Ranghugmyndir um verðtryggingu

Hugmyndafræði verðtryggingar er að tengja fjárhagslegt verðmæti við breytingar á vísitölu, oftast vísitölu neysluverðs. Hvers vegna verðbreytingar á neysluvöru eigi að endurspegla verðrýrnun peninga, hefur höfundur aldrei skilið. Hér er greinilega verið að yfirfæra kaupmátt launa yfir á verðgildi peninga, en þetta tvennt á það eitt sameiginlegt að peningar skipta um hendur annars vegar þegar laun eru greidd út og hins vegar þegar greitt er fyrir vöru eða þjónustu. Breyting á kaupmætti launa gagnvart neysluvöru hefur hins vegar takmarkað að gera með verðgildi peninganna. Þeir eru bara verkfæri, ef svo má segja. Þarna hefði alveg eins mátt miða við gull, fiska eða steina.

Verðtrygging mælir ekki verðgildi peninga

Í gegn um tíðina hafa hagfræðingar tekist á um hvaða aðferð eigi að nota til að verðtryggja lánsfé, vilji menn á annað borð gera það. Þetta hefur verið gert með því að blanda saman verðlagi á ólíkum mörkuðum, s.s. vöruverði, kaupgjaldi og fleiru. Þá er verðlag vara og framleiðsluverðs, hráefna og annarra aðfanga og framleiðsluþátta. Innan þessa falla vísitölur neysluverðs og byggingakostnaðar, vísitölur hrávöruverðs og vísitölur launataxta (sjá grein Bjarna Braga Jónssonar, Verðtrygging lánsfjármagns og vaxtastefna á Íslandi).

Bjarni veltir fyrir sér við hvaða vísitölu skuli miða verðtryggingu lánsfjár. Segir m.a., að ekki sé sjálfgefið að miða við verðlag, þegar uppskeru- eða aflabrestur veldur verðlagshækkununm. Á hinn bógin ætti aukin framleiðni að leiða til lækkandi verðlags.xxx

Mikilvægt er að hafa í huga, að vísitala neysluverðs mælir bara hluta af verðbreytingum í hagkerfinu. Einkaneysla var árið 2022 rúmlega helmingur (52,4%) af vergri landsframleiðslu og bara hluti hennar er mældur í vísitölunni. Það er því nokkuð ljóst, að vísitala neysluverðs endurspeglar í mesta lagi bara hluta verðbreytinga á peningum. Aðrar breytingar í hagkerfinu leggja hitt til, svo sem gengi gjaldmiðilsins, ávöxtun á hlutafjármarkaði, vaxtamunur milli markaðsvaxta og útlánsvaxta og markaðsvextir langtímafjármögnunar.

Mjög fáir í hagkerfinu eru að fá peningana sína að fullu verðtryggða, þó þeir séu tengdir við vísitölu neysluverðs. Langflestir eru með eignir og skuldir og þó eignir séu verðtryggðar, þá er hagnaðurinn, þ.e. munurinn á vaxtatekjum og vaxtagjöldum, ekki nóg til að verðtryggja arðsemina miðað við vísitölu neysluverðs. Hvers vegna á það þá að skipta máli, að útlán séu verðtryggð? Bankinn er hvort eð er ekki að fá vaxtamun sem er hærri en breytingin á visitölu neysluverðsins. Og er það bara bankinn, sem á kröfu á verðtryggðum vöxtum sem hann býður neytendum? Af hverju ættu þá ekki fjárfestar, sem kaupa skuldabréf bankanna, líka að fá verðtryggða vexti? Greiði bankinn hins vegar verðtryggða vexti til fjárfesta, þá væri hann ekki að fá verðtryggða ávöxtun af sínum útlánum til viðskiptavina (nema náttúrulega að hann hefði útlánsvexti sína þannig að enginn hefði efni á þeim). Bara á þessu atriði fellur hugmyndafræðin um verðtryggingu útlána.

