Hannes og hrunið

Komin er út skýrsla dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Ég viðurkenni fúslega, að ég hef ekki lesið skýrsluna sjálfa og ætla því ekki að fjalla um hana. Ég hef hins vegar lesið helstu niðurstöður úr skýrslunni, sem birtar hafa verið á netinu. Langar mig að fjalla um þessa punkta og byggi athugasemdir mínar á eigin rannsóknum sem birtar eru í bókinn Á asnaeyrum.

Read More

Útgjöld lækka þrátt fyrir meiri tekjur og hærri verðbólgu

Ég var að kíkja á Hagtíðindi Hagstofunnar, sem komu út 2. mars. sl., og sá þar upplýsingar, sem mér finnst vera furðulegar.  Þarna er verið að fjalla um niðurstöður neyslurannsókna Hagstofunnar fyrir þrjú tímabil, þ.e. 2011-2014, 2012-2015 og 2013-2016, og mér sýnist sem einhvern veginn hafi þjóðinni tekist að minnka neysluútgjöld sín um 8,4% í kringum 6,0% verðbólgu og hátt í 30% kaupmáttar aukningu.  Það sem meira er, að útgjöld vegna matar og drykkja drógust saman um ríflega 20% milli tímabilanna 2011-2014 og 2013-2016, þrátt fyrir að tímabilin skarist um tvö ár.  Mér finnst nánast vonlaust að þetta hafi gerst á sama tíma og vísitala vegna matar og drykkja hækkaði um 6,0%.

Les meira..

Húsnæðisliður í vísitölu neysluverðs

Í tilefni þess að Þorsteinn Sæmundsson hefur lagt fram frumvarp, þar sem lagt er til að eingöngu megi nota vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar til grundvallar verðtryggingar, þá vil ég birta hér umfjöllun mína um þetta mál í nýútkominni bók minni Á asnaeyrum.  Ég tek fram að ég er eingöngu að fjalla um liðinn 024 Reiknuð húsleiga og ég er ekki að fjalla um verðtrygginguna sjálfa.

Lesa meira..

Af trúverðugleika peningastefnu Seðlabanka Íslands

Í gær 6. mars var haldin málstofa hjá Seðlabankanum um hjöðnun verðbólgu og aukinn trúverðugleika peningastefnu bankans.  Það er eitt og sér dásamleg tímasetning að halda svona málstofu, þegar verðbólgan er í fyrsta sinn í mörg ár að nálgast verðbólgumarkmiðin, en ekki þegar hún var langt fyrir neðan markmiðin, en látum það liggja á milli hluta.

Lesa meira..

Inngangur

Eftir því sem ég skoða undanfara og eftirmála hrunsins betur, þá hef ég komist að því hve almúginn er endurtekið dreginn á asnaeyrum. Hann er blekktur, ósannindi borin fyrir hann, þeir sem hafa völdin fara sínu fram, loforð eru svikin, stefnumálum er kastað fyrir róða um leið og komið er í ráðherrastóla, grunngildi eru bara fyrir aðra að standa við.

Væntanlegur er út fyrsti hluti bókar sem fengið hefur titilinn Á asnaeyrum. Hún er mín sýn eða greining á því sem gerðist fyrir hrun og ekki síður eftir það. Í þessum fyrsta hluta mun ég fjalla um árin fram að hruni, deila á peningastefnu Seðlabanka Íslands, fer yfir ýmis ummæli ráðamanna síðasta árið fyrir hrun, skoða fjármögnun bankanna og velti fyrir mér hvort eitthvað hefði getað komið í veg fyrir hrunið. Loks birti ég málamynda “ákæru” á hendur helstu gerendum í anda Emile Zola.

Ég á þegar efni í marga bókarhluta til viðbótar, en ef ég ætti að bíða eftir að allt sé útgáfuhæft, þá þyrfti lesendur að bíða einhver ár í viðbót. Í því efni fjalla ég um baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna meðan ég var þar í stjórn, aðgerðir stjórnvalda og fjármálafyrirtækja fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki, stofnun nýrra banka, yfirfærslu lánasafnanna og síðast en ekki síst gengistryggðu lánin, Árna Páls-lögin og lykildóma sem gengið hafa. Nú ætla ég ekki að lofa neinu um útgáfudag, en eins og staðan er í dag, þá gæti næsti hluti komið út í haust.

Eins og staðan er, þá verður bókin gefin út á Amazon og verður eingöngu hægt að kaupa hana þar, hvort heldur sem kilju eða sem rafbók. Verðið hefur ekki verið ákveðið og verður tilkynnt hér á þessari síður, þegar þar að kemur.  Vettvangur þessarar síður verður einnig að fjalla um öll þau önnur tilfelli, þar sem mér finnst íslenskur almenningur vera dreginn á asnaeyrum, ný og gömul.

Tilgangur

Svo lengi sem ég man eftir því, þá hefur alls konar kjaftæði verið haldið að almenningi.  Það er svo sem gert í öllum löndum, en einhvern veginn er eins og engin takmörk séu á því hverju er dembt yfir íslenskan almenning.  Ráðherrar, sem brjóta lög, sitja sem fastast.  Ríkisfyrirtæki eru sett í hendur einkavina.  Haldið er að fólki upplýsingum, sem ekki standast.  Kosningaloforð eru svikin nánast áður en lokið er við að telja upp úr kjörkössunum.  Spillingin kraumar í öllum pottum.  Stjórnmálamenn, embættismenn og valdafólk telja það heilaga skyldu sína að ljúga að almenningi við hin ólíklegustu tækifæri, skreyta sannleikann, snúa út úr og vera með fals og blekkingar.

Tilgangur síðunnar er ekki bara að vekja athygli á bókinni Á asnaeyrum, heldur einnig að fjalla um allt hitt, eftir því sem tækifæri gefst og tími er fyrir hendi.  Einnig mun ég færa yfir á síðuna stóran hluta af bloggfærslum mínum og eitthvað af facebook-póstum.  Það mun gerast hægt og bítandi.