Stýrivextir hækka húsnæðisliðinn

Hún er nú ekki öll vitleysan eins.  Samkvæmt þessari frétt um hækkun verðbólgu, þá má lesa nokkur atriði sem hljóta að stinga í stúf:

1.  Verð húsnæðis hefur hækkað meira en aðrir þættir síðustu 3 mánuði.  Þetta virðist vera í mótsögn við það sem fólk er að upplifa á fasteignamarkaðnum og má spyrja sig að því hvernig þetta er fengið úr.

2.  Stýrivextir eru að vega tvöfalt í hækkun húsnæðiskostnaðar en hækkun markaðsverðs, þannig að stýrivextirnir sem eiga verða til þess að slá á verðbólguna eru að auka hana.  Vissulega eru það vextir húsnæðislána sem eru að valda þessu, en þeir hafa verið að hækka m.a. vegna hækkunar stýrivaxta.

3.  Markaðsverð húsnæðis er ennþá að hækka á milli febrúar og mars, sem er með ólíkindum, þó eitthvað hafi dregið úr hækkunum og aðgangur að lánsfé sé mjög takmarkaður.

4.  Þessar verðbólgutölur mæla ekki þá miklu lækkun á gengi krónunnar sem hefur orðið undanfarnar vikur og á hugsanlega eftir að verða á næstu dögum. Því má búast við því að verðbólga í apríl mælist talsvert hærri en núna.  Getum við alveg búist við að 3 mánaða verðbólga mælist þá 15 - 17 % á ársgrundvelli og verðbólga frá apríl 2007 til apríl 2008 verði nálægt 10%, ef ekki meiri.

Þessar tölur lýsa líklegast best hvers konar skipsbrot peningamálastefna Seðlabankans hefur beðið.  Það er blákaldur veruleikinn sem fáir málsmetandi aðilar hér á landi þora að segja, en greiningaraðilar út um allan sjá og skilja. 

Frétt sem bloggað var við: Mesta verðbólga í 6 ár

Athugasemd 2018:  Eins og oft síðar, átti ég í erfiðleikum með að skilja mælingar Hagstofunnar.

Er verið að gera atlögu að krónunni?

Ég er búinn að vera að fylgjast með gengisvísitölunni í dag.  Dagurinn byrjaði illa og um kl. 9:30 hafði vísitalan lækkað um 2,35% (samkvæmt stundargengi hjá Glitni).  Klukkutíma síðar hafi hluti lækkunarinnar gengið og hún stóð í 1,75%.  Um hádegisbil stóð lækkunin í um 2,5%, en klukkutíma síðar eða svo stóð hún aftur í 1,75%.  Og nú kl. 13:41 hefur aftur sigið á ógæfuhliðina og lækkunin er orðin 2,61%.  Þetta eru nokkuð ýktar breytingar á ekki lengri tíma og fær mann til að velta því fyrir sér hvort verið sé að gera atlögu að krónunni, þar sem ekkert hefur gerst undanfarna tvo daga sem skýrir 5% lækkun krónunnar.  Það ætti frekar að vera í hina áttina, þar sem loðnukvóti hefur verið stækkaður og Kaupþing var að taka stórt lán á mun hægstæðari kjörum aðilar úti í heimi hafa sagt opinberlega að banki hafi átt að geta fengið.  Ég fæ ekki betur séð en að spákaupmenn séu að leika sér.

Athugasemd 2018:  Þessi bloggfærsla sýnir þá afneitum sem maður var í og hve sterkur heilaþvottur var í gangi.  Það gat ekki annað verið en að einhverjir væru að gera atlögu að krónunni, þegar það voru bara íslenskir bankar að kaupa gjaldeyri til að mæta veðköllum á aðaleigendur sína frá stórum erlendum bönkum.

Mat byggt á hverju?

Vissulega er ýmislegt sem breyst hefur til hins verra í rekstrarumhverfi íslensku bankanna, en það er ekkert sem bendir til þess að rekstur þeirra standi eitthvað veikari fótum en fyrr.  Þannig er lausafjárstaða Kaupþings mjög sterk.  Raunar svo sterk að ég efast um að það finnist margir bankar í Evrópu, hvað þá Norðurlöndum, sem er eins vel fjármagnaður.  Bankinn er búinn að grípa til fjölþættra aðgerða til að bregðast við "bankakreppunni" og er í raun óskiljanlegt að lánshæfismat hans hafi lækkað svona mikið.  Svipaða sögu er að segja af Landsbankanum, en Icesave reikningarnir í Bretlandi hafa styrkt lausafjárstöðu bankans mjög mikið.  Nú er bankinn fjármagnaður að stórum hluta af innlánum í stað lána á millibankamarkaði.  Glitnir stendur líklegast verst að þessu leyti af íslensku bönkunum, en þar hafa menn þegar farið af stað með aðhaldsaðgerðir.