Færeyskur bankastjóri skilur ekki verðtryggingu

Olav Guttesen, bankastjóri Betri banka í Færeyjum, komst vel að orði í viðtali við Heimildina í júní 2023.

„Ef verðbólgan er 10 prósent, mun höfuðstóll lánsins hækka um 10 prósent?“ spyr hann og hlær við. „Ég veit ekki hvernig það virkar. Ég hef ekki heyrt um húsnæðislán sem eru þannig, hvorki hér né í Danmörku. Óvissan sem viðskiptavinir okkar upplifa eru vextirnir. Ég geri ráð fyrir að einstaklingar hér búi við minni áhættu en Íslendingar sem hafa verðtryggð lán, þar sem höfuðstóllinn hækkar með verðbólgu.“

Nei, Olav Guttesen skilur eðlilega ekki íslenska verðtryggingu, því höfundur efast í reynd að nokkur utan Íslands og ekki uppalinn á eyjunni, skilji þetta fyrirbrigði.

Blaðamaður spurði síðar: Í ljósi þess að verðbólga í Færeyjum er 8 til 9 prósent og húsnæðislánavextir rúmlega helmingur af því: Hvernig þolið þið, sem banki, að hafa neikvæða raunvexti?

„Við lítum ekki á það þannig. Við borgum innistæðueigendum vexti. Tekjurnar okkar markast af vöxtunum sem við fáum af útlánum. Við erum fjármögnuð af innistæðum.“

En hvað þá með hagnað bankanna? Með því að hækka vexti væri hægt að auka hagnað.
„Það er góð spurning! Ein ástæðan er samkeppnin hér í Færeyjum. Það er erfitt fyrir einn banka að hafa hærri vexti en hinir. Við höfum verið treg til að hækka vexti í Færeyjum, samanborið við Danmörku. Hagnaðurinn er ásættanlega mikill, en ekki eins mikill og í Danmörku.“

Samkvæmt þessu er hugmyndafræði verðtryggingarinnar á Íslandi ekki einu sinni til hjá okkar næstu nágrönnum, Færeyingum. Er hún þá til einhvers staðar annars staðar? Já, í Ísreal. Þar er hins vegar varað við, að verðtryggð lán séu bara góð, ef maður er bankinn! (Sjá greinina: Verðtryggð húsnæðislán með 0,5 - 1,5% vöxtum.)

Helstu rök gegn verðtryggingu

Hvers vegna er verðtrygging neytendalána almennt hvergi til? Ástæðurnar eru nokkrar. Ein sú stærsta er, að neytendur eigi að taka á sig alla óvissu í samningi við sterkari aðila viðskiptasamnings gengur einfaldlega gegn almennu viðskiptasiðferði. Þegar tveir aðila gera með sér samning er eðlilegt að þeir deili áhættunni sem felst í samningnum. Að neytandinn eigi að taka alla áhættuna í viðskiptum á frekar skylt við nauðasamning við mafíu, en að viðskiptabanki sé á hinni hliðinni. Raunar voru það ummæli sænsks bankamanns, þegar verðtryggður samningur var lagður fyrir hann, að þetta væri betri samningur fyrir bankann sem meira að segja mafían gerði kröfu um. Í öðru lagi, er gert ráð fyrir að vaxtamunur lánveitanda eigi að tryggja honum nægilegan ávinning af samningnum. Í þriðja lagi, gera lánveitendur og fjárfestar ráð fyrir því að starfsemi þeirra og ákvörðunum fylgi áhætta og þó þeir geti dregið úr þessari áhættu með vönduðum ákvörðunum, þá geta þær aðstæður skapast að ávöxtunum verður lakari en gengið var út frá í upphafi. Í fjórða lagi, þá bjóða lánveitendur og fjármögnunaraðilar almennt upp á vexti með það í huga, að yfir lánstíma eða tíma fjárfestingarinnar, þá komi þeir út með hagnaði, en ekki að á hverju einasta ári sé ávöxtun eða arðsemi yfir verðbólgu hvers árs. Þeir búast við sveiflum og taka þær inn í ávöxtunarkröfur sínar. Í fimmta lagi, þá er í nánast öllum þjóðfélögum heims gert ráð fyrir því, að verðbólguskot leiðrétti lánastöðu heimilanna miðað við tekjur þeirra. Þannig leiðir 10% verðbólguskot hverju fylgir 5% hækkun ráðstöfunartekna, að skuldir heimilis lækka um ca. 5% sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilisins.

