Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning

Jæja, það á ekkert að gera fyrir krónuna.  Látum vera að bankarnir eigi að bjarga sér sjálfir, en það er nokkuð ljóst að koma þarf til móts við almenning.   Þá sem eru með gríðarlega greiðslubyrði eftir hamfarir síðustu 7 mánaða.  Það er mín skoðun að best sé að gera það í gegnum vaxtabótakerfið.  Mig langar að leggja hér fram nokkrar tillögur: 

Í fyrsta lagi að hækka hámarksvaxtabætur umtalsvert.  Þess vegna í 1.000.000 kr. fyrir einstakling og 2.000.000 kr. fyrir hjón.  Fyrir mjög marga mun það ekki einu sinni duga til að vega upp verðbætur og gengisbreytingu. 

Í öðru lagi að afnema eignamörk vegna vaxtabóta, þar sem mjög margir sitja uppi með tvær eignir, þ.e. nýkeypt húsnæði eða húsnæði í byggingu og síðan gamla húsnæðið sitt. 

Í þriðja lagi, að leyfa fólki að setja bílalán inn í vaxtabótaútreikninga. 

Í fjórða lagi, að leyfa fólki að taka gengisbreytingu umfram eitthvað tiltekið gengi sem kemur fram í afborgunarhluta lánsins inn í vaxtabótaútreikninginn.  Viðmiðið gæti t.d. verið að hækkun gjaldmiðla umfram verðbólgu + 10%.  Hægt væri að fá bankana til að hjálpa fólki við þessa útreikninga. 

Í fimmta lagi, að hækka bætur almannatrygginga sem nemur verðbólgu ársins um áramót til að leiðrétta kjör þeirra sem þær þiggja. 

Í sjötta lagi, þarf að afnema skerðingu vegna fjármagnstekna gagnvart lífeyrisbótum eða að minnsta kosti leyfa fólki að draga vaxtagjöld frá áður en til skerðingarinnar kemur. 

Ég átta mig á því að svona aðgerðir kosta háar fjárhæðir, en það mun kosta ennþá meira ef hér verða fjöldagjaldþrot heimilanna. 

Einnig væri hægt að fara út í mikla niðurfærslu höfuðstóla húsnæðis- og bílalána, en það bætir ekki upp útgjöld þessa árs.  Niðurfærsluna mætti framkvæma þannig, að hluti lánsins væri tekinn til hliðar, þ.e. geymdur, og lántakandi þyrfti eingöngu að hafa áhyggjur af því sem eftir stæði.  Ef svo kæmi í ljós að ytri aðstæður breyttust svo mikið til hins betra, þá þyrfti lántakandinn að greiða af hlutfallslega stærri hluta. Þessi leið gæti verið innlegg fjármálafyrirtækjanna í að rétta efnahag landsins við.  Það kemur hvort eð er nokkuð út á eitt hvort bankarnir hirða húsnæðið af fólki og selji það öðrum á lægra verði eða að þeir lækki höfuðstól lána núverandi eigenda.

Hvaða spennu var létt?

Hún er alveg með ólíkindum niðurstaða ríkisstjórnarinnar og þarfnast skýringar við.  Ég trúi varla því sem ég les, að áfram eigi að láta hlutina leika á reiðanum eins og ekkert sé.  Gengi krónunnar féll um 16% á einni viku (eða hvað það nú var), skuldatryggingarálag bankanna er komið upp í allt að 5.500 stig, það er gjaldeyrisþurrð í landinu og niðurstaðan er núll og nix.  Ég spyr bara hvort rétt sé haft eftir forsætisráðherra.  Er fyrsti apríl?

Fréttastofa sjónvarpsins hefur hins vegar heimildir fyrir því að búið sé að virkja lánalínur til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, bankarnir hafi samþykkt að selja eignir í útlöndum og lífeyrissjóðirnir ætli að koma með eignir heim.

Ég hefði gjarnan vilja sá tillögur sem væru eitthvað í þessa átt:

 1. Falla frá þjóðnýtingu Glitnis.
 2. Veita Glitni lánið sem bankinn bað um gegn þeim veðum sem bankinn bauð fram
 3. Krefjast þess að eigendur Glitnis leggi fram jafnháa fjárhæð eða fái nýtt hlutfé inn í bankann. Gefa þeim takmarkaðan tíma til verksins. Takist það ekki verði Glitni gert að selja frá sér hluta starfseminnar
 4. Efla gjaldeyrisvarasjóðinn um 8-1000 milljarða hvort heldur með beinu innstreymi eða lánalínum framlagið komi m.a. frá bönkunum, lífeyrissjóðum og ríkissjóði.
 5. Krefjast þess að bankarnir efli lausafjárstöðu sína og vindi ofan af eigna- og skuldatengslum sínum. Lokað verði fyrir krossábyrgðir, þar sem einn bankinn tekur ábyrgðir í hlutabréfum annars, sem tekur ábyrgðir í hlutabréfum hins.
 6. Skipt verði um alla bankastjóra í Seðlabankanum. Ráðinn verði einn yfirbankastjóri. Skilyrðið er að hann hafi mikla reynslu af bankamálum og þekki til hlítar verklag sem tíðkast hjá seðlabönkum. (Mér detta í hug menn eins og Jón Sigurðsson fyrrum ráðherra Alþýðuflokksins, Jón Sigurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins og Tryggvi Pálsson fyrrum bankastjóri Verzlunarbankans og núverandi starfsmaður Seðlabankans.)
 7. Herta verði reglur um áhættuútreikninga bankanna sem meðal annars gera lán til hluthafa annarra banka áhættusamari en í núgildandi reglum.
 8. Bönkunum verði gert að tryggja sér varalánalínur, þannig að missir 2 - 3 meginlánveitenda geti ekki sett þá í greiðsluþrot.
 9. Lausafjárálagsprófanir verði framkvæmdar reglulega samhliða öðrum álagsprófunum.
 10. Síðan þarf gríðarstóran pakka til að aðstoða almenning sem lent hefur í hremmingum með lán sín. Bönkunum verði gert að leggja 200 milljarða á 5 árum í slíkan pakka. Lántakendum verði gert kleift að sækja um niðurfærslu höfuðstóls lána sinna í þennan sjóð.
 11.  Allt regluverk fjármálakerfisins verði endurskoðað með íslenska hagkerfið í huga. 

Ekki það að ég hafi neitt sérstakt vit á þessu, en eina leiðin til að auka trúverðugleika Íslands er að koma með aðgerðir sem styrkja gjaldmiðil þjóðarinnar, lækkar skuldatryggingarálag bankanna og ríkissjóðs og hækkar lánshæfismat bankanna og þjóðarinnar.  Það er eins og menn átti sig ekki á því að lausnin "að gera ekki neitt" mun að öllum líkindum verða til þess að íslensku bankarnir gætu lent í fjöldaúttektum af erlendum innlánsreikningum, skuldatryggingarálag mun hækka og gjaldeyrisskorturinn aukast.

Geir segir að dregið hafi úr spennunni.  Mikið væri gott, ef hann gæti skýrt það út fyrir okkur landsmönnum og umheiminum hvernig hefur dregið úr spennunni.  Markaðir eru búnir að vera lokaðir, þannig að ekki sést það á þeim.  Hvernig geta samræður í timburhúsi við Tjarnargötu dregið úr spennu á markaði?

Nú býð ég spenntur eftir skýringunni og ég býð dauðhræddur eftir viðbrögðum markaðarins.  Ég þarf að greiða 1.000 EUR í vikunni og fannst nógu slæmt að greiða rúmlega 150.000 kr. fyrir þær, en núna bendir flest til að ég þurfi að greiða 200.000 kr.

Frétt sem bloggað var við:  Ekki þörf á aðgerðapakka

Ábyrgð Seðlabanka Íslands

Egill Helgason er með færslu hjá sér undir fyrirsögninni Wade búinn að vinna rökræðuna.  Ég ætlaði að setja athugasemd inn á þá færslu, en hún hefði drukknað í umræðu um allt annað.  Því ákvað ég að setja hana hér enda fjallar Peston að hluta um sömu atriði:

Ég ætla ekki að taka hanaslaginn um ábyrgð bankanna sem er mikil heldur benda á atriði í grein Wade sem mönnum virðist yfirsjást og einnig er bent á í bloggi Robert Peston, viðskiptaritstjóra BBC.

Wade segir:

The central bank tied its own hands so as to leave only the interest rate as its control instrument. It gave up reserve requirements on grounds that the banks did not want them; and it also failed to exercise moral suasion. Its efforts to restrain inflation by raising short-term rates (to 15 per cent by 2008) had the effect of sucking in more “carry trade” capital, undermining the intended curbing of demand and leading the krona to appreciate despite the huge external deficit.


Og Peston segir (í þýðingu vb.is ekki mbl.is):

Rót gríðarlegs vaxtar fjármálakerfisins á Íslandi eru vaxtamunarviðskipti, en á síðustu árum hefur reynst vinsælt að fá lánað í lágvaxtamyntum á borð við jen og ávaxta síðan í krónum. Um árabil reyndist þetta áhættulítil leið til gróða, en um leið og lánsfjárþurrðin skall á alþjóðlegum fjármálamörkuðum kárnaði gamanið.


Báðir þessir aðilar benda á stýrivaxtastefnu Seðlabankans sem veigamikinn þátt í þeirri kreppu sem við erum að kljást við.  Mig langar að bæta við (nú hljóma ég eins og biluð plata) ákvarðanir Seðlabankans árið 2003 um lækkun bindiskyldu samhliða lækkun á áhættustuðlum vegna útreiknings á eiginfjárhlutfalli og ákvörðun Seðlabankans í mars 2007 um frekari lækkun áhættustuðla.  Þessar þrjár aðgerðir juku útlánagetu bankakerfisins um ríflega 200%.  Bara lækkun áhættustuðlanna gerði það að verkum að bankar sem áður gátu lánað 100 milljarða krónur fyrir hverjar 8 milljarða kr. í eigið fé gátu núna lánað 282 milljarða kr.  Lækkun bindiskyldunnar bæti síðan háum fjárhæðum við þessa tölu. 

Ég get ekki betur séð en að Seðlabanki Íslands hafi lagt talsvert mikinn eldsmat í þennan bálköst sem núna logar og síðan aðstoðaði hann bankana verulega við að safna því sem þeir bættu á.  Það sem Seðlabankinn gerði voru nokkuð staðlaðar aðgerðir út um allan heim í nafni BASEL II, en það er ekki annað hægt en að gagnrýna tímasetningar aðgerða Seðlabanka Íslands (sem voru að hluta framkvæmdar með reglum frá FME) og að þeim hafi ekki fylgt aðhaldsaðgerðir.

Tökum fyrst 2003:  Bindiskylda er lækkuð um 50% úr 4% í 2%.  Nokkrum mánuðum síðar er útlánageta þeirra aukin með lækkun áhættustuðla.  Þetta eru tvær þensluhvetjandi aðgerðir án þess að þeim fylgi nokkur aðhaldsaðgerð.  Stýrivextir voru 5,3% og þeir héldust 5,3%.  Bankarnir juku útlán sín til útrásarverkefna í kjölfarið og ári seinna fóru þeir inn á húsnæðislánamarkaðinn.  Fyrst hafði það gerst að verðbólga byrjaði að aukast og stýrivextir að hækka.  Á haustmánuðum fer allt af stað, verðbólga hækkar, stýrivextir hækka og gengið sem hafði verið á bilinu 119 - 126 fór að styrkjast.  Með styrkingu gengisins, þá jókst útlánageta bankanna aftur, en nú í erlendri mynt og veðhæfi innlendra eigna jókst líka í þeim samanburði.  Það furðulega við þetta allt, var að Seðlabankinn hækkaði raunstýrivexti mikið á þessum tíma.  Eftir því sem raunstýrivextir hækkuðu styrktist krónan, sem jók enn og aftur útlánagetu bankanna í erlendri mynt.  Stýrivextir sem höfðu verið 5,3% í febrúar 2004 meðan verðbólga var 2,3% voru komnir í 10,75% í febrúar 2006 með 4,1% verðbólgu og gengisvísitölu upp á 107,4.  Þarna eru raunstýrivextir skyndilega orðnir 6,6%, en áður höfðu nafnstýrivextir verið 5,3%.  Á sama tíma flýtur ódýrt lánsfé út um allan heim.  Menn gátu tekið lán í jenum á 0,3% vöxtum og það blasti náttúrulega við að ávaxta það á 10,75% vöxtum á Íslandi.  Útlendingunum var alveg sama um íslenska verðbólgu.  Aukið erlent fjármagn flaut inn og það ásamt háum stýrivöxtum hélt gengi krónunnar háu og mikilli útlánagetu hjá bönkunum.

