Afglöp Hæstaréttar

Í dag eru 13 ár frá því að Hæstiréttur ákvað að brjóta gegn stjórnarskránni og evrópskum neytendarétti í dómi 471/2010 um vexti áður gengistryggðra lána. Samkvæmt lið 1 í 6. grein tilskipunar 93/13/EBE, sem leidd var í lög á Íslandi með lögum nr. 14/1995, þá segir m.a. eins og textinn var innleiddur í 36.gr. c í lögum 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga:

"Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans."

Hæstiréttur ákvað að líta skyldi á, að áður gengistryggð lán bæru ekki vexti, þrátt að þau bæru sannanlega vexti, dæmdi gegn ófrávíkjanlegri grein vaxtalaga nr. 38/2001 og notaði grein sem átti að verja neytendur gegn ofteknum vöxtum til að réttlæta notkun vaxta sem enginn lagastuðningur var fyrir.

Tveimur árum síðar gaf Dómstóll Evrópusambandsins (CJEU) frá sér álit í ekki ósvipuðu máli, C-618/10. Þar hafði landsdómstóll ákveðið að víkja til hliðar ósanngjörnum skilmála um 29% dráttarvexti, en dæma í staðinn að dráttarvextirnir ættu að vera 19% með tilvísun til opinberra dráttarvaxta sem ákveðnir voru af seðlabanka Spánar. Niðurstaða CJEU var frekar einföld og má segja að megininntak hennar hafi verið:

"Ef landsréttur hefði leyfi til að setja sína eigin skilmála inn í samning milli neytanda og seljanda eða birgja, þá þýddi það einfaldlega að seljandinn/birginn myndu setja ósanngjarna skilmála í samninga við neytendur og það versta sem gerðist væri að dómstóll skipti þeim skilmálum út fyrir „sanngjarna“. Neytendaverndarlöggjöfin kæmi í veg fyrir slíkt og því ætti ósanngjarn skilmáli að falla alfarið niður."

Í þessu tilfelli setti landsrétturinn inn opinbera dráttarvexti, þannig að þeir voru í sjálfu sér ekki ákveðnir af dómstólnum. Hins vegar var skýrt í spænskum lögum réttur kröfuhafa til dráttarvaxta. CJEU sagði samt að þetta væri óleyfilegt og samningurinn ætti að standa án hins ósanngjarnaskilmála, enda væri hægt að efna samninginn án hans.

Hæstiréttur Íslands tók þveröfuga stefnu. Í fyrsta lagi, var ekkert því til fyrirstöðu að efna áður gengistryggða lánssamninga án ákvæðis um gengistryggingu, en með þeim vöxtum sem ákveðnir voru. Í öðru lagi, ákvað rétturinn leggja mun hærri vexti á lánin í stað hinna lágu vaxta sem á þeim voru. En hann lét ekki staðar numið það, heldur ákvað að endurreikna ætti þegar greidda gjalddaga og lántaki gat verið í skuld vegna þeirra. Í þriðja lagi, ákvað Hæstiréttur að hunsa ófrávíkjanlegar greinar vaxtalaga, þar sem m.a. er talað um betri rétt neytenda. Í fjórða lagi, þá ákvað rétturinn að túlka dómskröfur stefnanda út frá það sem honum fannst sanngjarnt, en ekki eftir því sem lögin sögðu. Réttinum fannst nefnilega ekki sanngjarnt að vextir lánsins sem umræddi væru áfram á láninu.

Verst af þessum ákvörðunum réttarins, var að ákveða að afturvirkni gæti verið kostur. Þannig var, að aðalkrafa stefnanda og fjórar varakröfur fólu allar í sér að taka ætti upp þegar greidda gjalddaga og skuldari gæti verið í skuld vegna þeirra. Þetta brýtur gegn stjórnarskránni og eins og Hæstiréttur komst að í máli 600/2011, þá verður rangur lagaskilningur bara leiðréttur til framtíðar. Þar með hefði rétturinn í máli 471/2010 átt að víkja til hliðar öllum framgreindum kröfum stefnanda og láta fimmtu varakröfu hans standa, sem var að vextir lánsins héldust eins og þeir voru tilgreindir í lánssamningnum.

En þetta voru samt ekki stærstu mistök Hæstaréttar varðandi vexti áður gengistryggðra lána. Þau voru að láta dóm 471/2010 verða fordæmisgefnandi fyrir öll áður gengistryggð lán. Svo merkilegt sem það er, þá var skilningur Hæstaréttar á áhrifum þess dóms á lánin ákaflega takmarkaður. Rétturinn fattaði ekki, að hann var almennt að hækka skuldir lántaka mjög mikið með þeirri ákvörðun. Það var undantekning, að lántaki endaði með lægri skuld, þegar áhrifum dóms 471/2010 hafði verið beitt á lán. Hæstiréttur gekk því gegn grundvallarreglum neytendaréttar og gerði nákvæmlega, það sem EJCU varaði við um 18 mánuðum síðar. Hann dæmdi lögbrjót í betri stöðu eftir lögbrot, en hann var í áður en dómurinn var kveðinn upp.

Segja má, að 16. september 2010 hafi Hæstiréttur skitið í buxurnar (eins og dómur 600/2011 sannar) og hann hélt því áfram í hvert sinn sem hann taldi dóm 471/2010 fela í sér réttlæti til handa skuldurum. Eitt er alveg víst, að ekkert fjármálafyrirtæki fór með hallan hlut í málarekstri við almenning, enda nutu þau verndar Hæstaréttar!

Hér er síðan tengill á uppfærðan fyrri hluta 4. kafla í bókinni minni Á asnaeyrum - Hluti II: Gengitryggðu lánin. Kaflinn heitir Vaxtadómurinn