Að báðir aðilar fjármálasamnings deili með sér áhættunni, er í algjörri mótsögn við þá íslensku hugsun, sem kom fram í verðtryggingarskýrslu Askar Capital frá 26. mars 2010, þar sem segir m.a.: “Varðandi fjölbreytni fjárfestingarkosta þá má líta svo á að verðtryggð ríkisskuldabréf séu áhættulaus eign og að án þeirra sé enginn slíkur fjárfestingarkostur til staðar.” Það á einfaldlega enginn áhættulaus fjárfestingarkostur að vera til boða, því þá er enginn hvati fyrir fjárfesta að viðhalda stöðugleika. Sama hvað gerist, þá fá þeir sitt, jafnvel þó þeir hafi sjálfir verið megin uppspretta óstöðugleika, eins og reynslan var með Glitni, Kaupþing og Landsbanka Íslands.

Eykur óstöðugleika

Að halda því fram, að verðtrygging auki stöðugleika er líka öfugmæli, nema að stöðugleiki sem átt sé við sé stöðugleiki fjármagnseigenda. Bruni lánsfjár, sparifjár, launa og rekstrarfjár í verðbólgubálinu á 8. áratugnum er oft nefnt sem rök fyrir því, að verðtryggðing sé nauðsynlegt. Rifjum upp aðeins afleiðingar Ólafslaganna frá apríl 1979. Sé litið til tímabilsins frá apríl 1979 til maí 1983, þá sést að verðtryggingin jók óstöðugleika mjög mikið. Hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða fór úr 4,3% milli apríl og maí 1979 (sem jafngildir ársverðbólgu upp á 66,5%) í 10,4% milli febrúar og mars árið 1983 (jafngildir 228% ársverðbólgu). Til að setja þetta í samhengi, þá hækkaði vísitala neysluverð milli febrúar og mars árið 2024 um 0,8% (jafngildir ársverðbólgu upp á 10,0%). Teljist þróun frá apríl 1979 til mars 1983 vera aukning stöðugleika, þá er best að vona að ekki verði óstöðugleiki á Íslandi.

Til að skilja enn betur hvernig verðtrygging lánsfjár eykur óstöðugleika, þá verður að horfa á keðjuverkunina sem hún veldur. Í febrúar 2009 reiknaði höfundur út, að um 685 ma.kr. af höfuðstóli lána heimilanna væri fjárhæð sem heimilin hefðu ekki tekið að láni heldur bæst á eftirstöðvar lánanna með verðbótum. Frá þeim tíma til mars 2024 hækkaði vísitala neysluverðs um rúm 84%. Það skiptir svo sem engu máli hve mikil verðbólgan er, í hverjum mánuði bætast verðbætur á höfuðstólinn og greiðslubyrði lánanna hækkar. Þar eru tvenns konar verðbætur sem hækka greiðslubyrðina, annars vegar verðbætur á höfuðstólinn og hins vegar verðbætur á vextina. Oftast eru seinni verðbæturnar hærri en þær fyrri. Svo skuldarinn hafi efni á að standa undir hærri greiðslubyrði, er líklegt að hann sæki launahækkun til vinnuveitanda síns. Vinnuveitandinn þarf þá að bæta sér hærri launagreiðslur með því að hækka vöruverð. Hagstofan mælir hækkun vöruverðsins í hækkun vísitölu neysluverðs, sem síðan veldur því að verðbætur leggjast á lánin. Verðbæturnar auka því verðbólguna og verðbólgan eykur verðbæturnar. Þær gerast ekki skilvirkari svikamyllurnar.