Þá kemur 2007.  Ríkisstjórnin hafði tilkynnt með góðum fyrirvara að matarskattar yrðu lækkaðir 1. mars 2007, en í skugga þeirrar aðgerðar í 7,4% verðbólgu og 14,25% stýrivöxtum, þá lækkar áhættustuðull veðtryggðrar útlána úr 0,5 í 0,35.  Það voru eldar um allt í hagkerfinu og Seðlabankinn ákvað að bæta nokkur þúsund tonnum af olíu á eldinn.  Þessi aðgerð sneri kólnun á húsnæðismarkaðnum við, þar sem útlánageta bankanna í þann málaflokk jókst skyndilega um 42%.  Aðgerðir ríkisstjórnarinnar lækkuðu verðbólguna niður í 5,9% í mars sem hefði átt að gefa Seðlabankanum færi á að lækka stýrivexti og byrja að vinda ofan af Jöklabréfunum.  Nei, hann hélt ekki bara stýrivöxtunum óbreyttum, hann hækkaði þá.  Það var að vísu reynt að láta svo líta út að stýrivextirnir hefðu lækkað með því að breyta aðferðafræðinni, en 13.30% stýrivextirnir í júní 2007 voru í raun hækkun um 0,25%.  Svo skall lausafjárkreppa á að fullu (þó svo að merki hennar hafi mátt sjá mun fyrr) og hvað gerði Seðlabankinn þá.  Bæta enn í vána með því að hækka stýrivexti.

Það er ofsalega margt furðulegt sem kemur í ljós þegar maður skoðar samspil stýrivaxtaákvarðana, verðbólgu og gengis.  Það er eitt sem æpir á mig:  Hækkun stýrivaxta virðist auka óróa!  Það er eins og verðbólgan elti stýrivextina!  Frá því að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 5,5% í 5,75% í júní 2004, þá hefur verðbólgan aldrei farið undir verðbólgumarkmið Seðlabankans.  Raunar hefur hún bara tvisvar verið undir 3% og 12 sinnum verið 3 - 4%.

Ef við bætum svo við þessa upptalningu að krónan var sett á flot með stýrivexti í hæstu hæðum og verðbólgu langt utan verðbólgumarkmiða Seðlabankans, þá er eiginlega með ólíkindum að allt hafi ekki farið fjandans til fyrir löngu.

Vissulega teygðu bankarnir sig langt í útlána- og útþenslustefnu sinni.  En þegar horft er til þess hve litlar afskriftir hafa verið bönkunum undanfarin ár, þá er ekkert sem bendir til þess að þeir hafi seilst of langt.  Fyrir 14 mánuðum var skuldatryggingarálag þeirra vel innan við 50 punktar.  Núna er það allt að 5.500.  Þetta er í mínum huga tilraun til að setja þessi fyrirtæki á hausinn og hefur ekkert, nákvæmlega ekkert með rekstrarlega stöðu þeirra að gera.  Á sama tíma og bankarnir sæta þessum ofurkjörum, þá fær einn viðskiptavina þeirra, Orkuveita Reykjavíkur, lán með 9,8 punkta álagi.  Kannski Glitnir ætti að fá OR til að taka lán fyrir sig!  Mér sýnist sem hræætur markaðarins séu búnir að færa sig alfarið frá olíunni yfir í skuldatryggingarálagið.

Frétt sem bloggað var við:  Ísland flautað úr leik

Rétt er að bæta hér við athugasemdum sem gerðar voru við færsluna á Moggablogginu.  Fyrst "Gunn":

"Þetta eru hagsmunaárekstrar af versta tagi þar sem fjárhagsöflin sem hafa dregið okkur niður í svaðið verja sína hagsmuni með kjafti og klóm.  Hlustið á hvað aðilar og einstaklingar hafa að segja í þessari umræðu. Greinið hvaða hagsmuni er verið að verja (pólitíska, efnahagslega) og hverju er verið að koma á framfæri? og hverjum er verið að veita högg og hvers vegna?  Almenningur er grunnhygginn og lætur létt plata sig. 

Það er augljóslega vegið að Davíð Oddssyni, en hvers vegna? Þetta er í raun aðför að SÍ sem skyldi kanski vera að verja hagsmuni þjóðarinnar á kostnað bankanna og fjárhagsaflanna? Hef aldrei haft sérstakt álit á Davíð sem stjórnmálamanni.  Hann hefur marga galla eins og við flestir og hefur gert sín mistök.  Þeir sem gagnrýna Davíð minnst eru Vinstri Grænir, held að Steingrímur Sigfússon sé búinn að fatta þetta. 

Það kom skýrsla frá Alþjóðabankanum - IMF í vor og nú aftur í  haust (engir íslenskir fjölmiðlar hafa fjallað um hana... !) og einnig margfræg grein professors Robert Wade við London School of Economics sem birtist í Financial Times sem bentu á það sem hefur gerst. Áróðursmaskínur fjármálastofnanna, takið eftir Richard Porter og Friðrik Már Baldursson vísuðu þessu á bug.  Nú er þessi umræddi Richard Porter einnig farinn að gagnrýna Íslenska Seðlabankann fyrir að hrinda þessu af stað. Hmm, traustvekjandi?

Takið nú eftir þessari umræðu um Davíð.  Þetta er auðvitað ekki Davíð þetta er Seðlabanki Íslands og Ríkisstjórnin.  Mitt álit er að SÍ þeir hafa vitað að "spilaborgin" myndi hrinja í talsverðan tíma og í raun vitað að þeir höfðu ekki fjárhagslega burði til að bjarga íslenska fjármálakerfinu.  Atburðir síðustu 3-4 vikna hafi flýtt þessu ferli.  
Leigupennar hagsmunnaaðila (bankanna og hluthafa þeirra) hafa hamrað á Seðlabankanum og hafa notað sér grunnhyggni almennings og stjórnmálamanna með að persónugera þetta.  Þeir urðu að gera þessar aðgerðir með Glitni sem er gjaldþrota, hvað sem hver segir.  Sjá viðtal við Jón Daníelsson professor í London School of Economics á RUV - Speglinum þann 3.10.2008  http://www.ruv.is/spegillinn/

Þetta snýst að lokum allt spurning um hver á að "borga brúsann" og hverjum á að bjarga. Um hvort eigi að fórna hagsmunum eiganda fjármálastofnanna eða framtíðarhagsmunum íslensku þjóðarinnar.
Seðlabanki og ríkisstjórn þurfa að hafa "pókerfés" þeir geta ekki svarað þessum ásökunum sem hrannast á þá. Davíð Oddson er ríkisstarfsmaður og hefur engin áhrif á umsóknaraðild að ESB sem gæti verið rétt spor.  Það sem er stóra spurningin núna er: kastar Seðlabanki Evrópu líflínu til okkar? Ef ekki hvað segir það okkur um afstöðu þeirra?  Það að ganga í EB tekur mörg ár og ekki víst að við fáum aðild að myntbandalaginu  þar sem við erum of skuldug og verðum með of mikinn halla á ríkisrekstriunum, en það er rétt skref að hefja aðildarviðræður.  Það er samt skynsamlegt að ekki veikja okkar samningstöðu.  Munum það að Ísland kemur til með að borga í sjóði bandalagsins mun meira en við fáum út úr þeim og okkar einasti ávinningur er að við fáum evru og tekur það mörg ár.

Vandamál okkar núna er að það þarf að taka geysistórar ákvarðanir á næstu 20 klukkustundum þegar bankar opna í Evrópu og það mun hafa afleiðingar á framtíð þjóðarinnar.  Það er ljóst að það þarf einnig að senda þetta blessaða fjármálafrumvarp til föðurhúsa, hallalaus fjárlög nú eru frumskilyrði."

Og frá mér:

"Við þennan lista furðulegra aðgerða Seðlabankans, þá má nefna að samkvæmt algildum hagfræðikenningum, þá er jafnvægi haldið á gjaldeyrismarkaði með því að skapa eftirspurn eftir þeim gjaldmiðli sem er að falla og framboð eftir þeim gjaldmiðli sem er að hækka.  Þannig var það hlutverk Seðlabankans að selja krónur í miklu mæli, þegar krónan var að styrkjast til að koma í veg fyrir of mikla styrkingu hennar og kaupa krónur í kjölfar veikingu hennar.  Fyrri aðgerðin hefði styrkt gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar án lántöku eða með takmarkaðri lántöku, en hin hefði verið eðlilegt leið til að nota gjaldeyrisvarasjóðinn til að skapa stöðugleika.  Þar sem fyrra tækifærið var ekki notað, þá hafði Seðlabankinn ekki burði til að sporna við falli krónunnar í vor.  Það sendi nokkuð skýr skilaboð út á markaðinn um vanmátt Seðlabankans og gróf undan trúverðugleika hans.  Ég hef oft spurt mig að því, af hverju Seðlabankinn reyndi ekki að hafa áhrif á gjaldeyrismarkaðinn með þessu móti.  Menn hafa skýrt það með því, að Seðlabankinn hefi ekki viljað vera með inngrip í gjaldeyrismarkaðinn, en málið er, að það er mikilvægt hlutverk seðlabanka að vera með slíkt inngrip."

Gengistryggð lán eða verðtryggð lán, það er spurningin

Ástandið á gjaldeyrismarkaði er skuggalegt.  Nokkuð sem varla hefur farið framhjá nokkrum manni hér á landi.  Gengisvísitala krónunnar hefur á 14 mánuðum farið frá því að vera 110,7 24.júlí 2007 í 120,5 um áramót í það að vera 156,3 28. mars og núna er hún 206,0.  Breytingin frá því 24/7/07 er 86%, sem þýðir 53,7% lækkun íslensku krónunnar.  Gengisvísitala lýsir vegnu meðaltali ákveðinna mynta og því geta einstakar myntir hafa breyst meira en aðrar.  Tvær myntir skera sig úr, þ.e. svissneski frankinn með um 100% hækkun og japanska jenið með um 114% hækkun.

Sem afleiðing af þessu blæðir mörgum sem eru með lán í erlendri myntkörfu.  En málið með myntkörfulán er að höfuðstóll þeirra sveiflast upp og niður með genginu.  Af þeirri ástæðu eru miklar líkur á að höfuðstóll lánanna eigi eftir að lækka talsvert á næstu mánuðum.  (Ég læt mig dreyma um að ástandið skáni nú eitthvað.)

En hvernig standa þessi lán samanborið við verðtryggð lán?  Málið er að til lengri tíma, þá standa þau sig bara vel.  Ég er með alls konar lán sem húsnæðislán, þ.e. nokkur verðtryggð lán frá Íbúðarlánasjóði og nokkur myntkröfu lán.  Eitt erlendu lánanna er 100% í svissneskum frönkum, annað er blönduð karfa jen, frankar, dollarar og evrur og þriðja lánið er jen og frankar.  Þegar ég ber saman stöðu þessara lána og breytingu á höfuðstól þeirra, þá kemur ýmislegt í ljós. 

Verðtryggðu lánin eru til 40 ára og er ég búinn að greiða af þeim í tæp 9 ár.  Meðalgreiðsla af þeim er um kr. 7.500 á hverja milljón á mánuði.  Þrátt fyrir að hafa borgað af þeim allan þennan tíma hefur höfuðstóll þeirra hækkað um 48,8%.  Inn í þetta eiga svo eftir að koma verðbætur vegna verðbólgu frá 15. ágúst.

Svissnesku frankarnir eru til 30 ára og er ég búinn að borga af þeim í rúm 4 ár, en auk þess var fyrsta árið bara vaxtagjalddagar.  Meðalgreiðsla af þeim hefur verið um 6.000 kr. á mánuði á hverja milljón.  Þrátt fyrir 100% hækkun frankans á 14 mánuðum, þá hefur höfuðstóll þessa láns aðeins hækkað um 51,8% og þar af um 16% á rétt um viku.

Blandaða karfan með jenum, dollurum, frönkum og evrum, er 10 ára lán.  Meðalgreiðsla af því láni hefur verið innan við 13.000 kr. á hverja milljón á mánuði og hefur höfuðstóll lánsins lækkað um 7,9% á þeim 5 árum sem ég hef greitt af því.  Verðtryggt lán með sömu lengd hefur lækkað um 12% á sama tíma, en þar eiga nýjustu verðbætur eftir að koma ofan á.

