Mistri blásið í burtu

Mánudaginn 13. nóvember birti Vísir grein eftir Ásgeir Daníelsson, sem kallar sig eftirlaunaþega sem starfaði áður hjá Seðlabanka Íslands og þar áður hjá Þjóðhagsstofnun, undir fyrirsögninni Fram og aftur í verðbólgumistri.  Þar birtir hann svo sem bara það sem hann hefur haldið fram í talsvert langan tíma, að verðtrygging sé nauðsynleg svo lánveitendur fái raunvirði peninganna sinna til baka.

Launahækkanir eru vegna verðbólgu að baki

Eitt og annað er hægt að segja um fullyrðingar sem birtast í grein Ásgeri og er nokkuð ljóst, að ekki verður tekið undir allt sem þar kemur fram.  Fyrsta er að rugla saman launahækkunum og kaupmætti, þ.e. að launahækkanir eigi að tryggja framvirka vernd kaupmáttar.  Það er hins vegar sjaldnast þannig.  Launahækkanir eru nánast undantekningarlaust til að vinna upp tapaðan kaupmátt og síðan er það von launþegahreyfinga að ekki þurfi að sækja eins mikla hækkun launa í næstu samningum til að ná sama kaupmætti og tapast hefur milli samninga.  Handvalið tímabil frá febrúar 2022 til febrúar 2023 er notað til að sýna fram á hve kaupmáttur hafði tapast.  Þar sem fyrstu nýju kjarasamningarnir í síðustu lotu voru gerðir í lok nóvember 2022, ætti rétt samanburðartímabil ekki að ná lengra en til desember 2022.  Verðhækkanir frá gerð kjarasamninga er skerðing kaupmáttar, sem næstu kjarasamningar fjalla um.

Vísitala neysluverðs er ekki mælikvarði á rýrnun peninga

Næsta atriði er þetta með raunvirði peninga.  Hvers vegna ætti vísitala neysluverðs að vera mælikvarði á verðgildi peninga?  Sé gengi USD og EUR skoðað frá desember 2021 til desember 2022, þá var verðbólga USD 9,4% sé miðað við meðalgengi mánaðar og verðbólga EUR var 2,5%.  Sé hins vegar gengisvísitala (vísitala meðalgengis – viðskiptavog þröng) skoðuð, þá hækkaði hún um 2,6%.  Allt tölur fengnar af vef Seðlabanka Íslands.  Með fullri virðingu fyrir verðtryggingarblætinu, þá gefur gengisvísitala mun betri mynd af verðrýrnun peninga, en vísitala neysluverðs sem nær rétt til þriðjungs af veltu hagkerfisins.  Annað viðmið gæti verið þróun verðbréfa, vextir lána eða þróun viðskiptajafnaðar.  Kannski yrði ekki allt þetta hagstætt í hinu verðtryggða þjóðfélagi.  Vissulega er mjög útbreitt í alþjóðahagkerfinu að nota vísitölu neysluverðs, en þá er alveg lágmark að nota samanburðarhæfa vísitölu.

Ásta Lóa Þórsdóttir, þingkona Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fá skot í greininni, vegna greinar þar sem þau krefjast uppsagnar seðlabankastjóra.  Það er gert með handvöldum dæmum og ítrekaðri notkun orðsins „raunvextir“.  Líklegast til að leggja áherslu á hve þau eru úti á túni í grein sinni.  Til að skýra út mikilvægi „raunvaxta“ fylgir myndrit með þróun þeirra síðustu 6 ár, þ.e. 2018-2023.  (Myndritið er pínu ruglingslegt og réttara hefði verið að nota meðalgildi ára, en ekki spár um lokagildi.)  Til fróðleiks, þá hefur vísitala neysluverðs hækkað um 35,4% á sama tíma, gengi USD um 35,9%, gengi EUR um 21,6% og gengisvísitalan um 23,3%.  Því er líklegt, að meint raunvirði peninga hafi lækkað um eitthvað gildi á milli 21,6% og 35,9%, en alveg örugglega vel innan við 35,4%.