Stundum er stöðugleiki óstöðugleiki og stundum er óstöðugleiki stöðugleiki

Fyrirsögn greinarinnar dregur fram þau sannindi, að ekki er einhugur um hvað telst stöðugleiki og hvað telst óstöðugleiki. Verðtryggingunni er ætlað að stuðla að stöðugleika, en telur í leiðinni efnahagslegan stöðugleika vera óstöðugleika sem bæta þarf fyrir með verðbótum. Þetta felur í sér mótsögn. Ólafslögum var ætlað að bæta lánveitendum fyrir óstöðugleika, sem þýðir þá að væri stöðugleiki, þá væru engar verðbætur, og aðeins óstöðugleiki kallar á verðbætur.

En öll þjóðfélög vilja stöðugan og viðvarandi hagvöxt. Það er talið hættumerki, ef hagvöxtur er of lítill og líka ef hann er of mikill. Samdráttur í landsframleiðslu er talinn versti kosturinn. Það telst stöðugleiki ef vöxtur landsframleiðslu er hógvær og stöðnun ef landsframleiðslan stendur í stað. Stöðnun er óæskileg, sérstaklega ef verðlag hækkar. Slíkt ástand er á ensku kallað “stagnflation” og öll hagkerfi vilja forðast. Samt er það þannig, að bara undir stöðnun leggjast verðbætur ekki á lánin. Verðtryggingin er því almennt röng viðbrögð við efnahagslegum stöðugleika.

Kannski er mikilvægt að horfa á verðtrygginguna frá öðru sjónarhorni? Skilgreina fyrst hvað telst stöðugleiki (sbr. verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5% með 1,5% viðmörkum) og telja eingöngu til óstöðugleika, sem bæta á með verðbótum, þann vöxt sem ekki fellur undir stöðugleika. Við þetta myndu vextir verðtryggðra lána hækka, en sveiflur minnka.

En hvað telst stöðugleiki og þar með hvað telst óstöðugleiki? Það fer eftir því hver er spurður og oft kemst viðkomandi í mótsögn við sjálfan sig. Seðlabankastjóri vill stöðugleika sem felur í sér að verðlagsbreytingar séu á milli 1,0-4,0% á hverjum 12 mánuðum. Hann vill líka, að bönkunum sé bætt upp virðisrýrnun útlána þeirra, vegna þess að hann náði fram markmiði sínu um verðbólgu upp á 1,0-4,0%. Hann er líka sáttur við að atvinnuleysi sé á bilinu 3,0-5,0%, en er á móti of miklum vexti vinnumarkaðar samhliða fjölgun landsmanna.

Í öllu þessu er mjög erfitt að ákveða hvernig eigi að mæla verðrýrnun, t.d., húsnæðisláns til 30 ára sem ber 4,5% verðtryggða vexti. Bara vextirnir einir gefa til kynna óstöðugleika og þá er ég ekki að tala um að þeir séu verðtryggðir. Öruggir 4,5% vextir lýsa því að lánveitandinn treystir ekki efnahagsástandinu. Að skuldbinda sig til að greiða 4,5% vexti lýsir því, að lántakinn vill frekar festa sig í þá, en að taka áhættuna með breytilega vexti. Hann óttast óstöðugleika. Að vextirnir séu verðtryggðir er enn frekari staðfesting á því að lánveitandinn treystir ekki efnahagsástandinu. Og gagnvart lántakanum, þá eru þetta líklegast merki um, að hann sé viss um, að hann fái óstöðugleikann bættan með launahækkununum og hækkandi húsnæðisverði. Niðrustaðan er, að verðtryggð lánskjör séu ávísun á óstöðugleika, því allir treysta á að vera betur settir þrátt fyrir óstöðugleika, frekar en að vinna samhentir að því að viðhalda stöðugleika í hagkerfinu sem samt yfirfærist í birtingarmynd óstöðugleika með verðbótunum sem bætast á höfuðstól og vaxtagreiðslur.