Miðað við þessar tölur, þá standa gjaldeyrislánin sig síst verr en verðtryggðu lánin, þrátt fyrir hrun krónunnar!  Vissulega koma lán sem tekin hafa verið á síðustu tveimur árum illa út varðandi hækkun höfuðstóls, en þar sem ég ætla að greiða af þeim næstu 20 - 30 árin, þá finnst mér það ekki vera marktækt.   Stærsti munurinn á þessum tveimur tegundum lána, eins og ég benti á áðan, er að höfuðstóll gjaldeyrislánanna á eftir að lækka um leið og krónan styrkist (sem getur ekki annað en gerst) og síðan með hverri afborgun, meðan höfuðstóll verðtryggðu lánanna heldur áfram að hækka í hvert sinn sem verðbætur eru meiri en nemur afborgun af verðbættum höfuðstóli.  Ef krónan styrkist ekkert að ráði næstu mánuði, þá verður greiðslubyrðin af erlendu lánunum frekar þung, en greiðslubyrði verðtryggðu lánanna mun einnig aukast.  Við síðustu mælingu á verðbólgu var hún 14%.  Síðustu 30 daga hefur krónan veikst um rúm 22% og eiga áhrifin af því eftir að koma inn í verðbólgumælingar.  Við getum því reiknað með að verðbólgan fari upp í 20 - 25% áður en hún fer að lækka.  Styrkist gengið hratt á næstu mánuðum, þá gæti það vissulega gerst að í stuttan tíma verði verðhjöðnun, en hún verður aldrei nóg til að vega upp þær miklu verðbætur sem hafa og munu bætast á verðtryggð lán í tengslum við þær efnahagshremmingar sem núna eru í gangi.

Milljón dollara spurningin er: Hver verður þróun gengis annars vegar og vísitölu neysluverðs hins vegar næstu mánuði og ár?  Ef eitthvað er að marka fortíðina, þá megum við búast við að verðbólga verði 4-5% á ári að meðaltali og að krónan (eftir að hún hefur náð nýju jafnvægi) veikist um 1 - 2% á ári. Miðað við slíkar forsendur, þá verður uppsöfnuð 10 ára verðbólga á milli 48 og 63% meðan uppsöfnuð 10 ára veiking krónunnar milli 11 og 22%.  Við skulum hafa í huga, að það mun taka krónuna skemmri tíma að finna jafnvægið sitt, en það tekur verðbólguna.  Ástæðan er einföld:  20 - 25% verðbólga mun hafa mikil ruðningsáhrif í þjóðfélaginu svo sem mikilli hækkun launa, sem skilar sér út í verðlagið og veldur meiri verðbólgu.  Þó svo að Seðlabankinn miði alltaf við að ná verðbólgumarkmiðum sínum á 2 árum, þá er það óraunhæft við núverandi aðstæður af framangreindum ástæðum.  Nær er að búast við því að verðbólgumarkmið náist á 3 - 4 árum með stöku víxlspori upp og niður á tímabilinu.

Verði þróun gengis og verðbólgu í dúr við það sem ég er að spá, þá liggur í augum uppi að gjaldeyrislánin verða hagstæðari til lengri tíma litið.  (Það veltur þó á vöxtunum.)  Þau taka í núna, en það er betra að láta þau bíta mann fast og vita af því, en að vera með verðbætt lán sem éta mann án þess að maður verði þess var.  Loks má ekki útiloka að við verðum komin með einhvern allt annan gjaldmiðil innan nokkurra ára og þá getum við bara skipt öllum lánum yfir í óverðtryggð, lágvaxta lán sem ofgera ekki greiðslugetu okkar með jöfnu millibili.  (Það er allt í lagi að láta sig dreyma.)

"Seðlabankinn er hvergi"

Nú er útlendingur búinn að segja það sem allir á Íslandi hafa hugsað frá því í vor:

Bloomberg hefur einnig eftir sérfræðingum í Lundúnum, að þeim þyki íslenski seðlabankinn vera aðgerðarlítill á sama tíma og seðlabankar í Bandaríkjunum og Evrópu dæla fé inn í fjármálakerfið til að aðstoða banka.

„Allir eru í raun að bíða eftir því að Seðlabankinn geri eitthvað," segir Beat Siegenthaler, sérfræðingur hjá TD Securities í Lundúnum. „Þetta er eini seðlabankinn í heiminum, sem ekki hefur gripið til aðgerða með einhverjum hætti til að styðja við fjármálakerfi sitt. Tilfinningin er sú núna, að hann sé hvergi, sé ekki nálægur."

Siegenthaler segir að gengislækkun krónunnar muni væntanlega leiða til þess að verðbólga verði 20% en verðbólgumarkmið seðlabankans sé 2,5%.  

„Margir miðlarar segjast aldrei hafa séð gjaldmiðil tapa jafn miklu á jafn stuttum tíma og án þess að seðlabankinn segi neitt eða reyni að grípa inn í með stuðningsaðgerðum," segir hann.

Ekki að ég sé vanur að fagna ummælum erlendra aðila, þar sem þeir fara ansi oft með fleipur.  Og ekki veit ég heldur hvort þetta sé málsmetandi maður með þekkingu á íslenska fjármálakerfinu.  En hvort Beat Siegenthaler er somebody eða nobody þá rataðist honum/henni rétt á munn í þessu tilfelli.  Þegar kemur að því að bregðast við falli krónunnar, þá hefur Seðlabankinn lítið gert og það sem hann hefur gert hefur frekar aukið á vandann en slegið á hann.

Ég sagði um daginn "Vakna þú mín Þyrnirós" og nú segi ég "VAKNAÐU, VAKNAÐU, ÞYRNIRÓS".

Fréttin sem bloggað var við:  Boðar aðgerðir til að auka lausafé

Hvað er langt í landsfund Sjálfstæðismanna?

Hvernig vildi það til að Geir var hleypt í stól formanns Sjálfstæðisflokksins?  Ég hlustaði á ræðuna hans í kvöld vegna þess að ég hélt að hann hefði eitthvað fram að færa.  Maðurinn er forsætisráðherra þjóðarinnar á mestu krepputímum á lýðveldistíma.  Hvað segir hann?  Listamenn eru að gera það gott!!  Ríkisstjórnin hefur góð tök á málunum!!  Er ekki alveg í lagi?

Ég vona þjóðarinnar vegna, að stutt sé í næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður Katrín bjóði sig fram á móti honum þar.  Ég veit það frá gamalli tíð að hún hefur bein í nefinu og kemur hlutunum í verk.  Hún er búin að laga skemmdirnar sem Björn vann á menntakerfinu og nú er komið það því að hún lagi það sem Geir og Davíð hafa eyðilagt í hagkerfinu.

Annars get ég ekki annað en furðað mig á ummælum Björgvins, viðskiptaráðherra, þegar hann sagði að verið væri að taka saman lista yfir það sem hægt væri að gera.  Fjármálakreppan er búin að vera í gangi í 14 mánuði og þar af verið mjög alvarleg í tæpa 7 og það er núna fyrst verið að taka saman LISTA yfir það sem hugsanlega er hægt að gera.  Hvers konar stjórnun er þetta?

Ég vinn við að aðstoða fyrirtæki við að framkvæma áhættumat og áhrifagreiningu vegna stjórnunar á upplýsingaöryggi.  Upplýsingaöryggi er ríkur þáttur í rekstraröryggi og jafnvel fjárhagslegu, þó ég skipti mér almennt ekki að því síðarnefnda nema hvað varðar aðgang að upplýsingum og staðgengla fyrir verk.  En í mínu starfi vinn ég við að spyrja "Hvað ef?" spurninga.  Mér finnst einhvern veginn sem það hafi gleymst síðustu mánuði að spyrja hvað er það versta sem gæti gerst.  Þó maður spyrji slíkra spurninga, þá er maður ekki þar með að reikna með að það versta gerist, en geti maður gert sér það versta í hugarlund, þá getur maður búið sig undir það. 

Auðvitað reikna ég með Seðlabankinn hafi verið á fullu í því frá því að krónan var sett á flot að velta fyrir sér hinum og þessum áhrifum ákvarðana sinna.  Það virðist bara vera sem þeir hafi ekki verið nógu svartsýnir.  Það sama á við um það þegar ákvörðunin var tekin um síðustu helgi að þjóðnýta Glitni og rýra eigur hluthafa um 180 milljarða.  Menn veltu því greinilega ekki fyrir sér hvað þessir 180 milljarðar voru notaðir í fyrir utan að vera hlutafé í Glitni.  Menn skoðuðu greinilega ekki ruðningsáhrifin af því að tryggingarnar/veðin, sem fólust í hlutabréfunum, hyrfu.  180 milljarða hlutafé í Glitni er notað sem tryggingar í alls konar viðskiptum við hina bankana, þannig að það voru ekki bara hluthafarnir sem töpuðu peningunum sínum heldur töpuðu lánadrottnar þeirra tryggingunum sínum.  Þó Kaupþing eigi 500 milljarða í eigin fé, þá má bankinn ekkert við því að tapa tryggingum upp á 90 - 130 milljarða bara si svona eða hver svo sem upphæðin var.  Sama á við um Landsbankann.  Menn voru svo æstir í að eignast banka, að þeir föttuðu ekki hvað þeir gerðu, af því að þeir spurðu sig ekki hvað væri það versta sem gæti gerst.  Eða kannski spurðu þeir sig að því og vissu að með þessu myndu þeir eignast alla bankana á silfurfati?

Ég vil síðan bæta við, að um allan heim eru menn á mínu sviði að fást við þrennt um þessar mundir:  Áhættustjórnun, stjórnun rekstrarsamfellu/neyðarstjórnun og finna leiðir til að hlíta ákvæðum laga og reglna og uppfylla kröfur fjármálaeftirlita og Seðlabanka.  Og fyrir fjármálaheiminn er ekkert mikilvægara núna en að spyrja sig að því hvað getur farið úrskeiðis næst og hvernig geta menn komið í veg fyrir það eða linað áfallið.  Slíkt er ekki gert nema með samstilltu átaki allra ráðandi aðila innan fjármálastofnana og með því að setja áhættustjórnun í forgang.  Um þessar mundir hagnast menn eingöngu á því að koma í veg fyrir tapið, áfallið.  Menn gera það ekki með endurhverfum viðskiptum, vegna þess að menn vita ekki hvort hinn aðilinn verður til staðar á morgun.  Með gera það ekki með afleiðuviðskiptum eða skortsölu eða flóknum stærðfræðilíkönum eða hvað það nú er.  Menn gera það eingöngu með því að líta eins einfalt á hlutina og hægt er:  Hvað gerist ef tiltekin eign, þjónusta, starfsemi, starfsþáttur, samningur o.s.frv. er ekki til staðar? Hvernig getur stofnunin dregið úr líkunum á því að það gerist? Hvernig getur stofnunin brugðist við ef það gerist?  Hefur stofnunin getu til að standa af sér slíkt áfall?

Frétt sem bloggað var við:  Glitnisaðgerð ekki endapunktur

Skilar sér í vel yfir 20% verðbólgu og 25% stýrivöxtum á næstu mánuðum

Það er greinilega búið að festa akkeri á blessaða flotkrónuna svo hún hætti að sveiflast.  Vandinn er að það er allt of stutt í keðjunni og hún of þung að auki, þannig að krónu greyið er að sökkva til botns.  Vandamálið er að við vitum ekki ennþá hve djúpt er þar sem akkerinu var kastað út.

Það er náttúrulega út í hött að krónan sé orðin lægri en japanska jenið eða að svissneskur franki og kanadískur dalur séu komnir yfir 100 kall.  Bilun!

En við eigum eftir að bíta úr nálinni með þetta.  18% gengisfall í mars hafði í för með sér 3,4% hækkun vísitölu neysluverðs milli mars og apríl.  Hækkun gengisvísitölu nemur um 30% síðustu 30 daga og ef við segjum að verðbólgan hagi sér hlutfallslega svipað núna og í vor, þá má búast við að hækkun vísitölu neysluverðs verði 5,7% milli mælinga í september og október.  Það gerir 68% verðbólgu á ársgrunni (þ.e. 5,6% verðbólgan margfölduð með 12) og 12 mánaðaverðbólga yrði 19,9%.  Ef síðan er gert ráð fyrir að hækkun vísitölu helmingist milli mánaða næstu tvo mánuði, þ.e. verði 2,8% í nóvember og 1,4% í desember, þá mun verðbólgan ná nýjum toppi í tæpum 24,5% í janúar 2009.

Inn í þessa útreikninga vantar alveg áhrif sem verða af mikilli hækkun stýrivaxta, en fall krónunnar og hækkun verðbólgu kallar óhjákvæmilega á allt af 10% hækkun þeirra, þ.e. úr 15,5% í 25,5% ætli Seðlabankinn að halda jákvæðum stýrivöxtum.

Ég verð að viðurkenna, að þegar ég spáði 18-20% verðbólgu í færslu hér í vor (sjá Verður 12 mánaðaverðbólga 18 - 20% í haust), þá átti ég ekki von á því að þar væri ég of varkár. En svo virðist sem orð mín:

þá má jafnvel gera ráð fyrir allt að 20% verðbólgu í vetrarbyrjun

muni því miður standast.  (Svo það sé skjalfest, þá er fyrsti vetrardagur 25. október, þegar Gormánuður gengur í garð.)

Fréttin sem bloggað er við:  Krónan á enn eftir að veikjast

Var sleggju beitt þar sem hamar hefði dugað?