Áhyggjur af „raunvirði“ höfuðstóls er séríslenskt

Þá er það „raunvirði“ höfuðstóls neytendalána.  Í frekar fáum löndum í heiminum, velta lánveitendur þessu fyrir sér.  (Sambærileg verðtrygging og er á Íslandi er notuð að takmörkuðu leyti í Ísrael, en í Chile er gjörólíkt kerfi.) Taki maður t.d. húsnæðislán í Noregi, Svíþjóð, Danmörku eða Þýskalandi, þá í fyrsta lagi vita almennir bankastarfsmenn líklegast ekki hvað er átt við með raunvirði höfuðstóls.  Í öðru lagi, reikna bankar með því, að hann lækki ár frá ári sem hlutfall af tekjum.  Þ.e. tapi meintu raunvirði sínu.  Þar er ekki verið að skoða hvort lánþeginn hafi „grætt“ á verðbólgu eða bankinn „tapað“.  Í sumum löndum er meira það segja þannig, að lánþegi getur tekið langtímalán með föstum lágum vöxtum.  Ekki er langt síðan að hægt var að fá slík lán með innan við 2% vöxtum í Danmörku til 30 ára.  Höfundur hefur ekki heyrt af neinum dönskum bankastjóra, hvað þá seðlabankastjóra þeirra Dana, kvarta yfir því að lánþegar séu að græða vegna þess að verðbólgan jókst í nokkra mánuði.  Í siðmenntuðum löndum er verðbólga einmitt notuð til að lagfæra skuldastöðu heimilanna, en ekki gera hana verri, eins og á Íslandi.  Kannski sá dagur komi á Íslandi að menn átti sig á þessu, en sá dagur er ólíklega á þessu ári.

Full höfuðstólsendurgreiðsla, en lægri vextir

Gagnrýni Ástu Lóu og Ragnars Þórs hefur beinst að verðbótum lána og vaxtastigi.  Þar sem oft er spurt hvort einhver láni án þess að fá „raunvirði“ höfuðstólsins til baka, þá ákvað höfundur að skoða hvaða áhrif takmarkanir á verðbótum, sem leggjast á verðtryggð lán, hefðu á greiðslur lánanna.  Útreikningar miða við að lánið hafi verið tekið í febrúar 1995 til að fá nógu langa greiðslusögu yfir sveiflukennda verðbólgutíma.  Það var látið vera með 4,2% verðtryggðum vöxtum (algengir vextir á þeim tíma voru 5,1-5,6%).  Verðbólga eftir að mældum gildum lýkur, er hluti af sviðsmyndum. 

Sviðsmyndirnar, sem skoðaðar voru, eru:

·        Lán án takmarkana á verðbótum

·        Sett er 4% þak á verðbætur, þ.e. hámark verðbóta er 4%

·        Sett er 4% þak og 0% gólf á verðbætur, þ.e. hámark verðbóta er 4% og lágmark 0%

·        Verðbætur umfram 4% lækka um helming, þ.e. aðeins helmingur verðbóta umfram 4% er lagður á lán

·        Verðbætur umfram 4% og undir 0% lækka um helming, þ.e. aðeins helmingur verðbóta umfram 4% er lagður á lán og á verðhjöðnunartíma lækka eftirstöðvar um helming þess sem annars ætti að vera

Þetta var síðan reiknað út miðað við að verðbólga, þar sem eftir lifir lánstímans sé föst 2,5%, 3,5% og 4,5%.  Þ.e. í allt 15 dæmi reiknuð út og fyrir hvert heildarendurgreiðsla höfuðstóls með verðbótum, heildargreiðsla verðbættra vaxta og loks samtala beggja.

Telji einhver að tímabil sé handvalin til að fá æskilega útkomu, þá voru þau eingöngu valinn með þessum hætti, þar sem 12 ára gamalt reiknilíkan, sem notað var, var stillt með febrúar 1995 sem byrjunardagsetningu.  Vilji einhver skoða önnur tímabili, þá er sjálfsagt að verða við slíkum beiðnum.  Lítið mál er að gera alls konar næmnisgreiningar á fjárhæðum, vöxtum, lengd lánstíma, þakinu eða gólfinu á verðbótum og verðbólgu til framtíðar.