Kostnaðurinn af verðtryggingu

Ofangreindir 685 ma.kr. hafa líklega valdið um 1.200 ma.kr. hækkun launa og síðan um 1.600 ma.kr. hækkun launakostnaðar. Fyrirtækin hafa síðan líklega hækkað verð vöru og þjónustu um eitthvað í kringum 2.000 ma.kr. Verðbæturnar hleypa af stað hringekju sem veldur líklega um þreföldum kostnaðarauka (borið saman við verðbæturnar og ofan á þær) hjá neytendum, sem kalla því á enn meiri kauphækkun. Þetta er bara hlið neytandans án áhrifa frá samneyslunni, sem líka verður fyrir kostnaðarhækkunum. Varla er til skýrara dæmi um að verðtrygging eykur á óstöðugleika, líka hjá lánveitandanum og fjármagnseigandanum.

Það getur vel verið, að í núvirtum krónum, þá greiði lántaki álíka mikið af verðtryggðu láni með 3,5% og sá sem greiðir 6,0% vexti af nafnvaxtaláni í 2,5% verðbólgu. Það er allt hitt sem viðkomandi greiðir og er afleiðing af verðtryggingunni, sem gerir verðtryggingu lána neytenda alveg gjörsamlega kolklikkaða hugmynd og ógn við stöðugleika.

Blekking verðtryggingarinnar

Áður en verðtryggingunni var komið á, þá var mikil umræða um hvað ætti að gera. Í greininni Var verðtrygging eina lausnin árið 1979? Ekki að mati sérfræðings Seðlabankans árið 1977 skýri ég þetta nánar út. En í stórum dráttum snerist umræða um hvort hækka ætti vexti eða ekki. Niðurstaðan var að taka upp verðtryggingu sparifjár, inn- og útlána og launa. Hugsanlega gerir verðtrygging lántökum auðveldara að standa við fjárskuldbindingar sínar, þegar vextir ættu að vera háir vegna efnahagslegs óstöðugleika. Blekkingin er hins vegar sú, að lántakinn tekur vaxtagreiðslurnar á raðgreiðslum út lánstímann. Og það gerir hann í hverjum mánuði.

Að lántaki hafi ekki þurft að greiða, segjum, 100.000 kr. vegna vaxta í einum mánuði vegna þess að hann er með verðtryggt lán, þýðir bara að þessar 100.000 kr. dreifast á það sem eftirstendur lánstímans. Í 5% verðbólgu á ári í 20 ár verða 100.000 kr. að 265.000 kr. Hafi 100.000 kr. bæst við í hverjum mánuði í mörg ár, þá getum við margfaldað þessa upphæð yfir 20 ára tímabil með ca. 240 og uppsafnaða skuldin er ekki 265.000 kr. heldur hátt í 64 m.kr. án þess að taka tillit til hækkunar vísitölunnar frá einum mánuði til annars. Greiðslubyrðin eykst hægt og bítandi, en kallar á að greiðslugetan geri það líka. Komi hökkt á tekjustreymið eða það bara fylgir ekki hækkun verðbótann, þá getur lántakinn lent í slæmum málum.

Það getur vel verið, að greiðslubyrði verðtryggðra lána hækki rólega, þegar verðbólga er lág, en hraðinn eykst með hverju prósentinu sem verðbólgan hækkar. Mestu skiptir, að lánþegar þurfa oft að bíða í langan tíma, þar til launin þeirra hafa hækkað nægilega til að dekka hækkun greiðslubyrðinnar. Og svona er þetta ár eftir ár. Lánþeginn er alltaf í eltingarleik og allt of oft situr hann eftir í sárum.

Aftur til Ísraels

Svo ég vitni aftur í ísraelsku húsnæðislánafélagin tvö úr greininni að ofan, þá sagði annað þeirra:

Inflation indexed rates, either fixed or variable

Whether the rate is fixed or variable, the capital is indexed to inflation.
This plan does not offer many advantages.
For now, we do not recommend it.

Fyrirtækið leit á þetta sem gildru.