Jæja, ég hef verið að kalla eftir viðbrögðum frá ríkisstjórn og Seðlabanka vegna fjármálakreppunnar sem gengið hefur yfir undanfarna ríflega 13 mánuði.  Nú sannast hið fornkveðna, að menn eigi að gæta hvers þeir óska.

Ég get ekki gert að því að velta því fyrir mér hvort viðbrögð ríkisstjórnar og Seðlabanka vegna beiðni Glitnis um aðstoð/þrautarvaralán hafi ekki verið full ofsafengin.  A.m.k. eru þessir aðilar búnir að útiloka að Kaupþing, Landsbanki eða nokkuð annað fjármálafyrirtæki láti sér detta í hug að leita til þeirra um aðstoð.  Viðbrögð Þorsteins Más Baldvinssonar sögðu allt sem segja þarf.  Hann telur að ríkisstjórn og Seðlabanki hafi sett fram ofurkosti sem séu í engu samræmi við stöðu mála.  Mér sýnist að þarna hafi sleggju verið beitt þegar hamar hefði dugað.

Annars tók ég líka eftir því að bæði Lárus Welding og Þorsteinn Már neituðu staðfastlega að gjaldþroti hafi blasað við Glitni meðan Davíð, Geir og Björgvin ásamt þingmönnum stjórnarandstöðu hömruðu á því að Glitnir hefði verið gjaldþrota.  Mér finnst nú vera himinn og haf á milli ummæla þessara tveggja fylkinga og það kalli nú á einhverjar skýringar.

Það verður síðan forvitnilegt að sjá hversu víðtækar aukaverkanir lyfsins verða.  Með aðgerðinni hafa verið þurrkaðir út rúmlega 50 milljarðar af eigin fé Stoða.  Aðrir stórir hluthafar munu líka fá mikinn skell og má þar nefna Þáttur International, Saxbygg, Lífeyrissjóði Bankastræti 7 og Salt Investment.  Ég get ekki séð að þessir aðilar gangi sáttir frá borði.  Lyfið mun örugglega verka á sjúkdóminn sem Glitnir er að kljást við, en hefur þegar valdið mun alvarlegri sjúkdómi annars staðar í þjóðfélaginu.

Seðlabanki og ríkisstjórn eru vissulega búin að sýna fjárhagslegan styrk sinn.  Upphæðin sem sett er í þessa björgunaraðgerð er 20% hærri en pakkinn stóri í Bandaríkjunum, ef tekið er mið að höfðatölunni góðu.  (Nei, 19,5%.  Nei, 19%. 18%.  Úps, ég gleymdi mér.  Ég var að fylgjast með gengisskráningunni.)  En, ef banki leitar til Seðlabankans um þrautavaralán, eins og Glitnir gerði, á hann þá ekki að geta fengið slíkt lán?  Er það ekki það sem felst í þrautavaraláni, að það er veitt í neyð?  Af hverju fékk Glitnir ekki slíkt lán, þegar hann leitaði til Seðlabankans?  Þessum spurningum þarf að svara á viðhlítandi hátt.  Hvað átti Þorsteinn Már við þegar hann segir að ekkert annað hafi verið í boði?  Hvers vegna segir Lárus að enginn aðkallandi vandi hafi verið, þó lausafjárskortur hafi verið fyrirsjáanlegur, en pólitíkusarnir og Davíð tala um gjaldþrot?  Það þarf svör við þessu líka.  Var versta úrræði beitt, þegar mildari aðgerðir hefðu dugað?

Án þess að hafa nokkuð fyrir mér, þá held ég að hluthafar Glitnis muni setja sig í samband við Nordea eða aðra stóra banka á Norðurlöndum og bjóða bankann til sölu.  Vandamálið er að ríkið hefur sett á hann ákveðinn verðmiða, sem mér telst vera 113 milljarðar, og engum dettur í hug að bjóða hærra en það.

Frétt sem bloggað er við:  Geta treyst styrk Glitnis áfram

Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum

Pétur Blöndal lætur hafa eftirfarandi eftir sér á visir.is:

Alveg eins og ríkið sker upp krabbameinssjúklinga sem hafa reykt tóbak alla ævi, mætti athuga með hvort félagsleg úrræði þurfi til að hjálpa þeim sem hafa af eigin vangá farið illa út úr því að taka áhættu og lent í hruni gengis og hlutabréfa, segir Pétur Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis.

„Þetta fólk lendir í miklum vanda og ég held að það mætti til dæmis veita þeim áfallahjálp, sem lenda í gjaldþroti. Það getur verið mjög alvarlegt og jafnvel leitt til sjálfsmorðs," segir hann. Að auki komi til greina að veita almenna fræðslu í fjármálum. Um hvernig samið skuli við kröfuhafa og unnið úr slæmri stöðu eða gjaldþroti.

„Við borgum auðvitað ekki skuldirnar upp fyrir fólk, þá værum við að hvetja til ábyrgðarleysis, en við getum reynt að milda afleiðingar áhættuhegðunar," segir Pétur.

Mig langar að það færist til bókar hjá Pétri, að ég er einn af þeim sem samkvæmt hans skilgreiningu hef lent í þessu ástandi af "vangá".  Ég fékk úthlutað lóð árið 2005 og er að byggja einbýlishús.  En bara svo Pétur viti og hætti að bulla um verklag almennra borgara, þá gerði ég ráð fyrir að jafnvægisgengi krónunnar væri í kringum 127 (þ.e. gengisvísitala), sem var á bilinu 15 - 20% yfir þeirri vísitölu sem var þá (105 - 112).  Ég gerði líka ráð fyrir ákveðinni þróun húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar.  Raunar reiknaði ég með því, eftir mikla yfirlegu og útreikninga, að þessi aðgerð (miðað við fasteignverð 2005 og gengisvísitölu 127) myndi skila mér góðum hagnaði, þ.e. að byggja einbýlishúsið og selja núverandi húsnæði.  Það var engin "vangá" í mínum ákvörðunum.  Þetta var útpæld og yfirveguð ákvörðun (enda ég með ákvörðunarfræði sem sérsvið innan þeirra tveggja gráða í aðgerðarannsóknum frá Stanford háskóla sem ég get flaggað).  Ég held að ég sé ekkert einn um að hafa lagst í svona útreikninga og treyst á að efnahagsstjórn þessa lands væri byggð á þokkalega traustum grunni en ekki kviksandi sem gleypti allt.

Ég er með eitt ráð til Pétur fyrst hann vill fara út í félagslegar aðgerðir.  Hvernig væri að senda bankastjórn Seðlabankans á eftirlaun og ráða menn sem þora að grípa til aðgerða, hætta að tala hagkerfið niður og geta aukið trúverðugleika Seðlabankans?  Stærsta vandamál þjóðarinnar í dag er ekki áhættusækni einhverra útrásaraðila.  Stærsta vandamálið er að Seðlabankinn hefur brugðist bæði í að halda verðlagi stöðugu og gengi krónunnar í jafnvægi.  Það vill svo til að þetta eru tvö megin hlutverk bankans.  Þar á bæ eru menn í grimmri afneitun og viðurkenna ekki að úrræðaleysi bankans er stærsti hluti vandans.  Þeir eru eins og ofdrykkjumenn sem viðurkenna ekki að þeir ráði ekki við drykkjuna sína. (Það getur verið að Seðlabankanum hafi ekki verið sköpuð skilyrði til að takast á við vandann, en nánar um það síðar.)

Sama á við ríkisstjórn Íslands. Geir hélt fund í gær með seðlabankastjórum, en þrátt fyrir krísuástand, þá var þetta ekki krísufundur.  Hvernig væri þá að boða krísufund og fjalla um krísuástandið og hvernig Seðlabanki og ríkisstjórn ætla að bregðast við?  Þessi tveir aðilar fljóta sem stendur sofandi að feigðarósi og taka okkar öll hin með sér.

Nú svo ég snúi mér aftur að Pétri.  Hann vill ekki að ríkisstjórnin borgi skuldir fólks, en finnst honum allt í lagi, að fólk þurfi að taka á sig hækkun húsnæðislánaskulda sem nemur 4 - 6 földum árslaunum sínum vegna þess að gengið hrynur og verðbólga hækkar.  Jú, ríkið verður að koma að því að greiða niður slíkar skuldir.  Það getur gert það með breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo.  Það getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána.  Svo gæti ríkið í samvinnu við sveitarfélögin afnumið fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði eða a.m.k. lækkað verulega.  Loks getur ríkisstjórn og Seðlabanki lagt út í viðmiklar aðgerðir til að styrkja íslensku krónuna. 

Þetta eru allt aðgerðir sem hægt er að fara út í til að létta á fólki vegna klúðurs þeirra sem áttu að standa vörð um hagsmuni almennings gagnvart verðlagi og gengisþróun.  Hvar í siðmenntuðu landi er það látið viðgangast að gjaldmiðill landsins rýrni um hátt í 40% á 14 mánuðum (40% rýrnun samsvarar 67% hækkun gengisvísitölu)?  Ég hef skoðað gengisskráningu Glitnis, sem skráir gengi fjölmargra gjaldmiðla, og hef ekki fundið neinn! Til að bæta gráu ofan á svart, þá hefur Seðlabanka Íslands ekki tekist að halda verðbólgu innan verðbólgumarkmiða sinna nema í örfáa mánuði síðan verðbólgumarkmiðið var tekið upp í mars 2001.  (Það er svo sem skoðun mín, að Seðlabankinn hafi ákveðið að miða við ranga vísitölu, þ.e. átt að nota vísitölu án húsnæðis en ekki með, og þar sem gert mælingar sínar ósamanburðarhæfar á alþjóðavettvangi.)  Það er því alveg kristalklárt í mínum huga að Seðlabankinn er vita gagnslaus, þegar kemur að stjórnun efnahags- og peningamála, vegna þess að hann skortir styrk.  Ég þykist vita að bankinn stendur sig vel á fjölmörgum sviðum, en að þessu leiti kann hann ekki til verka eða skortir stuðning frá ríkisstjórninni og fjárhagslegan styrk.  Þegar svoleiðis stendur á, þá eiga menn að viðurkenna takmarkanir sínar.  Stundum er gott að segja sig frá verkefninu og fá aðra til að leysa það.  Það sama gildir um efnahagsstjórn ríkisstjórna undanfarinna ára.  Það er alveg ljóst að þar voru menn of oft að hugsa um atkvæðin en ekki efnahag landsins.

Athugasemd febrúar 2018:  Þetta var fyrsta færslan mín, þar sem setti fram hugmyndir um lausn á skuldavanda heimilanna og eins og sjá má var hún sett fram áður en bankarnir hrundu.  Enda tel ég skuldavanda heimilanna ekkert hafa með hrun bankakerfisins að gera, heldur var hann afleiðing af falli krónunnar og verðbólgunni sem því fylgdi.

Ó, vakna þú mín Þyrnirós

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Seðlabanka Íslands eru hlutverk hans sem hér segir:

Seðlabankinn fer með stjórn peningamála á Íslandi og hefur með höndum margþætta starfsemi í þeim tilgangi. Meginmarkmiðið með stjórn peningamála er stöðugleiki í verðlagsmálum. Seðlabankanum ber þó einnig að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að svo miklu leyti sem hann telur það ekki ganga gegn meginmarkmiði hans um verðstöðugleika. Seðlabankinn á ennfremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Fleiri verkefni mætti upp telja, svo sem útgáfu seðla og myntar, framkvæmd gengismála og fleira, samanber það sem tilgreint er í lögum um bankann.

Mér sýnist sem Seðlabankinn ekki hafa staðið sig í neinu af ofangreindu.  Getuleysi Seðlabankans til að halda hér stöðugu verðlagi og að ég tali nú ekki um að mynda hér eðlilegan markað með gjaldmiðil þjóðarinnar hefur kostað mjög marga háar upphæðir.  50% fall krónunnar og 14% verðbólga ber ekki neinu öðru vott en að Seðlabankinn hefur brugðist hlutverki sínu. 