Dæmi 1: 2,5% verðbólga eftir að mældum gildum lýkur

10 milljón kr. lán til 40 ára, 4,2% vextir, tekið í febrúar 1995, mæld verðbólga frá lántöku degi til október 2023, látinn lækka í skrefum út næsta ár og 2,5% verðbólga eftir það

Dæmi 2: 3,5% verðbólga eftir að mældum gildum lýkur

10 milljón kr. lán til 40 ára, 4,2% vextir, tekið í febrúar 1995, mæld verðbólga frá lántöku degi til október 2023, látinn lækka í skrefum út næsta ár og 3,5% verðbólga eftir það

Dæmi 3: 4,5% verðbólga eftir að mældum gildum lýkur

10 milljón kr. lán til 40 ára, 4,2% vextir, tekið í febrúar 1995, mæld verðbólga frá lántöku degi til október 2023, látinn lækka í skrefum út næsta ár og 4,5% verðbólga eftir það

Í öllum sviðsmyndum lækkar heildargreiðsla og í öllum tilfellum er heildargreiðsla mun hærri en samtala verðtryggðra endurgreiðslna af upphaflega höfuðstólnum.  Allt tal um að lánveitur fái ekki „raunvirði“ upphaflega höfuðstólsins til baka er því einfaldlega bábilja.  Þegar kemur að heildarendurgreiðslunni, þá skiptir engu máli hvort hún flokkast sem vextir eða afborgun höfuðstóls.  Þess fyrir utan eru verðbætur ekkert annað en vextir.  Eina sem gerist, í mismiklu mæli, er að vaxtatekjur lánveitanda af lánunum lækka, en þeir halda enn „raunvöxtum“ miðað við þá forsendu um vexti sem notuð er.

Þak á verðbætur hefur engin áhrif í undir 4% verðbólgu

Hagsmunasamtök heimilanna settu árið 2009 fram þá kröfu, að sett yrði þak á verðbætur.  Samtökin sáu fyrir sér, að slíkt þak myndi stuðla að meiri stöðugleika, því það yrði hagur bankanna að halda aftur af verðbólgu.  Staðreyndin er nefnilega, að peningamyndun bankanna í formi nýrra útlána er það eldsneyti sem nærir verðbólgubálið mest.  Aukning nýrra útlána, án sambærilegrar uppgreiðslu eldri lána, eykur peningamagn í umferð sem síðan skilar sér í aukinni verðbólgu.  Væri sett þak á verðbætur, þá myndi það vonandi verða til þess, að bankarnir sjái hag sinn í að hafa meiri stjórn á nýjum útlánum.  Nú sé verðbólgan alltaf undir 4%, þá þarf ekki að gefa eftir neinar verðbætur.

Afglöp Hæstaréttar

Í dag eru 13 ár frá því að Hæstiréttur ákvað að brjóta gegn stjórnarskránni og evrópskum neytendarétti í dómi 471/2010 um vexti áður gengistryggðra lána. Samkvæmt lið 1 í 6. grein tilskipunar 93/13/EBE, sem leidd var í lög á Íslandi með lögum nr. 14/1995, þá segir m.a. eins og textinn var innleiddur í 36.gr. c í lögum 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga:

"Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans."

Hæstiréttur ákvað að líta skyldi á, að áður gengistryggð lán bæru ekki vexti, þrátt að þau bæru sannanlega vexti, dæmdi gegn ófrávíkjanlegri grein vaxtalaga nr. 38/2001 og notaði grein sem átti að verja neytendur gegn ofteknum vöxtum til að réttlæta notkun vaxta sem enginn lagastuðningur var fyrir.

Tveimur árum síðar gaf Dómstóll Evrópusambandsins (CJEU) frá sér álit í ekki ósvipuðu máli, C-618/10. Þar hafði landsdómstóll ákveðið að víkja til hliðar ósanngjörnum skilmála um 29% dráttarvexti, en dæma í staðinn að dráttarvextirnir ættu að vera 19% með tilvísun til opinberra dráttarvaxta sem ákveðnir voru af seðlabanka Spánar. Niðurstaða CJEU var frekar einföld og má segja að megininntak hennar hafi verið:

"Ef landsréttur hefði leyfi til að setja sína eigin skilmála inn í samning milli neytanda og seljanda eða birgja, þá þýddi það einfaldlega að seljandinn/birginn myndu setja ósanngjarna skilmála í samninga við neytendur og það versta sem gerðist væri að dómstóll skipti þeim skilmálum út fyrir „sanngjarna“. Neytendaverndarlöggjöfin kæmi í veg fyrir slíkt og því ætti ósanngjarn skilmáli að falla alfarið niður."

