástæðan er fyrst og fremst þessi furðulega hækkun húsnæðisverðs utan höfuðborgarsvæðisins sem kom fram í janúar tölum Hagstofunnar.  Seðlabankinn þarf að halda að sér höndum varðandi hækkun vaxta, vegna þess að sama hvað menn reyna, þá hafa vextirnir ekki áhrif á verðbólgu að baki.  Þessir 50 punktar, sem bættust aukalega á vísitölu neysluverðs í janúar, fara ekkert þó vextir hækki um 50 punkta.  Því miður er það reynslan, að Seðlabankinn hefur ansi oft verið að kljást við fortíðarverðbólgu og verðbólgufrávik.  Það er eins og menn skilji ekki, að þessi frávik ganga út á 12 mánuðum.  Þannig var það með 1,0% hækkun vísitölu neysluverðs milli febrúar og mars árið 2015.  Þetta var fráviksmæling sem datt niður í 0,37% ári seinna.  Í nóvember 2014 hafði orðið önnur svona fráviksmæling í þetta sinn í hina áttina.  Það var því fyrirséð í nóvember 2015 að það kæmi stökk í verðbólguna, en það var ekki vegna þess sem gerðist í framtíðinni, heldur var um leiðréttingu á fortíðinni að ræða.  Ég vona að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands átti sig á því, að henni er ekki ætlað að taka á frávikum heldur þróun.  Þróunin er að verðbólgan verður í kringum verðbólgumarkmið næstu mánuði og síðan kemur leiðrétting til lækkunar í janúar 2019.  Haldist gengið stöðugt og húsnæðisverðshækkanir haldist svipaðar og þær hafa verið undanfarin 2-3 ár, þá vil ég gerast svo djarfur að spá því að verðbólga haldist á milli 1,5-2,5% a.m.k. til ársloka 2019.  Mestan tíma undir 2,0% og aðeins einu sinni yfir 2,5%.  Á þessu ári fari hún lægst í 1,9% og hæst í 2,7%, en á næsta ári verði hún á vel undir 2,0% fyrstu níu mánuði ársins en dansi í kringum 2,0% síðustu þrjá.  Ég hef gert svona verðbólguspár síðustu 7 ár og hefur alltaf munað minna á þeir spá sem ég geri og síðan raunverulegri verðbólgu, en þeirri spá sem Seðlabankinn birtir og síðan verðbólgunni.