Ég get ekki annað en velt fyrir mér, er hvort ég geti leitað réttar mín, vegna hinna himinháu upphæða sem ég hef tapað (í formi hækkunar höfuðstóls lána) vegna aðgerðaleysi/getuleysi Seðlabankans.  Hvernig stendur á því að Seðlabanki Íslands láti það líðast að krónan lækki um 50% án þess að reyna að spyrna við fæti. Heldur Seðlabankinn virkilega að hann geti beðið af sér storminn? Við sjáum hvaða árangur er af því.  Allt bendir til að verðbólga í nóvember og desember verði um og yfir 18%.  Þetta þýðir að verðtryggð lán munu hækka um þessi sömu 18% á þessu tímabili.  Það sem verra er, að verðbólga á tímabilinu frá ágúst 2007 fram í janúar 2009 getur orðið allt að 22,5%.  Sé maður svo óheppinn að vera með skuldirnar í erlendri mynt, þá erum við að tala um að gengisvísitalan hafi hækkað um 64% frá því júlí á síðasta ári. Svissneskir frankar hafa hækkað um 78% og japönsk jen um 82%.  Hvað hefur Seðlabanki Íslands gert til að sporna við þessu?  Satt best að segja get ég ekki séð að hann hafi gert neitt að viti.  Raunar sýnist mér að Seðlabankinn hafi ýtt undir þessa þróun með óábyrgum yfirlýsingum, ótrúlegri framsetningu upplýsinga, ónákvæmum vinnubrögðum og viðskotsillum viðbrögðum við umræðu í þjóðfélaginu.  Menn hafa lokað sig inni og í besta falli veitt drottningarviðtöl.  Beiðni greiningadeilda bankanna um að fá að taka þátt í fundum um stefnu bankans hefur verið hafnað.  Menn hafa fallið í þá gryfju að kenna öðrum um og neita að líta á eigin misgjörðir.

Ef Seðlabanki Íslands (og raunar ríkisstjórnin líka) vakna ekki seinna en strax af sínum Þyrnirósarsvefni.  Forsætisráðherra kallaði seðlabankastjóra á fund sinn í dag, en neitar að um krísufund hafi verið að ræða.  Þeir hittist oft.  Mér er alveg sama hvort þeir hittist oft.  Í dag er krísa í gjaldeyrismálum þjóðarinnar.  Af þeirri ástæðu þarf KRÍSUFUND.  Það þarf víðtækar aðgerðir til að bjarga því sem bjarga verður og það þarf að grípa til þeirra aðgerða STRAX.  Það þolir ekki frekari bið.  Við erum búin að bíða frá því í mars og ástandið gerir ekkert annað en að versna.  Ástandið er orðið svo grafalvarlegt að sýna þarf lífsmark sem eykur traust "markaðarins" á íslenska hagkerfinu og íslensku krónunni.

Fjölmargar fjölskyldur í landinu eru komnar í alvarlega greiðslukreppu.  Afborganir og höfuðstólar lána hafa hækkað um tugi prósenta.  Viðbrögð seðlabankastjóra hafa hingað til verið að fólk geti sjálfu sér kennt um.  Það hafi farið út í óábyrgar fjárfestingar, það hafi mátt vita að gengi krónunnar myndi lækka.  Málið er að þessi rök halda ekki vatni.  Í fyrsta lagi fór fólk út í fjárfestingar sínar í þeirri trú að Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn hefði stjórn á stöðunni.  Í öðru lagi gat það á engan hátt reiknað með því að Seðlabanki Íslands væri vanhæfur til að kljást við lausafjárkreppuna, fyrir utan að ekki var hægt að ætlast til að almennir borgarar gætu gert sér grein fyrir afleiðingum þeirrar kreppu.  Í þriðja lagi datt engum í hug að Seðlabanki Íslands væri gjörsamlega ófær um að verja gengi íslensku krónunnar.  Ég átti sjálfur von á að gengisvísitalan myndi líklegast hækka í 125-130, enda var það í samræmi við spá greiningadeilda og Seðlabankans, en að gengisvísitala hækkað fyrst í 150 á örfáum dögum í mars og síðan í 183 á örfáum dögum í september er verra en nokkrum lántakanda gat dottið í hug.  Það er því ekki hægt að kenna lántakendum um óábyrgar lántökur.  Þeir sem áttu að tryggja stöðugt gengi brugðust og það er tími til kominn að þessir aðilar, þ.e. Seðlabanki og ríkisstjórn, sýni að þeir séu starfi sínu vaxnir eða segi af sér ella.

Frétt sem bloggað er við:  Sameiginleg ákvörðun landanna

Fátt sem kemur á óvart

Það var alveg fyrirséð að ársverðbólgan myndi lækka milli ágúst og september.  Að lækkunin hafi ekki orðið meiri er viss vonbrigði, en því veldur fyrst og fremst veiking krónunnar.  Greinilegt er að menn eru að taka lækkun krónunnar í meira mæli inn í nýjar vörur að loknum útsölum en gert hafði verið áður en útsölur hófust.  Síðan er spurning að hve miklu leiti lækkun krónunnar fyrstu dagana í september eru að spila inn í þetta.

Núna er það að gerast í fyrsta skipti í mörg ár að húsnæðisliður vísitölunnar er að hafa veruleg áhrif til lækkunar.  Ræður þar mest markaðsverðið, en vert er að rifja upp á veruleg hækkun varð á byggingavísitölu í síðustu mælingu.

Þessi lækkun á ársverðbólgu milli talna í ágúst og september kemur, eins og áður segir, ekki á óvart,  Ástæðan er, líkt og ég hef bent á í fyrri færslum, að vísitala neysluverðs hækkaði frekar mikið milli ágúst og september 2007 eða um 1,32% borið saman við 0,86% núna.  Mælingarnar eru ekki alveg samanburðarhæfar, þar sem mælingin í fyrra var gerð hálfum mánuði fyrr.  Nú ef við leiðréttum síðan mælinguna með tilliti til þess að ársverðbólga upp á 14% er raunar 54 vikna verðbólga en ekki 52 vikna, þá kemur í ljós að ársverðbólga frá 15. september 2007 til 15. september 2008 er nokkuð nálægt því að vera 13,7%. (Fundið með því að nota bara helming af vísitölu hækkun milli september og október 2007.)

En þetta eru góðu fréttirnar.  Nú koma þær slæmu.  Þar sem krónan hefur verið að taka dýfu það sem af er september, þá má búast við áhrifum af því í næstu verðbólgumælingu.  Hækkun gengisvísitölunnar er orðin 14% frá 1. september.  Bara svo fólk átti sig á því, þá olli 18% gengislækkun frá 1. mars fram að páskum því að verðbólga milli mars og apríl mældist 3,4%.  Ef við gerum ráð fyrir að 14% gengislækkun á sama tíma í september valdi hlutfallslega jafnmikilli verðbólgu milli september og október, þá verður hún um 2,6%.  Það þýðir að ársverðbólga í október mun mælast yfir 16%.  Ef við höldum áfram og notum verðbólgutölur frá maí og júní fyrir nóvember og desember, þá verður ársverðbólga í nóvember rúm 17% og sambærilegar tölur fyrir desember og janúar verða um 17,5% og 18,3%.  Nú segir örugglega einhver að gengið lækki ekki mikið úr þessu, en höfum það í huga að frá 23.3. til 6.7. þá var vissulega mikið flökt á krónunni, en upphafsgengið og lokagengið var nánast það sama.  Raunar lækkaði gengið ekki nema um 1,24% frá 23.3. til 1.9., eins og áður var bent á.  Þannig að þó svo að krónan veikist ekkert frekar, þá er útlit fyrir yfir 18% verðbólgu.  Taki gengið upp á því að styrkjast verulega á næstu dögum, þá getur verið að gengisbreytingin rati ekki inn í vöruverð og við sleppum með skrekkinn.

Frétt sem bloggað er við:  Verðbólgan 14%

Hækkun gengisvísitölu er 50% það sem af er ári

Þau stórmerku tímamót urðu í dag, að gengisvísitalan lokaði í yfir 180 stigum.  Það sem meira er að hækkun vísitölunnar það sem af er árinu er komin yfir fimmtíu af hundraði.  Þetta þýðir að það sem kostaði okkur 2 krónur í ársbyrjun kostar núna 3 krónur.  Til að setja þetta í samhengi þá er hér fyrir neðan gengi nokkurra gjaldmiðla samkvæmt miðgengi hjá Glitni 1. janúar sl. og síðan við lok útsölumarkaðar Seðlabankans í dag.

Gengi   1.1.2008  23.9.2008  Mismunur

EUR       91,65       139,31        52,00%

USD       62,32       94,69        51,94%

CHF       56,46       87,46        54,91%

CAD       62,68       91,43        45,87%

NOK       11,55        16,95         46,79%

JPY        0,5687      0,8947     57,32%

GVT       120,5         181,4         50,54%

Svona með fullri virðingu fyrir því að ástandið á alþjóðafjármálamörkuðum sé skelfilegt, en sýnir þetta ekki augljóslega hvað peningamálastjórn Seðlabanka Íslands og hagstjórn ríkisstjórnar Íslands hafa gjörsamlega brugðist.  Þetta er svo fáránlegt, að menn eru komnir yfir það að bölsótast út í fall krónunnar og eru komnir yfir í hysterískan hlátur.

Afleiðing af þessu, er að þeir sem skulduðu í upphafi árs kr. 10 milljónir í myntkröfu með blöndu af  ofangreindum myntum, skulda núna kr. 15.054.000.  Greiðslubyrði lánsins sem var segjum kr. 100.000 á mánuði í byrjun janúar er komin í kr. 150.000 að viðbættu því að vextir sem voru 6% í janúar eru komnir í 9 og upp í 12% núna.

Á meðan þessu fer fram tjáir forsætisráðherra sig bara í drottningarviðtölum á Íslandi eða við erlenda blaðamenn sem vita ekki hvers á að spyrja.  Seðlabankastjóri stingur úfnum hausnum fram við og við og kennir öllum um nema sjálfum sér.  Efnahagsráðgjafi er ráðinn, en hann er bara að skoða málin.  Er einhver til í að gefa sig fram sem getur gert eitthvað?

Það eru nærri því 7 mánuðir síðan að krónudallurinn fór að taka á sig sjó.  Á þessum tíma hafa ríkisstjórn og Seðlabanki örfáum sinnum reynt að dæla upp úr dallinum, en síðan tekið sér góða pásu enda vafalaust dauðuppgefnir á puðinu og gjörsamlega úrræðalausir.  Nú er svo komið að allar lestar eru fullar af vatni og flestar vistarverur líka.  Farið er að flæða langt upp á aðalvélina og styttist í að hún fari í kaf.  Ef ekki verður byrjað fljótlega að dæla með öflugum dælum, þá sekkur bévítans dallurinn.  Hvaða skipstjóri léti svona lagað ganga yfir dallinn sinn?  Enginn, en meðan á þessu stendur er forsætisráðherra í felum og seðlabankastjóri í hnútakasti.  Er það nema von að trúverðugleiki þeirra sé enginn.

Ég spáði því í vor að verðbólga gæti í versta falli farið í 18-20% á haustmánuðum, en aldrei lægra en 14% síðsumars.  Um daginn hélt ég að verðbólgutoppnum væri náð, en nú er ég ekki viss.  Mér sýnist að þetta síðast hrap krónunnar gæti orðið til þess að verðbólga í október gæti numið tæplega 15% og síðan fari hún yfir 15% í nóvember.  Hressist krónan ekki verulega á næstu vikum, þá kemur fátt í veg fyrir þessa þróun.

 

Lokagildi gengisvísitölu í fyrsta skipti hærra en 180 stig

Sökudólgurinn fundinn! Er það?

Jæja, nú er leitin af sökudólginum hafin og menn ætla að einblína á afleiðurnar.  En eru afleiðurnar ekki saklausar í sjálfu sér meðan menn skilja eðli þeirra og afleiðingar.  Er það ekki miklu frekur vandamálið, að menn bjuggu til svo miklar flækjur að enginn vissi í raun hvaða verðmæti stóðu á bak við flækjuna.  Þegar einhverjum tókst að búa til pening úr svona flækju, þá reyndu aðrir að búa til ennþá meiri flækju.  Að lokum höfðu menn ekki hugmynd um hvort flækjan var í plús eða mínus.  Þeir einstaklingar sem sáu um áhættustjórnun hjá fjármálafyrirtækjunum féllu á prófinu.

Undirmálslánavafningarnir eru skýrasta dæmið um þetta.  Menn hentu þar saman alls konar lánum með mismunandi áhættuvægi til þess eins að rugla kaupanda vafningsins.  Kaldhæðnin í þessu var síðan að sá aðili, sem átti að meta þessa vafninga, þ.e. matsfyrirtækin, tók þátt í því að blekkja kaupendurna með því að ráðleggja seljandanum um að hvernig væri hægt að gera vafasama pappíra minna vafasama. 

Það er eins og menn hafi gleymt þeirri grundvallarhugsun í áhættustjórnun, að maður byggir ekki örugga byggingu á undirstöðu þar sem sumir hlutar hennar eru í lagi og aðrir í molum. Kannski er þessi samlíking ekki alveg sanngjörn, þar sem flest bendir til þess að grunnvarningurinn hafi verið traustur, þ.e. það sem við getum kallað "frum-afleiður".  Vandamálið er því líklega frekar eins og með World Trade Center.   "Árás" á undirstöðurnar var hrundið, en með "árás" ofar í vafningakeðjunni, þá tókst að koma af stað keðjuverkun sem varð til þess að allt hrundi.  (Ég nota "árás", þó alsendis sé óvíst að nokkuð hafi verið um árás að ræða.  Frekar ætti að tala um galla eða svikna vöru.)