Í þessu tilfelli setti landsrétturinn inn opinbera dráttarvexti, þannig að þeir voru í sjálfu sér ekki ákveðnir af dómstólnum. Hins vegar var skýrt í spænskum lögum réttur kröfuhafa til dráttarvaxta. CJEU sagði samt að þetta væri óleyfilegt og samningurinn ætti að standa án hins ósanngjarnaskilmála, enda væri hægt að efna samninginn án hans.

Hæstiréttur Íslands tók þveröfuga stefnu. Í fyrsta lagi, var ekkert því til fyrirstöðu að efna áður gengistryggða lánssamninga án ákvæðis um gengistryggingu, en með þeim vöxtum sem ákveðnir voru. Í öðru lagi, ákvað rétturinn leggja mun hærri vexti á lánin í stað hinna lágu vaxta sem á þeim voru. En hann lét ekki staðar numið það, heldur ákvað að endurreikna ætti þegar greidda gjalddaga og lántaki gat verið í skuld vegna þeirra. Í þriðja lagi, ákvað Hæstiréttur að hunsa ófrávíkjanlegar greinar vaxtalaga, þar sem m.a. er talað um betri rétt neytenda. Í fjórða lagi, þá ákvað rétturinn að túlka dómskröfur stefnanda út frá það sem honum fannst sanngjarnt, en ekki eftir því sem lögin sögðu. Réttinum fannst nefnilega ekki sanngjarnt að vextir lánsins sem umræddi væru áfram á láninu.

Verst af þessum ákvörðunum réttarins, var að ákveða að afturvirkni gæti verið kostur. Þannig var, að aðalkrafa stefnanda og fjórar varakröfur fólu allar í sér að taka ætti upp þegar greidda gjalddaga og skuldari gæti verið í skuld vegna þeirra. Þetta brýtur gegn stjórnarskránni og eins og Hæstiréttur komst að í máli 600/2011, þá verður rangur lagaskilningur bara leiðréttur til framtíðar. Þar með hefði rétturinn í máli 471/2010 átt að víkja til hliðar öllum framgreindum kröfum stefnanda og láta fimmtu varakröfu hans standa, sem var að vextir lánsins héldust eins og þeir voru tilgreindir í lánssamningnum.

En þetta voru samt ekki stærstu mistök Hæstaréttar varðandi vexti áður gengistryggðra lána. Þau voru að láta dóm 471/2010 verða fordæmisgefnandi fyrir öll áður gengistryggð lán. Svo merkilegt sem það er, þá var skilningur Hæstaréttar á áhrifum þess dóms á lánin ákaflega takmarkaður. Rétturinn fattaði ekki, að hann var almennt að hækka skuldir lántaka mjög mikið með þeirri ákvörðun. Það var undantekning, að lántaki endaði með lægri skuld, þegar áhrifum dóms 471/2010 hafði verið beitt á lán. Hæstiréttur gekk því gegn grundvallarreglum neytendaréttar og gerði nákvæmlega, það sem EJCU varaði við um 18 mánuðum síðar. Hann dæmdi lögbrjót í betri stöðu eftir lögbrot, en hann var í áður en dómurinn var kveðinn upp.

Segja má, að 16. september 2010 hafi Hæstiréttur skitið í buxurnar (eins og dómur 600/2011 sannar) og hann hélt því áfram í hvert sinn sem hann taldi dóm 471/2010 fela í sér réttlæti til handa skuldurum. Eitt er alveg víst, að ekkert fjármálafyrirtæki fór með hallan hlut í málarekstri við almenning, enda nutu þau verndar Hæstaréttar!

Hér er síðan tengill á uppfærðan fyrri hluta 4. kafla í bókinni minni Á asnaeyrum - Hluti II: Gengitryggðu lánin. Kaflinn heitir Vaxtadómurinn