Hitt benti á, að líklega væri ástæðan fyrir því að bankar vildu lána verðtryggt væri að líkur á greiðslufalli væru litlar. Þrátt fyrir þetta buðu íslenskir bankar, alveg fram á þessa öld, verðtryggð húsnæðislán með mjög háum vöxtum. Höfundur man að honum bauðst árið 1994 verðtryggt húsnæðislán með 9,0% vöxtum frá banka og 6,1% frá Húsnæðisstofnun. Svo merkilegt sem það var, þá treystu Glitnir, Kaupþing og Landsbanki Íslands, ásamt fjölda annarra lánveitenda, sér til að bjóða upp á lán með 2,5% vöxtum vegna þess að höfuðstóll lánsins var ólöglega tengdur við erlenda gjaldmiðla, en kröfðust allt upp í 5,0% vexti ef tengingin var við verðtryggðar krónur. Lánin, sem áttu að heita að veita stöðugleika, voru því í reynd verðlög eins og þau tryggðu minni stöðugleika en hin ólöglega gengistryggðu lán.

Því miður enn eitt dæmið um, að afsökunin um stöðugleika heldur ekki. Eins og verðtrygging hefur verið framkvæmd á Íslandi frá árinu 1979, þá bendir allt til þess að hún hafi aukið óstöðugleika, vegna þess að það vantar allan hvata til stöðugleika hjá þeim sem veita verðtryggð lán. Lánveitendur eru varðir í bak og fyrir og lántakar sitja uppi með hinn óhjákvæmilega óstöðugleika sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf svo lengi sem höfundur man eftir.

Verðbólga fyrir og eftir apríl 1979

Ein leið til að meta hve góð áhrif verðtrygging hefur haft er að skoða tölulegar upplýsingar. Verðtrygging lánsfjár var tekin upp með Ólafslögum í apríl 1979. Gögn um verðbólgu, sem hægt er að nálgast á vef Hagstofu, ná aftur til janúar 1939, þannig að hægt er að reikna ársverðbólgu frá janúar 1940. Fram til apríl 1979 eru því 473 mánuðir og meðalverðbólga þessa mánuði var 15,1%. Tökum næstu 473 mánuði og þeir enda með september 2018. Meðalverðbólga þeirra er 19,6% eða um 30% meiri verðbólga en þá mánuði, þegar verðtrygging var ekki við líði.

Nú hugsa örugglega margir, að þetta sé ekkert að marka, því verðbólgan var svo mikil, þegar verðtrygging var sett á. Vissulega alveg rétt, en ári eftir að verðtryggingin var tekin upp hafði ársverðbólga (þ.e. verðbólga síðustu 12 mánuða) hækkað úr 36,2% í 63,2%. Ári síðar (apríl 1981) var verðbólgan 56,2%, 45,1% í apríl 1982 og 79,7% í apríl 1983.

Vorið 1983 fóru fram kosningar og ný ríkisstjórn ákvað að banna verðtryggingu launa. Fyrir verðbólguþreytta Íslendinga fóru betri tímar í hönd, en í sjálfu sér ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það var ekki fyrr en aðilar vinnumarkaðarins tóku til sinna ráða að verðbólgan fór loksins niður fyrir 10%. Frá árinu 1992 hefur verðbólga verið nokkuð þolanleg miðað við það sem hún var frá 1972 og fram til janúar 1992, eða að jafnaði 4,3%. Það er hins vegar ekki verðtryggingunni að þakka, því bæði á árunum kring um hrun (2006-10) og hin síðari ár (2022-24) hefur verðtryggingin aukið á óstöðugleika. Fólk hefur forgangsraðað útgjöldum sínum og dregið úr almennri neyslu til að eiga fyrir afborgunum. Afleiðingar mikillar hækkunar verðbóta eftir hrun, varð til þess að margir misstu húsnæðið sitt ýmist beint til lánadrottna eða eftir nauðungarsölu til þessara sömu lánadrottna sem þá voru kallaðir kröfuhafar. Talið er að vel yfir 10.000 heimili hafi lent í þessari stöðu.