Matsfyrirtæki hafa þegið háar þóknanir fyrir að meta svona vafninga í eignasöfnum fyrirtækja.  Það er alveg ljóst í mínum huga að ábyrgð þeirra er mikil.  Raunar hef ég áður gengið svo langt að segja að þau hafi ekki verið starfi sínu vaxin.  (Fyrir utan að sýna gróflega vanhæfni með því skilja ekki á milli ólíkra starfsþátta, þ.e. ráðgjafar, sölu og mats.)  Það tekur því kannski ekki að hegna matsfyrirtækjunum fyrir afglöp sín. Einhver verður að halda hlutverki þeirra áfram og það er líklegast alveg eins gott að þessi þrjú fyrirtæki haldi því áfram, eins og að þau séu gerð gjaldþrota og ný matsfyrirtæki rísi úr ösku þeirra. Það yrði hvort eð er sama fólkið sem færi til starfa hjá hinum nýju fyrirtækjum.  (Innihaldið er það sama, þó skipt sé um umbúðir.)

Það er mín skoðun, að ef matsfyrirtækin hefðu staðið sig í stykkinu, þá hefðu þau aldrei samþykkt sífellt flóknari afleiðusamninga og vafninga.  Þau hefðu lækkað slíka pappíra í einkunn eftir því sem flækjustig þeirra hefði aukist.  Enn og aftur er ég bara að líta á þetta út frá grundvallarreglu áhættustjórnunar, en þar er ein sem segir, að eftir því sem fleiri hreyfanlegir hlutir eru í vél, þá aukast líkurnar á því að hún bili.  Fleiri umbúðir og þykkari kassi breyta því ekki neitt.  Það er mechanisminn sem ræður því hvort bilun verður.  Þetta á líka við um fjármálavafninga.  Það er því alveg sama hvað menn verða duglegir að finna vörur og þjónustur sem klikkuðu, sbr. fréttaskýring mbl.is, þetta snýst allt um áhættustjórnun og hún klikkaði.  Hún klikkaði m.a. vegna þess að menn treystu matsfyrirtækjunum og ekki síður vegna þess að menn skildu ekki hvað þeir voru með í höndunum. Áhættulíkönin gefa eingöngu rétta niðurstöðu, ef inn í þau fara réttar upplýsingar og stillingar þeirra eru réttar.  Hér brást greinilega þetta tvennt, þ.e. einkunnir matsfyrirtækjanna voru rangar og stillingar sem endurspegla áttu stigmögnun vandans virðast hafa verið rangar.  Afleiðurnar sjálfar gerðu ekkert af sér.  Að kenna þeim um, er eins og að kenna hraðskreiðum bíl um að maður hafi verið tekinn fyrir of hraðan akstur.  Það var áhættustjórnunin sem brást vegna þess að treyst var í blindni á matsfyrirtækin.  Rubbish in - rubbish out.  Svo einfalt er það.

Frétt sem bloggað er við:  Fréttaskýring: Afleiðurnar undirrót bankahrunsins?

Ákvörðunin kemur ekki á óvart

Ákvörðun Seðlabankans um að breyta ekki stýrivöxtum kemur ekki á óvart.  Ég spáði þessu í færslu minni í sumar (sjá Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?) og fyrir hálfum mánuði (sjá Glitnir breytir stýrivaxtaspá).  Í síðari færslunni færði ég rök fyrir því að raunstýrivextir væru í raun hálfu prósentu hærri en mismunurinn á verðbólgu og stýrivöxtum gæfi til kynna, þar sem 12 mánaða verðbólgutölur næðu í raun og veru yfir 54 vikur en ekki 52 eins og þær ættu að mæla.  Ársverðbólgan væri því í raun og veru 14%, ekki 14,5% eins og Hagstofan segir.

En aftur að ákvörðun Seðlabanka.  Miðað við upplýsingar sem ég hef safnað um stýrivexti og verðbólgu frá 1994 til dagsins í dag, þá hafa raunstýrivextir (þ.e. munurinn á stýrivöxtum og verðbólgu) aðeins á einu tímabili farið niður fyrir 2%.  Þetta gerðist frá nóvember 2001 fram að vaxtaákvörðun í apríl 2002.  Ýmislegt er líkt með þessu tímabili og núverandi aðstæðum, þ.e. þá eins og nú varð veruleg, skyndileg lækkun krónunnar.  Í báðum tilfellum hækkaði gengisvísitalan snöggt um 30 punkta og sveig síðan um 10-15 í viðbót.  Í báðum tilfellum hefur gengisvísitalan náð tímabundnu jafnvægi langt fyrir ofan gamla jafnvægið.  Í báðum tilfellum hefur fylgt mikil verðbólga. Og í báðum tilfellum hafði Seðlabankinn lækkað stýrivexti talsvert nokkrum mánuðum áður en krónan féll.  Lýkur þar samanburðinum.  En ef við getum notað fortíðina til að spá fyrir um framtíðina, þá gæti þrennt gerst á næstu mánuðum:

 1. Verðbólgan lækkar hratt frá janúar 2009 fram í júlí
 2. Stýrivextir lækka hratt allt næsta ár
 3. Krónan styrkist verulega frá nóvember 2008 fram í apríl/maí 2009

Greinendur eru nokkuð sammála um að atriði 1 og 2 eiga eftir að ganga eftir, en þetta með styrkingu krónunnar er í meiri óvissu.  Ekki það, að krónan mun örugglega styrkjast.  Spurningin er bara hvenær það styrkingarferli hefst og hve mikið hún muni styrkjast.  Ef aftur er leitað til sögunnar, þá tók það krónuna síðast sjö mánuði að ná lægstu stöðu.  Það tók krónuna síðan 6 mánuði að vinna til baka helminginn af veikingunni.  Gerist þetta líka núna, þá þurfum við í fyrsta lagi að bíða fram í október eftir að sjá toppinn á gengisvísitölunni, sem gæti þá verið í 175 eða svo, og styrkingin verður varla meiri en svo að gengisvísitalan í apríl/maí 2009 verður eitthvað á bilinu 145 til 150.  Hafi toppinum aftur verið náð í gær, þegar gengisvísitalan skreið tímabundið upp fyrir 170, þá gætum við verið að horfa á gengisvísitölu upp á 140 - 145 í apríl/maí á næsta ári.  En eins og sagt er um ávöxtun:  Ávöxtun í fortíð tryggir ekki sambærilega ávöxtun í framtíð.  Hún getur bara gefið vísbendingar um þróunina.  Það sama á við um gengið og verðbólguna.  Málið er bara, að ótrúlega margt er líkt í hegðun gengis og verðbólgu síðustu mánuði og var á sama tíma árs 2001.

Frétt sem bloggað er við:  Stýrivextir áfram 15,5%

Neikvæður viðskiptajöfnuður, Jöklabréf eða lok ársfjórðungs?

Krónan hefur lækkað verulega undanfarna daga og í dag eru hún í frjálsu falli.  Þetta lækkunarferli hófst þegar Seðlabankinn kynnti tölur um viðskiptajöfnuð.  Það er furðulegt ef 2 mánaða gamlar upplýsingar séu að hafa áhrif á krónuna sérstaklega þegar skekkjuliður upp á 185 milljarðar er þarna inni af 117 milljarða neikvæðum viðskiptajöfnuði.  Þetta gengur ekki upp.  Það er eins og Seðlabankinn sé að missa tiltrú markaðsaðila og þeir veiti bankanum því ekki nauðsynlegar upplýsingar eða að menn skammist sín svo fyrir tölur sínar að þeir vilji að þær fari inn í hagtölur.

Á móti kemur að stórir gjalddagar Jöklabréfa er á næstu vikum, 18 milljarðar í næstu viku einni, og það gæti einnig haft áhrif.  18 milljarðar er svo sem ekki há upphæð og ætti ekki að skipta neinu sem nemur.

Síðasta atriðið, sem maður getur ekki annað en velt fyrir sér, er að nú fer að styttast í að 3. ársfjórðungur sé á enda. Við sáum bæði í mars og júní verulega lækkun á gengi krónunnar og því ekki ólíklegt að það endurtaki sig.  Í framhaldi af því komu síðan ótrúleg uppgjör bankanna.  Ef þetta er að endurtaka sig, þá getum við gert ráð fyrir að gengisvísitalan fari vel upp fyrir 170 á næstu 10 dögum áður en hún styrkist aftur síðustu viku mánaðarins.

Fréttin sem bloggað er við: Krónan veikist um 2,44%

Treysta lífeyrissjóðir á verðtryggingu?

Það var stutt viðtal við Vilhjálm Bjarnason í fréttum Stöðvar 2 í kvöld í tilefni niðurstöðu skoðunarkönnunar um afstöðu landsmanna til verðtryggingar.  Þar kastaði Vilhjálmur fram gamalli klisju um að nauðsynlegt væri að halda í verðtrygginguna vegna lífeyrissjóðanna.  Mér finnst þetta svo furðuleg staðhæfing hjá Vilhjálmi, að ég get ekki orðabundist.

Það er tóm steypa að lífeyrissjóðirnir treysti á verðtryggingu.  Það þarf ekki annað en að skoða eignasafn sjóðanna til að sjá, að verðtryggð skuldabréf eru almennt undir 50% af eignum sjóðanna og oft mun minna.  Þrír stærstu sjóðirnir eru (samkvæmt vef Landssamtaka lífeyrissjóða):

1.  Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er stærstur með eignir upp á 317 milljarða um síðustu áramót eða 18,8% af eignum lífeyrissjóðanna.  Eignasafn LSR skiptist þannig:

 • Ríkistryggð bréf 15,6%
 • Skuldabréf lánastofnana 8.6%
 • Skuldabréf sveitarfélaga 4,9%
 • Skuldabréf fyrirtækja 9,8%
 • Sjóðfélagalán 13,9%
 • Erlend skuldabréf 2,6%
 • Innlend hlutabréf 15,9%
 • Erlend hlutabréf 27,0%
 • Ýmsir sjóðir 1,7%31

Af þessum eignum eru 47,2% alveg örugglega ekki verðtryggð.  Óljóst er hve stór hluti hinna 52,8% eru verðtryggð, en reikna má með að það sé jafnvel innan við 40%.

2.  Lífeyrissjóður verslunarmanna (Live) er næst stærstur með eignir upp á 269 milljarða 31.12.2007 eða 15,9% eigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Live skiptist sem hér segir:

 • Sjóðfélagalán  9,2%
 • Íbúðabréf 27,0%
 • Bankar og sparisjóðir 3,7%
 • Fyrirtæki 2,6%
 • Innlend hlutabréf 37,0%
 • Erlend verðbréf 20,3%
 • Annað 0,2%

Hér er a.m.k. 57,3% óverðtryggt, en 36,2% alveg örugglega verðtryggð.

3. Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti sjóðurinn með eignir upp á rúmar 238 milljarða í árslok 2007 eða 14,1% heildareigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Gildis skiptist sem hér segir: 

 • Erlend hlutabréf 21,1%
 • Framtaks- og fasteignasjóðir 4,2%
 • Vogunarsjóðir 2,9%
 • Innlend hlutabréf 22,3%
 • Ríkistryggð bréf 25,6%
 • Skuldabréf fyrirtækja 8,3%
 • Skuldabréf banka og sparisjóða 4,7%
 • Veðskuldabréf 4,7%
 • Skuldabréf sveitarfélaga 2,9%
 • Önnur skuldabréf 3,3%

Aftur getum við sagt til hve stór hluti er örugglega óverðtryggður, þ.e. 51,2%, en ekki er vitað hve stór hluti af restinni er verðtryggður.

Hér höfum við 3 stærstu sjóðina, en heildareign þeirra jafngildir 48,76% af heildareignum allra lífeyrissjóða landsins um síðustu áramót. Samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu þessara sjóða voru a.m.k. 51,65% af heildareignum þeirra óverðtryggðar.  Miðað við þetta, hvernig getur Vilhjálmur Bjarnason komið í fjölmiðla og fullyrt að lífeyrissjóðirnir treysti á verðtryggingu?  Vissulega er lífeyririnn verðtryggður, en það hefur hvorki hindrað lífeyrissjóði í að hækka eða lækka áunnin réttindi sjóðfélaga.  Þessi breyting til hækkunar eða lækkunar hefur yfirleitt verið vegna þess að óverðtryggði hluti eigna sjóðanna hefur hækkað/lækkað umfram verðbólgu. Það mun halda áfram að gerast.