Það merkilegasta við þess breytingu er að "bankakreppan" fór af stað vegna vandræða með svo kölluð undirmálslán á bandarískum fasteignamarkaði.  Það er tvennt sem vert er að hafa í huga varðandi þessi lán.  1)  Íslensku bankarnir eiga lítið sem ekkert undir varðandi þessi lán.  2)  Moody's lofsöng þessi lán fyrir bara einu ári eða svo.  Evrópskir bankar treystu þessum lánum eftir að Moody's, S&P og fleiri matsfyrirtæki stimpluðu þau í bak og fyrir á sínum tíma og hirtu sína þóknun fyrir að hafa komið með greiningu sína (samkvæmt upplýsingum í 60 minutes).

Það er grafalvarlegur hlutur að lánshæfimat íslensku bankanna sé að lækka með þessum hætti.  Menn bera hugsanlega blak af Moody's og segja að þetta hafi verið fyrirsjáanlegt, en þegar horft er til þess að fjölmargir erlendir bankar, sem hafa farið mjög illa út úr undirmálslánunum, eru að halda fyrra mati sínu, þá vekur þetta furðu.  Það sem verra er að svona mat, sem hugsanlega er byggt á veikum grunni getur haft dómínóáhrif á íslenskt efnahagslíf og er ekki gott innlegg á sama tíma og Seðlabanki Íslands er þegar búinn að stytta í hengingarólinni meira en góðu hófu gegnir.

Frétt sem bloggað var við: Lánshæfismat bankanna lækkað

Athugasemd 2018: Þessi bloggfærsla sýnir vel hve lokaður maður var fyrir því, að bankarnir væru að fegra sannleikann.  Líklegast voru ársreikningar bankanna árið 2007 kolrangir og er með ólíkindum að þeir hafi aldrei verið yfirfarnir almennilega.

Hagkerfið í niðursveiflu og Seðlabankinn bíður átektar

Það verður bara að viðurkennast að peningamálastjórnun Seðlabankans er ekki að virka.  Meðal þess sem ég lærði í hagfræði í háskóla var að aðhaldsaðgerðir eiga að hefjast áður en uppsveiflan er orðin of mikil og þennsluvekjandi aðgerðir áður en kreppir of mikið að.  Þetta er sú hagfræði sem seðlabankar í Bandaríkjunum og Evrópu fylgja.  Seðlabankinn Íslands er ekki að fylgja þessari hagfræði, svo mikið er víst (nema að hann telji að núverandi ástand sé ekki alvarlegt).  Við höfum undanfarna mánuði verið að ganga í gegnum tímabil með skörpum samdrætti.  Tímabil þar sem háir stýrivextir veikja hagkerfið í staðinn fyrir að örva það.  Seðlabanki Bandaríkjanna brást við húsnæðislánakreppunni með því að lækka stýrivextina fyrirvaralaust.  Hér á landi gerist ekkert og raunar hækkuðu vextir óvænt eftir að bankakreppan svokallaða skall á.  Það á ekki að vera markmið Seðlabankans að dauðrota hagkerfið, þó hann vilji kæla það.  Samkvæmt hagfræðikenningunni sem ég bent á að ofan, þá hefðu stýrivextir átt að byrja að lækka í september nákvæmlega eins og þeir hefðu átt að hækka strax og áhættustuðull vegna fasteignalána var lækkaður hér um árið.  (Lækkun þessa áhættustuðuls, sem kennd er við Basel-II, tvöfaldaði útlánagetu banka til fasteignalána á einni nóttu.)

Frétt sem bloggað var um: Segir stýrivaxtalækkun nauðsynlega

Góður árangur í erfiðu árferði

Nú eru allir stóru bankarnir þrír búnir að skila uppgjörum sínum.  Eins og við var að búast dróst hagnaður þeirra eitthvað saman á milli ára.  Helsta ástæðan er líklega sú bankakreppa sem fór af stað á seinni hluta ársins.  Það jákvæða við uppgjörin er að allir skila hagnaði á öllum ársfjórðungum, sem er meira en ansi margir stórir erlendir bankar geta stært sig af.  Vissulega var uppgjör Glitnis ekki í samræmi við spár greiningaraðila, en á móti var hagnaður Kaupþings mun meiri.

Það getur vel verið að ég sé haldinn einhverju Pollyönnu heilkenni, en á þessum tímum bankakreppu, þar sem ljóst er að bankar um allan heim þurfa að vinda ofan af offjárfestingum, áhættulánum og mistökum í afleiðu viðskiptum, þá er full ástæða til að tala jákvætt um árangur íslensku bankanna.  Að enginn þeirra hafi fengið verulegan skell vegna bankakreppunnar sýnir að áhættustýringar þeirra eru að virka.  Þeir hafa tekið til í eignasafni sínu og breytt áherslum í útlánum.  Þetta er það er svo mikilvægt að sé rætt, án þess þó að líta framhjá því sem betur má.  Við verðum samt að vara okkur á því að of neikvæð umræða gæti komið af stað atburðarás, sem ekkert okkar vil sjá verða að veruleika.  Sem dæmi um þetta má taka nálgun mbl.is að þessari frétt. Mér finnst það, t.d., alveg jafn merkilegt að þrátt fyrir "bankakreppuna" að þá hafa bankarnir aðeins einu sinni áður skilað jafnmiklum hagnaði eða að þrátt fyrir mikla lækkun á hlutabréfamarkaði, þá hækkuðu heildareignir bankanna um rúm 30% á liðnu ári frá árinu á undan.