Að lífeyrir sé verðtryggður breytist ekkert, þó hætt verði að bjóða verðtryggð lán.  Það er ekki ætlunin að hætta að mæla breytingar á vísitölu neysluverðs.  Það sem breytist er að lántakendur þurfa að greiða verðbólguna strax í áföllnum vöxtum (þegar um breytilega vexti er að ræða) í staðinn fyrir að verðbætur bætist ofan á höfuðstól.  Verðtrygging er ekkert annað en breytilegir vextir sem bætast á höfuðstól lána í staðinn fyrir að lántakandinn greiði þá jafnóðum.  Það er ekkert því til fyrirstöðu að halda því fyrirkomulagi áfram, ef menn vilja (sem ég efast um), þ.e. að láta hluta breytilegra vaxta breyta höfuðstól lána. 

Þó svo að bannað verði að verðtryggja lán til einstaklinga (sem ég býst við að sé það fólk er að tala um), þá er ekki þar með sagt að öll verðtryggð lán fari út af markaðnum. Það má heldur ekki gleyma því að mjög mikið magn af verðtryggðum lánum er á markaðnum.  Meðan að þeim er ekki skuldbreytt eða þau greidd upp, þá verða þau til staðar.  Um síðustu áramót vógu slík lán eitthvað á milli 30 og 40% af heildareignum lífeyrissjóðanna.  Að þetta hlutfall lækki þarf ekki að vera slæmt, þar sem óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum hafa undanfarin ár verið að gefa mjög góða ávöxtun.  Margir bankar eru í dag að bjóða lán með yfir 20% breytilegum vöxtum.  Það eru 5,5% raunvextir, sem varla telst slæm ávöxtun.

Ég held að þessar áhyggjur Vilhjálms Bjarnasonar af afkomu lífeyrissjóðanna séu óþarfar.  Ég hef rætt við það marga hjá sjóðunum sem sjá um fjárfestingar fyrir sjóðina, til að vita, að þeir spjara sig alveg án verðtryggingarinnar.  Raunar, ef litið er til síðustu ára, þá er stór hluti raunávöxtunar sjóðanna til kominn vegna fjárfestinga í óverðtryggðum pappírum.

Annars held ég að fréttastofa Stöðvar 2 ætti bara að snúa sér til Árna Guðmundssonar hjá Gildi, Þorgeirs Eyjólfssonar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Hauks Hafsteinssonar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og spyrja þá út í þessa fullyrðingu Vilhjálms.  Það kæmi mér verulega á óvart, ef þeir tækju undir hana.

Glitnir breytir stýrivaxtaspá

Ég get ekki annað en haft gaman af þessari breyttu spá Glitnis.  Það er nefnilega ekki nema mánuður síðan að greiningardeild bankans gerði ráð fyrir að Seðlabankinn myndi lækka stýrivexti 6. nóv.  Það er líka mánuður síðan að ég birti mína spá um þróun stýrivaxta (sjá Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?), þar sem ég spáði því að bara út frá verðbólguspá væri ólíklegt að Seðlabankinn hæfi lækkunarferlið fyrr en í desember.  Seðlabankinn hefur sjálfur gefið út að lækkunarferlið hefjist ekki fyrr en á næsta ári.

Þetta veltur í mínum huga allt á spurningunni sem ég spurði færslu minni, sem ég vísa í hér að ofan.  Þ.e. hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?  Meðan Seðlabankinn svarar ekki þeirri spurningu á skýran hátt, þá er ekkert hægt að segja til um hvenær þær aðstæður hafa skapast í þjóðfélaginu að Seðlabankanum finnist tímabært að lækka stýrivextina. 

Vissulega veltur þetta mikið á verðbólgutölum næstu tveggja mánaða.  Eins og ég sagði í færslu minni í gær, þá er talsverð óvissa um hvort áhrif af útsölulokum séu að fullu komin fram í vísitölu neysluverðs.  Greiningardeildir bankann eru ekki sammála um þetta.  Glitnir telur svo ekki vera, meðan Landsbankinn er fullur bjartsýni.  Sjálfur tel ég að þessi áhrif séu að stærstum hluta komin fram, en set vikmörk í mínar tölur.

Mig langar að skoða aðeins verðbólguspá Glitnis fyrir næsta mánuð, þ.e. breytingu vísitölu neysluverðs milli ágúst og september.  Greining Glitnis spáir því (samkvæmt frétt mbl.is í gær) "að vísitala neysluverðs hækki hraustlega á milli mánaða", en einnig var haft eftir starfsmanni Greiningar Glitnis í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að verðbólgutoppnum yrði náð í september. Þetta er ákaflega forvitnileg staðhæfing og mér finnst hún raunar óraunhæf.  Ástæðan fyrir því er einföld.  Verðbólga í september í fyrra var 1,3% (þ.e. breyting milli mælinga í ágústbyrjun og septemberbyrjun). Til þess að ársverðbólga í september í ár verði meiri en í september í fyrra, þá þarf breytingin á vísitölu neysluverðs milli ágúst og september í ár að vera meiri en 1,3%.  Það verður að teljast mjög ólíklegt (þó það sé vissulega ekki útilokað).

Loks langar mig að varpa fram þeirri spurningu hvort rétt sé mælt og þá með tilvísun til ársverðbólgu.  Ástæðan fyrir því að ég spyr er að um áramót var gerð breyting á vísitölumælingu sem gerir það að verkum að tölur yfir ársverðbólgu ná í raun yfir 54 vikur, en ekki 52 vikur.  Það skiptir kannski ekki megin máli, þar sem þetta leiðréttist í janúar, en samt.  Ársverðbólgan sem núna mælist er sem sagt 54 vikna verðbólga.  Sé hún leiðrétt miðað við 52 vikur, þá kemur í ljós að vísitöluhækkunin myndi mælast tæp 14%, ef notuð er einföld stærðfræði, þ.e. 14,5/54*52.  Sé aftur aðeins talin með helmingurinn af vístöluhækkuninni milli júlí og ágúst, þá rétt slefar ársverðbólgan yfir 14%.  En af hverju skiptir þetta máli?  Jú, með þessari mælingu, þá eru raunstýrivextir 1,5% í stað 1%.  Með þessari mælingu minnkar þrýstingur á Seðlabankann að hækka stýrivexti, sem annars væri mjög freistandi. Niðurstaðan er samt sú að ársverðbólgan er "bara" 14%, ekki 14,5%.

Frétt sem bloggað er við:  Spá óbreyttum stýrivöxtum út árið

Bankarnir bjóði upp á frystingu lána

Í síðustu viku hóf Íbúðalánasjóður að bjóða þeim, sem hafa keypt húsnæði eða eru að byggja og eiga í vandræðum með að selja, upp á að frysta afborganir lána.  Samkvæmt fréttum, þá hafa hrúgast inn umsóknir hjá sjóðnum.  Nú er spurningin hvort bankarnir eigi ekki að bjóða upp á þetta líka.

Eins og staðan er á fasteignamarkaðnum, þá gengur mjög illa að selja.  Ég veit ekki hvort það er vegna þess að kaupendur átta sig ekki á þeim lánamöguleikum sem eru á markaðnum, sé að bíða af sér verðbólgustorminn eða eftir því að verð lækki.  Ég á ekki von á því að nafnverð lækki mikið, í mesta lagi um fáeinar prósentur, þannig að lækkunin verður líklegast í gegnum raunlækkun vegna verðbólgu.  Það er ákveðin skynsemi í því að bíða þar til verðbólgukúfurinn er genginn hjá, en hafa verður í huga að lán eru uppreiknuð miðað við afhendingardag, þannig að verðbólga næstu mánaða mun að öllum líkindum lenda á seljendum.  Þá er það með lánamöguleikana.

Í hverjum mánuði renna 12% af andvirði launa landsmanna til lífeyrissjóðanna í formi iðgjalda.  Þetta eru gríðarlega háar tölur. Lífeyrissjóðunum er í mun að koma þessum peningum í vinnu fyrir sjóðfélaga sína.  Það er eins og fólk hafi yfirsést það undanfarna mánuði, að lífeyrissjóðirnir eiga ekki bara fullt af peningum heldur eru vaxtakjör þeirra mjög vel viðunandi.  Vissulega er þeir með lægri mörk en bankarnir, en 65% veðhlutfall er nú nokkuð þokkalegt.

En aftur að bönkunum.  Vanskil eru farin að aukast.  Það sést m.a. á því að fjármálafyrirtæki eru farin að leggja fyrir á afskriftarreikninga.  Samkvæmt uppgjöri VBS, þá er hægt að rekja allt tap fyrirtækisins og rúmlega það til fyrirbyggjandi aðgerða m.a. vegna hugsanlegra afskrifta (varúðarfærsla vegna hugsanlegrar virðisrýrnunar útlána).  Það er sem sagt ekki byrjað að afskrifa neitt að ráði, heldur er verið að færa á reikning það sem hugsanlega þarf að afskrifa eða fer í vanskil á næstu mánuðum.  Eins og staðan er í þjóðfélaginu, þá mun þetta bara aukast. 

Fjölmargir einstaklingar eru með gengisbundin bílalán sem hafa hækkað langt umfram verðmæti bílanna.  Sum þessara lána eru orðin það þung í greiðslu, að fólk á í erfiðleikum með að standa í skilum.  Aðrir eru með húsnæðislán þar sem greiðslubyrðin hefur einnig aukist mjög mikið.  Í báðum tilfellum er ég nokkuð viss um að fólk vill standa í skilum, en það er við ramman reip að draga.  Það stefnir allt í að með krónuna jafn lágt skráða og raun ber vitni, að þessi lán fari í vanskil.  Ein leið út úr þess er að taka ný lán, en sú leið virðist heldur torsótt.  Önnur er að reyna að selja, en hvort heldur að það eru bílar eða fasteignir, þá er nærri því frost á markaðnum.  Þá er það þriðji kosturinn, en hann er að bankarnir bjóði sama kost og Íbúðalánasjóður, þ.e. bjóði fólki að frysta afborganir í 6 - 12 mánuði.  Þetta er hugsanlega ekki hægt, en hver er hinn kosturinn.  Að innkalla lánin og ganga að veðunum.  Eru bankarnir eitthvað betur settir með að eiga 50, 100, 200 eða þess vegna 500 eðalvagna og einbýlishús úti um hvippinn og hvappinn sem þeir koma ekki í verð.  Er ekki betra að koma til móts við lántakendur og gefa þeim svigrúm með því að fresta afborgunum á svipaðan hátt og Íbúðalánasjóður gerir.  Ég geri mér grein fyrir að bankarnir reikna með þessum peningum inn í veltuna, en komi til mikilla vanskila, þá gæti það litið illa út í efnahagsreikningi þeirra.

Hvað geta Seðlabankinn og ríkisstjórnin gert?

Í athugasemd við innlegg mitt Ekki á að bjarga þeim sem "fóru of geyst", en hvað með hina? spyr Sumarliði Daðason mig að því hvort ég hafi einhverjar "tillögur um hvað þarf að gera til að losa okkur undan ábyrgðarleysi Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar".  Ég kýs nú að líta framhjá þeim hluta sem snýr að ábyrgðarleysinu, en langar að leggja fram mínar tillögur um hvað er hægt (og jafnvel nauðsynlegt) að gera og hvers vegna ég held að óhætt sé að fara út í slíkar aðgerðir.

Svo virðist sem vandamál íslensku bankanna sé að þeir hafi ekki nægan aðgang að lausafé á góðum kjörum, hvort heldur í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.  Þetta verður svo til þess að þeir hafa takmarkaða getu til að bjóða viðskiptavinum sínum lánsfé á góðum kjörum.  Fyrir þessu virðast vera nokkrar ástæður.  Hér innanlands hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti mjög mikið, þó að færa megi rök fyrir því að hann hafi haldið aftur af sér síðustu mánuði. Og varðandi gjaldeyri, þá virðist helst sem menn séu mjög hræddir við að láta of mikinn gjaldeyri frá sér, þar sem: a) það gæti haft áhrif á lánshæfimat þeirra og lánakjör, b) aðgengi þeirra að erlendu fjármagni til endurláns er takmarkað nema á mjög óhagstæðum kjörum eða c) að menn eru að reyna að ná inn sem hæstum vöxtum.

Það er tvennt sem ég tel að Seðlabankinn og/eða ríkisstjórnin þurfa að gera.  Hvorugt er líklegast eftir bókinni samkvæmt hagfræðikenningum, en það virðist hvort eð er ekkert fylgja hagfræðikenningum um þessar mundir.  Bæði atriðin standa upp á Seðlabankann, þó annað verði ekki gert nema með aðkomu ríkisstjórnarinnar.  Fyrra er að Seðlabankinn verður að lækka stýrivexti strax um nokkur prósent.  Hitt er að Seðlabankinn/ríkisstjórnin taki erlent lán sem endurlánað verði til íslensku bankanna á góðum kjörum, þess vegna á lægri vöxtum en Seðlabankinn greiðir, gegn því að þau kjör skili sér til viðskiptavina bankanna.

Stýrivextir eru almennt notaðir til að slá á þenslu og verðbólgu sem er samfara henni.  Með því að hækka þá er reynt að draga úr eftirspurn eftir lánsfé.  Gallinn við íslensku stýrivextina er að þeir ná bara til hluta útlána. Af þeim sökum virðast þeir ekki virka á sama hátt og stýrivextir í öðrum löndum.  Augljós ástæða er að stýrivextir hafa ekki áhrif á vexti verðtryggðra útlána, en það er líka önnur ástæða.  Hún er að vaxtastig er almennt hátt hér á landi.  Samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabankans yfir stýrivexti frá janúar 1994, þá hafa stýrivextir aldrei farið niður fyrir 5,2% á þessu tímabili.  Í flestum nágrannalöndum okkar þykja 5% stýrivextir vera mjög háir og menn veigra sér við að hækka þá svo mikið.  En það er fleira.  Raunstýrivextir hafa í rúmlega 70% tímans verið meira en 4%, þar af ríflega 27% tímans verið meira en 6%.  Þar til krónan féll í mars, þá höfðu raunstýrivextir verið yfir 5% samfellt frá því í september 2006, þar af langtímum saman yfir 8%. (Raunar fóru þeir lægst í 6,28%, en á miðju tímabilinu var aðferð við birtingu stýrivaxta breytt, sem gerir það að verkum að fyrri hluta tímabilsins voru stýrivextir sýndir hærri en á síðari hluta tímabilsins.)  Þrátt fyrir þessa ótrúlega háu raunstýrivexti, þá er núna hæsta verðbólga sem mælst hefur hér á landi í 18 ár.  Ég spyr bara:  Hvernig getur nokkur maður sagt að svona háir raunstýrivextir hafi slegið á verðbólguna?  Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að þessir háu raunstýrivextir hafi í reynd lagt grunninn að hárri verðbólgu í staðinn fyrir að hamla gegn henni.

Það er svo merkilegt, að síðustu tvö skipti þegar verðbólga toppaði, þ.e. í framhaldi af því að krónan var sett á flot ári 2001 og kjölfar veikingar krónunnar á vormánuðum 2006, þá höfðu (raun)stýrivextir líka verið háir í langan tíma á undan.  Í bæði þessi skipti, eins og nú, var það innflutt verðbólga, þ.e. sem kom í framhaldi af snöggri veikingu krónunnar, sem orsakaði þau verðbólguskot sem þá urðu.  Þetta er einkennileg tilviljun.  Þrjú verðbólguskot sem öll verða eftir langt tímabil hárra (raun)stýrivaxta.  Hvað segir þetta mönnum?  Fyrir mér sem leikmanni, þá lítur út fyrir að háir stýrivextir séu orsök verðbólguskotanna, en ekki lækning við þeim.  Háir stýrivextir verða til þess að krónan styrkist óþarflega og síðan brestur eitthvað haft.  Ekki ósvipað hlaupi í jökulsá.  Þar sem öll verðbólguskot hafa þann eiginleika að ganga niður, þá eru menn náttúrulega alveg vissir um að það sé stýrivöxtunum að þakka, þegar ástæðan er einfaldlega sú að búið var að tæma ketilinn þar sem vatnið safnaðist fyrir.

Ég get alveg skilið þá grundvallarreglu Seðlabankans að vilja ekki hafa neikvæða stýrivexti á ársgrundvelli.  En miðað við það sem ég hef sagt, þá virðast stýrivextir ekki hafa haft nokkur merkjanleg áhrif á verðbólgu hér á landi frá því um aldamót.  Að minnsta kosti hafa þeir ekki komið í veg fyrir verðbólguskot sem eru langt umfram þá verðbólgu sem var, þegar hækkun stýrivaxtanna hófst.  Ástæðan virðist vera að hækkun stýrivaxta hefur alltaf í för með sér styrkingu krónunnar, þar til kemur að þeim vendipunkti að krónan stendur ekki undir styrkingu sinni.  Bang, hún fellur og verðbólgan heldur innreið sína.  Miðað við þetta, þá er löngu orðið tímabært að Seðlabankinn endurskoði þær aðferðir sem hann notar við ákvörðun stýrivaxta og að lágmarki dragi verulega úr raunstigi stýrivaxta. 

Þegar krónan féll skarpt árið 2001, þ.e. í fjölfar þess að krónan hafði verið sett á flot, var verðbólga 3,9% og stýrivextir 11,4%, þ.e. raunstýrivextir 7,5%.  Þrátt fyrir mikla lækkun krónunnar og aukna verðbólgu, þá lækkað Seðlabankinn stýrivexti og þegar verðbólgan náði hámarki (9,4%) í janúar 2002 voru stýrivextir komnir í 10,10%.  Ári seinna (febrúar 2003) var verðbólgan orðin 1,54% og stýrivextir 5,30%.  Ef Seðlabankinn fylgir sambærilegu ferli núna og gert var 2002, þá ætti hann að lækka stýrivexti strax í september um 0,25% og síðan önnur 0,25% í október, í nóvember gæti komið 0,5% lækkun og önnur 0,5% í desember.  Ástæðan fyrir því að Seðlabankinn ætti að gera þetta, er að það er engin undirliggjandi þensla lengur í hagkerfinu og því er engin ástæða til að halda stýrivöxtum í hæstu hæðum.  Ef áhrifin núna verða þau sömu og síðast, þá gæti það þýtt verðbólgu undir 5% í júní á næsta ári og stýrivöxtum í kringum 7%.  Samfara þessu gæti síðan krónan styrkst verulega og hugsanlegt er að gengisvísitalan komist niður fyrir 130.

Ég hef svo sem ekki mikla trú á því að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferlið í september, en spái í staðinn að það hefjist í desember.

Ég nefndi að það væri tvennt sem ég tel að Seðlabankinn/ríkisstjórnin eigi að gera.  Ég er búinn að eyða löngum orðum í stýrivextina, en hitt atriðið var að taka erlent lán (þarf ekki að vera 500 milljarðar) til að veita bönkunum/fjármálafyrirtækjum meiri aðgang að erlendum gjaldeyri.  Þessi lán væru veitt með góðum kjörum, sem fjármálafyrirtækin myndu skuldbinda sig til að veita áfram til viðskiptavina sinna.  Með þessu gæfist lántakendum færi á að taka erlend lán á skikkanlegum kjörum meðan krónan er veik og gætu þannig unnið upp nokkurt af því tapi, sem fólk og fyrirtæki hafa orðið fyrir síðustu mánuði vegna falls krónunnar.  (Setja mætti alls konar takmarkanir á það hverjir ættu rétt á þessum lánum, svo ríkið væri ekki að "bjarga þeim sem fóru of geyst".)  Við megum ekki gleyma því að það er eitt af hlutverkum Seðlabankans að styðja við gengi krónunnar.  Að krónan hafi fallið jafn mikið og raun ber vitni, sýnir að Seðlabankinn hefur brugðist hlutverki sínu.  Það þýðir ekki að segja að þetta sé allt lausafjárkreppunni að kenna, þar sem aðrir gjaldmiðlar (sem við viljum miða krónuna við) hafa ekki tekið þessum skakkaföllum.  Ástæðunnar hlýtur því að vera að leita í peningamálastjórn Seðlabankans og hagstjórn ríkisins.  Vissulega hafa sum þessara áfalla verið erfið viðureignar og gott að vera vitur eftir á, en hvernig sem á það er litið, þá mistókst Seðlabankanum og ríkisstjórninni að viðhalda nauðsynlegum stöðugleika í hagkerfinu og tryggja eðlilegt jafnvægi á gengi krónunnar. Það er því siðferðisleg skylda þeirra að grípa til aðgerða til leiðrétta þau mistök.

Mér virðist sem lítil hætta sé á því að bankarnir þurfi að leita til Seðlabankans sem þrautalánveitanda.  Það breytir samt ekki því að Seðlabankinn þarf að sýna fram á að hann hafi getu til að koma bönkunum til bjargar sé á annað borð þörf á slíku.  Samningurinn sem er í gildi milli seðlabanka Norðurlanda þykir greinilega ekki nægilega sterkur til að sýna markaðinum fram á að hér sé allt í góðum málum.  Það er því nauðsynlegt fyrir Seðlabankann að grípa til frekari aðgerða.  Styrking gjaldeyrisvarasjóðsins virðist vera augljósasti kosturinn, en mönnum vex greinilega í augum kostnaðurinn við það verk.  Tekið var eitt lítið skref í júlí og líklegast er besti kosturinn að taka mörg slík lítil skref.  Þannig verður kannski hægt að byggja hægt og rólega upp traust markaðarins á íslenska bankakerfinu, hagkerfinu og síðast en ekki síst getu Seðlabankans til að virka sem þrautalánveitandi.

Ekki á að bjarga þeim sem "fóru of geyst", en hvað með hina?

Fjármálaráðherra lýsir því yfir í viðtali við Markaðinn á Stöð 2 að ekki eigi að bjarga þeim sem "fóru of geyst".  Það er svo sem alveg rétt að ekki á að bjarga þeim sem fóru út í kaupa á hlutabréfum og fyrirtækjum með mikilli skuldsetningu, en gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans snýst ekki bara um það.  Hann snýst líka um það að verja krónuna og auka trúverðugleika Seðlabankans sem þrautavaralánveitanda bankanna.  Þar sem verðbólgan núna er að mestu innflutt í gegnum veikingu krónunnar, þá er besta vopnið í baráttu við verðbólguna að styrkja krónuna. 

Raunar snýst málið, fyrir flesta Íslendinga, um það, að Seðlabankanum hefur mistekist að viðhalda stöðugu gengi krónunnar.  Frá því að krónan var sett á flot 1. apríl 2001, þá hefur gengisvísitalan verið eins og öldugangur í ofviðri sem sífellt hefur færst í aukana.  Hún byrjaði í 125, fór upp í 141, niður í 134, upp í 150 og allt þetta á fyrstu 7 mánuðunum.  Þá tók við styrkingartími, þar til nokkur stöðugleiki náðist um mitt ár 2002.  Sá stöðugleiki hélst í rúm 2 ár, en síðan höfum við séð gengisvísitöluna fara niður í 107, upp í 116, niður í 100, upp í 135 (6 mánuðum síðar), niður í 110, upp í 157, niður í 144, upp í 169, niður í 152, upp í 166 og núna er hún í 158.  Það er þetta rugl sem þarf að stoppa, vegna þess að þetta rugl er að setja allt á annan endann.  Það er þetta rugl sem hefur reglulega orsakað verðbólguskot sem Seðlabankinn kann ekki önnur ráð við en að hækka stýrivexti.  Verðbólgan orsakar síðan að verðtryggðu lánin hækka.

Kannski er fjármálaráðherra alveg sama um þennan óstöðugleika í íslenska hagkerfinu.  Kannski er honum alveg sama um að krónan sé eins og korktappi í stórsjó.  Rekald sem hendist fram og til baka og hafi enga viðstöðu.

Já, það var fullt af fólki sem tók áhættusamar ákvarðanir.  En flestir voru bara að gera það sem allir gera á einhverjum tímapunkti, þ.e. fjárfesta í íbúðarhúsnæði fyrir sjálfan sig.  Lán voru tekin ýmist verðtryggð í íslenskum krónum eða gengistryggð í erlendum gjaldeyri.  Þetta fólk gerði ráð fyrir að Seðlabankinn og ríkisstjórn væru starfi sínu vaxin og hefðu hemil á verðbólgunni og tryggði stöðugleika krónunnar.  En þessir aðilar hafa öðrum fremur klikkað og ríkisstjórnin þarf að gera eitthvað til að bæta fólki þann skaða sem af þessu hefur hlotist. Óverðtryggðir vextir sem áttu að vera 10-12% eru komnir í 20 - 25%. Verðtrygging hefur hækkað höfuðstól lána um nærri 15% á einu ári.  Lækkun krónunnar hefur hækkað höfuð stól erlendu lánanna á bilinu 23 - 35% á þessu ári einu og 17 - 37% á einu ári. 

Er til of mikils ætlast að ríkisstjórn og Seðlabanki hafi það góða stjórn á efnahagsmálum þjóðarinnar, að við þurfum ekki að þola svona rússíbanareið ár eftir ár?  Er til of mikils ætlast að þeir sem ákveða peningamálastefnu landsins skilji afleiðingar ákvarðanna sinna?  Er til of mikils ætlast að ríkisstjórn og Seðlabanki skilji þann vanda sem allt of stór hluti landsmanna er að lenda í og geri eitthvað í málinu?  Auðvitað er leiðinlegt að einhverjir tapi á fjárfestingum sínum, en það er verra ef fólk og fyrirtæki verða gjaldþrota vegna þess hve vextir eru háir og gengi krónunnar lágt.  Þetta eru þeir hlutir sem ríkisstjórn og Seðlabanki eiga að verja og stjórna.  Það er því ekki til of mikils mælst að ríkisstjórnin geri eitthvað og það fljótlega.