Frétt sem bloggað var við: Hagnaður bankanna dregst saman

Skiljanleg andstaða, en er leikurinn ekki tapaður?

Andstaða Seðlabankans við að fjármálafyrirtæki færi bókhald sitt í erlendri mynt er mjög skiljanleg, þó ekki væri nema út frá því sjónarmiði, að ef það gerist missir Seðlabankinn mikilvægt stjórntæki úr höndunum og frá honum fara mikilvæg verkefni.  Seðlabanki Íslands hefur ekkert vald yfir evrunni, en hann ábyrgur gagnvart krónunni.  En er ekki leikurinn tapaður?  Er það ekki um seinan fyrir Seðlabanka Íslands að koma í veg fyrir að íslensk útrásarfyrirtæki breyti um uppgjörsmynt?  Er það ekki um seinan að koma í veg fyrir fyrirtæki sem skráð eru í fjölþjóðlegri kauphöll færi hlutabréf sín yfir í fjölþjóðlega mynt?  Fái þau það ekki hér á landi flytja þau einfaldlega úr landi.  Og ekki er Seðlabankinn betur settur með það.

Til skamms tíma sá ég ýmsa kosti við að halda krónunni og hugsanlega verður það hægt í einhvern tíma í viðbót.  En því miður er styrkur krónunnar það lítill og vægi Seðlabanka Íslands svo óverulegt í alþjóðlegu fjármálaumhverfi, að krónan stendur ekki ein og sér.  Sveiflur í gengi krónunnar eru of miklar til það hægt sé að líta á íslensk fjármálafyrirtæki sem vænlegan fjárfestingarkost.  Það er ekki bara að gengi, t.d., Kaupþings hafi lækkað stórlega í íslenskum krónum á síðustu mánuðum, heldur hafa sveiflur á gengi krónunnar ýkt þessa lækkun enn frekar.  Meðan fjárfestir á Íslandi hefur tapað, segjum, 40% á lækkun gengis hlutabréfa, þá hefur hinn erlendi tapað 10% til viðbótar vegna lækkunar krónunnar.  Og þegar kemur að árs- og árshlutauppgjörum, þá ýkja gengissveiflur þau líka og gera allan samanburð óskiljanlega.  Eignir upp á 10 milljarðar evra mynda hagnað eitt uppgjörstímabilið og tap hitt.  Eign upp á 9 milljarða evra sýna hærri eignastöðu á einu uppgjörstímabili en eignir upp á 11 milljarða evra á öðru.  Er hægt að búa við þetta?

Ég sé bara fyrir mér tvær lausnir á þessu.  Fyrri er að halda krónunni, en tengja hana við evru, sterlingspund eða svissneskan franka og bara eina af þessum myntum.  Með því fengist meiri stöðugleiki.  Þetta er sambærilegt við það sem Danir og Svíar gera, en þessar þjóðir halda sínum myntum en fasttengja þær evrunni.  Með þessu fæst meiri stöðugleiki í gengið og það ætti að hafa kælandi áhrif á hagkerfið.  Hinn kosturinn er að taka upp evruna.  Vandamálið er að ekki er víst að það fáist.  Ísland getur ekki bara svona upp á sitt eindæmi tekið upp evruna.  Vissulega hafa einhverjar þjóðir gert það, en það eru þjóðir sem standa utan Evrópska efnahagssvæðisins. 

Danska leiðin virðist því liggja í augum uppi, þ.e. að tengja krónuna við gengi evrunnar og undirbúa jarðveginn fyrir það að kasta krónunni innan 10 ára eða svo.  Vandamálið er að velja tímapunktinn og það verður ekki auðvelt.  Ég legg til 1. júlí 2009, en einnig mætti gera það um næstu áramót.  Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki nægilegt vit á hagfræði eða peningamálum til að skilja nákvæmlega hvað það hefur í för með sér að skipta yfir í evru eða fasttengja krónuna við evruna.  Ég á móti átta mig alveg á afleiðingum þess að halda krónunni í þeim ólgusjó sem alþjóðlegt fjármálakerfi er að ganga í gegnum og ég átta mig á hættunni á að óprúttnir spákaupmenn fari að leika sér með fjöregg þjóðarinnar.

Það má segja að Seðlabanki Íslands sé í svipuðum sporum og íslenska ríkið þegar Davíð keypti bjórinn í Fríhöfninni um árið.  Hann á bara þvingaða leiki og getur valið um það að gefa skákina strax eða vera hægt og rólega mátaður. Niðurstaðan verður alltaf sú að fjármálafyrirtækin breyta um starfrækslumynt.  Spurningin er bara hvort þau gera það sem íslensk fyrirtæki eða erlend.